Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 18:24:42 (7718)

2001-05-14 18:24:42# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[18:24]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þegar ég fyrst heyrði af því að fyrirhugað væri að setja lög á verkfall sjómanna var ég mjög mikið á móti því. Það hafði verið rætt þegar verkfallinu var frestað að í þessari byssu væri bara ein kúla. En menn bentu á að í fyrsta lagi er sú staða uppi að þing er að ljúka störfum þannig að ekki er hægt að setja bráðabirgðalög fyrr en að góðum tíma liðnum. Þá er sjómannadagur í vændum sem gerir það að verkum að menn geta ekki farið í veiðitúra á fjarlæg mið. Allt þetta olli því að ég féllst á þau rök að nauðsyn bæri til að fresta verkfallinu því að sjálfsögðu getum við ekki horft á það aðgerðalaus í mjög langan tíma að ekki verði samið.

Herra forseti. Mín fyrsta reynsla sem barn af verkföllum var allsherjarverkföll sem voru þá mikið í tísku með miklu ofbeldi. Á sama tíma og manni var kennt að maður ætti ekki að beita ofbeldi las maður um leyfilegt ofbeldi í blöðum. Ég man eftir því sérstaklega að fólk var rifið út úr bílum og mjólk var hellt niður fyrir því við Elliðaárbrúna. Barnafólk hafði farið austur í sveitir til að ná í mjólk handa börnunum sínum. Allt þetta mátti. En maður varð hugsandi sem barn: Af hverju mátti beita ofbeldi þarna refsingalaust en ekki annars staðar?

Verkföll nú til dags byggjast aðallega á ofbeldi, herra forseti, sem er þó bannað við aðrar aðstæður. Þeir sem eru í verkföllum virðast margir hverjir stíla upp á að valda sem mestu tjóni þriðja aðila, ekki hver öðrum heldur þriðja aðila og þeir sem valda mestu tjóni fá hæstu launin. Ég nefni flugumferðarstjóra sem hóta því að Ísland missi allt flugstjórnarsvæðið sem mundi kosta íslenska þjóð og þá sömuleiðs milljarða á ári.

Það virðist oft vera þannig og maður upplifir það þannig að þeim sem eru í verkföllum er alveg sama jafnvel þó þeir sagi greinina sem þeir sjálfir sitja á. Þeir beita ofbeldi. Þetta er reynsla mín. En láglaunafólk, verkamenn sem geta ekki valdið þriðja aðila jafnmiklu tjóni njóta einskis af slíkri verkfallsbaráttu. Ég hugsa að það þurfi virkilega að fara að skoða það, herra forseti, hvort ekki sé rétt að endurskoða verkfallsréttinn, a.m.k. að menn beri ábyrgð gagnvart þriðja aðila. Það virðist vera sett undir sama flokk í löggjöfinni, verkföll, jarðskjálftar og eldgos þó að verkföllin séu af manna völdum og þeir aðilar sem til þeirra stofna ættu að bera ábyrgð gagnvart þriðja aðila.

Hver borgar brúsann hér? Að sjálfsögðu er það fyrst og fremst fiskverkafólk sem missir vinnuna eða fer á dagvinnu og lækkar mikið í launum. Hverjir aðrir? Fjöldi verktaka sem þjónusta útgerðina og frystihúsin sjá eflaust fram á gjaldþrot í kjölfar verkfalls. Svo er það þjóðin sjálf sem á auðlindina sem þessum aðilum, sem eru að deila báðir tveir því það eru tveir sem eiga í þessari deilu, er falin umsjón með. Hún sér fram á að missa af markaði. Hún sér fram á að gengið hrapi. Þjóðin horfir á.

Að sjálfsögðu getum við ekki horft á slíka stöðu mjög lengi, herra forseti. Við höfum horft á hana núna í sex vikur frá því að verkfalli var frestað en áður hafði það staðið í nokkra daga þannig að kominn er sá tími að ég held að við verðum að grípa inn í þó að okkur sé það óljúft. Mér er það alveg sérstaklega óljúft að grípa inn í þessa deilu. (ÖJ: Af hverju gerir þú það þá?)

Herra forseti. Hvers vegna gengur svona illa að semja hjá sjómönnum? Hefur einhver velt því fyrir sér? Hvernig stendur á því að sú stétt og atvinnurekendur eiga svona erfitt með að semja? Ég hugsa að það sé vegna þess að þeir búa við hlutaskipti sem er afskaplega snjöll aðferð, aldagömul aðferð við að skipta ágóðanum af veiðinni. Þá fékk skipið ákveðinn hlut, árabáturinn, herra forseti, fékk ákveðinn hlut og áhöfnin annan.

