Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 19:14:06 (7748)

2001-05-14 19:14:06# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, KVM
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[19:14]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ummæli hæstv. félmrh. áðan gefa til kynna að búast megi við breytingu á því frv. sem hér hefur verið lagt fram til laga um kjaramál fiskimanna o.fl. og er það vel ef svo verður gert.

[19:15]

Einn af hornsteinum lýðræðisins er að fólk megi segja það sem því býr í brjósti, að fólk megi segja skoðanir sínar án þess að þurfa að óttast um sig eða sína. Við Íslendingar höfum verið stoltir af því að búa í landi undanfarin ár sem leyfir þetta. Það eru nefnilega mjög mörg lönd í veröldinni og margar þjóðir og margt fólk sem býr við það að geta ekki sagt það sem það langar til að segja. En til þess að þetta fólk geti öðlast frelsi tjáningarinnar þá grípur það til ákveðinna aðgerða. Verkfallsvopnið er eitt þeirra og það er alltaf samtakamáttur fólksins sem kemur því áfram og gerir samfélögin betri. Þess vegna urðum við frjáls þjóð, vegna þess að það var samtakamáttur meðal okkar Íslendinga.

Ef við skoðum sögu síðustu aldar, íslenska sögu, þá sjáum við að hún einkennist af mikilli baráttu sérstaklega á fyrri hluta aldarinnar. Það voru mikil verkfallsátök og það voru jafnvel slagsmál á bryggjum. Allt var þetta gert til þess að knýja á um bætt kjör og bætta aðstöðu, aukna menntun, aukið öryggi í heilbrigðismálum og svona get ég lengi talið. Baráttan hefur borið árangur.

Nú eru sjómenn í verkfalli og sjómenn eru að berjast fyrir því að fá í grundvallaratriðum markaðsverð fyrir fiskinn sem þeir veiða. Það kom fram í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals að það væri gamalreynd aðferð að hafa hlutaskipti og það er rétt. Menn fóru á vertíð og áður en krónan varð til þá var fiskurinn gjaldmiðillinn hjá þeim og þeir komu heim með skreið í staðinn fyrir spesíur, krónur eða einhvern annan gjaldmiðil. Þetta er í raun svona enn í dag nema að sá sem gerir út skipið hann fær aflann í raun og veru til ráðstöfunar í mörgum tilvikum og ákveður að mörgu leyti verðið. Það má spyrja hvort það hafi aldrei verið rætt um það í öllum þessum samningaviðræðum hvort sjómenn gætu þá ekki bara tekið sína fiska sjálfir og ráðið yfir þeim fiskum sem eru þeirra hlutur og þeir farið þá með sína fiska á markað og selt og gefið jafnvel einhverjum í soðið. Hvað mundu útvegsmenn segja við þessu?

Það hefur verið talað um það hér líka að verkföll bitni á þriðja aðila. Öll verkföll hljóta að gera það. Ég veit ekki um neitt verkfall sem bitnar ekki á þriðja aðila. Sem betur fer eru stéttir landsins flestar það mikilvægar að þær skipta máli fyrir fleiri en þá sem í þeim eru. Ef verkafólk, fiskverkafólk, fer allt í verkfall þá bitnar það auðvitað á allri þjóðinni. Það verður mjög erfitt fyrir alla þjóðina ef allt fiskverkafólk fer í verkfall. Ég man eftir því að fyrir fáum árum fór fiskverkafólk á Vestfjörðum í mjög hatrammt og erfitt verkfall þar sem verið var að berjast fyrir 100 þús. kr. í lágmarkslaun og það hefur ekki náðst enn. Ég vona að baráttan hjá því fólki haldi áfram og gangi betur og þetta fólk fái meiri stuðning og samstöðu hjá þeim sem lýstu því yfir áðan að hækka ætti laun þess fólks meira heldur en er.

