Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:18:38 (7797)

2001-05-15 11:18:38# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:18]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Þetta vefst eitthvað fyrir hv. þm. því að hún er auðvitað sér vel meðvituð um það hvernig að þessu var staðið og hver afstaða manna hefur verið til Kvótaþings. Því held ég að hv. þm. skilji vel þá afstöðu sem ég hef til málsins þó að það þjóni auðvitað tilgangi stjórnarandstöðunnar að færa þetta í einhvern búning til að halda þessari umræðu hér gangandi. Við yfirlýsingar sjómannanna verður þetta mál allt miklu umfangsminna og áhrifaminna þar sem þeir hafa sjálfir ákveðið að enda verkfallið. Markmiðið með því sem við höfum verið að gera hér er auðvitað að binda enda á verkfallið. Og ef þeir vilja gera það á þennan hátt og telji sig vera betur í stakk búna til þess að leysa deilumál sín þannig þá er það bara vel og ég óska þeim alls hins besta við það að leysa úr deilumáli sínu við útvegsmenn.