Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 20:20:24 (7753)

2001-05-14 20:20:24# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[20:20]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt. Það er auðvitað vart hægt að horfa upp á það að sjómenn séu í verkfalli mánuðum saman. Það er alveg ljóst mál. Hins vegar hefur verkfallið staðið í sex vikur og það sem ég hef bent á í mínu máli hér, er að það er kannski ekkert farið að reyna svo sérstaklega mikið á útvegsmenn. (KPál: Eftir einn og hálfan mánuð.) Eftir einn og hálfan mánuð já, vegna þess að útvegsmenn hafa ákveðinn tíma til þess að veiða ákveðið magn af fiski. Það er kvótakerfið sem gildir og það er náttúrlega vandamálið. Það þarf að breyta lögunum um stjórn fiskveiða þannig að umhverfið verði þannig að hægt sé að semja. Það er ekki hægt núna eins og þetta er núna og þetta er klemma. (KPál: Þú vilt hætta með kvótakerfið. Ertu að meina það?) Ég er að tala m.a. um það. Annars er erfitt að svara þegar gripið er svona fram í. Það sem ég er að segja er að lögin um stjórn fiskveiða eru óskapnaður og hafa skapað gífurleg vandræði og stórkostlegar skuldir hjá útgerðinni því eftir að þau voru sett á hafa skuldir útgerðarinnar stóraukist og eru orðnar vandamál í íslensku efnahagslífi. Ég held að menn ættu frekar að snúa sér að því að setja ný lög um stjórn fiskveiða heldur en að setja lög á sjómenn núna alveg strax.