[18:30]

Síðan gerist það að menn fara að smíða miklu stærri og dýrari skip og miklu meira fjármagn þarf. Menn fara ýmsar leiðir, láta áhöfnina taka þátt í olíukostnaði eins og talað er um o.s.frv., og hlutaskiptin breytast. En í grundvallaratriðum eru hlutaskiptin þau sömu á skipi sem kostar 150 millj. með 10 manns um borð, þ.e. um 15 millj. á mann, og skipi sem kostar 2 milljarða með 30 manns um borð þar sem hvert pláss kostar um 40--50 millj. Þetta er vandinn og um þetta gengur svo illa að semja vegna þess að hlutaskiptin eru nánast þau sömu. Ekki er tekið tillit til þeirrar fjárfestingar sem er í skipunum.

Menn hafa leyst þennan vanda á ýmsan hátt, t.d. með því að stilla saman útgerð og fiskvinnslu og borga lægra verð, herra forseti. Þannig fær fjármagnið sinn hlut.

Síðan kemur annað inn í þetta sem er sala á veiðiheimildum sem ruglar allt dæmið. Sum skip hafa veiðiheimildir, önnur ekki og þó að menn horfist kannski ekki í augu við þann veruleika taka sjómenn þátt í kaupum útgerðarinnar á kvóta, hvort sem það er opinbert eða ekki.

Mér finnst að bæði útgerðarmenn og sjómenn séu með ákveðna glansmynd, þeir eru með einhverja ímynd. Þetta er eins og tölvuleikur. Þeir horfa ekki á raunveruleikann. Raunveruleikinn er sá að munur er á trillu og skipi með fullkomna verksmiðju í lestinni sem kostar 2.000 millj., og munur er á skipi sem er með kvóta og skipi sem er kvótalaust. Þetta er hinn nakti raunveruleiki og menn eru með alls konar tilfæringar til að plata sjálfan sig með því að hafa lægra verð og með því að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. Það er eins og venjuleg skynsemi hafi yfirgefið svæðið.

Ég ætla að nefna eitt dæmi varðandi útgerðirnar. Hvernig stendur á því að útgerðir selja ekki frá sér allar veiðiheimildir upp á 100 kr. kg af þorski? Þeir ná aldrei þeim hagnaði af því að veiða fiskinn. Hvernig stendur á því að þeir gera það ekki? Hvar er skynsemin? Af hverju halda menn uppi einhverju gerviverði á kvótanum en selja ekki allir? Þá mundi verðið lækka. Þetta er til gagnrýni á útgerðina. (Gripið fram í.) Einmitt. Þeir selja ekki allan aflann. Þeir plata sjálfa sig og það er gert með vitund sjómanna að þeir selja ekki allan afla á markaði og þannig eru menn að búa til einhverja glansmynd í staðinn fyrir að horfast í augu við hvernig raunveruleikinn er.

Síðan kemur annað dæmi og ég skil ekki í mönnum að þeir skuli ekki skammast sín fyrir að hafa svona reglu. Þegar fækkað er í áhöfn vex kostnaður útgerðarinnar. Fyrst þegar ég sá þetta hélt ég að það hefði verið einhver prentvilla og menn mundu rjúka upp til handa og fóta og laga þetta. En það er alveg sama. Það gengur ekki. Eðlileg skynsemi virðist hafa yfirgefið svæðið, bæði varðandi sjómenn og útgerðarmenn.

Afleiðingin af því að fjármagnið fær ekki hlut í hlutaskiptunum er það að í fáum stéttum er eins mikill launamunur. Það eru til sjómenn sem eru með um milljón á mánuði og því miður er það þannig að almenningur fær yfirleitt að heyra af því. Svo eru til aðrir sjómenn sem eru með miklu, miklu lakari laun. Sumir fara niður á kauptryggingu öðru hverju. Þeir eru að basla í afla- og gæftaleysi. Blöðin eru ekki full af þeim fréttum. Ekki er verið að segja frá þeim sjómönnum sem koma kannski með sáralitlar tekjur heim.

Að mínu mati er þetta vegna þess að menn horfa ekki á þá fjárfestingu og það fjármagn sem bundið er í útgerðinni og mér finnst að menn eigi að taka á því. Þegar menn hafa horfst í augu við raunveruleikann geta menn farið að semja, þá verða ekki þau vandræði eins og hafa verið hingað til og þá verða sjómenn ekki með lausa samninga svo árum skiptir.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi var ég á móti því að grípa strax inn í dæmið. Ég var á móti því að fresta þessu verkfalli eða banna það. En ég féllst á þau rök að vegna þeirra aðstæðna að þingið er að hætta og út af sjómannadeginum og ýmsum öðrum ástæðum hef ég fallist á það vegna þess að ég get ekki horft upp á að verkfallið haldi áfram fram í júní eða fram í júlí.