Tap sjómanna á þessu verkfalli hefur auðvitað verið mjög mikið. Skipin hafa ekki róið, eðlilega. Hluturinn er því enginn og sjómenn sem aðrir eru með sínar skuldbindingar, sínar fjölskyldur, búa í sínum húsum sem þeir skulda af og svo er margt annað og auðvitað bitnar það hart á þeim þó að sumir þeirra kunni að vera tekjuhærri en margir aðrir. Það er ekkert grín þegar menn fara í verkfall.

Tap útgerðarinnar er líka mikið, segja margir. En ég spyr og kannski getur einhver frætt mig um það. Í verkföllum sjómanna undanfarin ár þegar lög hafa verið sett á þau, hversu mikið hefur útgerðin tapað á því? Þá má spyrja t.d.: Hafa útgerðirnar ekki náð að veiða þann kvóta sem þær fengu úthlutað þau ár sem þessi verkföll voru? Hversu miklum kvóta töpuðu útgerðirnar í þessum verkföllum? Hversu miklu hreinlega misstu þær af vegna þess að verkfall stóð yfir eða náðist kvótinn allur upp? Munu mörg útgerðarfélög á Íslandi ekki ná því að veiða þann kvóta sem þeim hefur verið úthlutað á því fiskveiðiári sem lýkur núna nk. 1. september? Svo geta menn spurt í framhaldi af því: Verður tjón þeirra meira, eða sjómannanna?

Kannski var ekkert farið að reyna á útgerðina í þessari baráttu vegna þess að enn var tími til þess að veiða þann kvóta sem úthlutaður var fyrir þetta fiskveiðiár. Þetta þarf að athuga vel.

Í umræðunni hefur einnig verið talað um að verið sé að setja lög á útvegsmenn með banni við verkbanni. Hvaða útvegsmenn hafa harmað það að þetta frv. er fram komið? Hvaða útvegsmenn hafa harmað það að í frv. kemur fram grein sem leggur bann við verkbanni þeirra? Ekki hef ég heyrt um það enn. En kannski hafa þeir ekki tekið við sér enn þá.

Herra forseti. Þingmenn fengu í hendur og sendar til sín upplýsingar um hvaða áhrif það hefði ef samningurinn sem var gerður á milli Landssambands ísl. útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands væri látinn hafa áhrif á samning sjómanna. Ef gerðardómur tekur mið af frv. eða þeirri gerð sem á að láta yfir sjómenn dynja, eins og sagt er fyrir um í frv., þá kemur í ljós samkvæmt þessari töflu, herra forseti, að hásetar og áhöfn á litlum ísfisktogurum muni lækka í launum. Þar sem laun breytast til lækkunar á skip með tíu manna áhöfn, sem er raunmönnun, munu launin lækka um 14,39%. Þetta er á litlum ísfisktogurum. Á litlu frystitogurunum mun það vera minna reyndar, þ.e. 5,53%. Það er ekki góð latína þegar hæstv. ríkisstjórn grípur inn í kjaradeilurnar með þessum hætti og stuðlar að því að laun sjómanna lækki í þeim tilvikum sem ég nefndi áðan.

Herra forseti. Eitt langar mig til að tala um sem ég hef ekki vikið að, en aðrir hv. þm. hafa gert. Nú er nefnd að störfum sem á að endurskoða lög nr. 38/1999, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Sú nefnd virðist vera lömuð eins og hún hafi verið bitin af könguló. Er ekki skrýtið og furðulegt að verið sé að að leggja fram frv. til laga um kjaramál fiskimanna o.fl. af hæstv. ríkisstjórn sem getur undið svona frv. fram úr erminni eins og ekkert sé ...

(Forseti (ÍGP): Forseti vill láta þess getið að gert var ráð fyrir matarhléi milli kl. 19.30 til 20.00. Á hv. þm. langt eftir af ræðu sinni?)

Ég mælist til þess að við tökum þá matarhlé. Þó sagt sé að maðurinn lifi ekki á brauði einu saman þá verðum við samt að ...

(Forseti (ÍGP): Það er hárrétt hjá hv. þm. Við munum gera matarhlé til kl. 20.00)