Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:19:57 (7798)

2001-05-15 11:19:57# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:19]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég þreytist seint í rauninni að verða hissa á hinu háa Alþingi, á þeirri lítilsvirðingu sem mönnum og málefnum eru hér sýnd. Hér kemur hæstv. sjútvrh. og lætur að því liggja að menn séu að fjalla um þau mál sem hér eru til umræðu til að halda umræðu gangandi. Er það til að halda umræðu gangandi að menn kalla eftir viðhorfum hæstv. sjútvrh. þegar fyrir liggur að Sjómannasambandið er búið að aflýsa verkfalli og menn vilja fá svör við áleitnum spurningum vegna þess að eftir sem áður stendur til að breyta starfsumhverfi þeirra? Er það til að halda umræðu gangandi að hér skuli vera kallað eftir því að komið sé fram við aðila af virðingu? Svo biður hæstv. ráðherra um skilning á skoðunum sínum á Kvótaþingi, um skilning á því að hann vilji þar fara eftir því sem LÍÚ óskar eftir.

Ef hæstv. ráðherra hefði verið viðstaddur hér í morgun þegar menn voru að fara yfir nefndarálit og verið var að greina frá því hvað fram kom á fundum sjútvn. í nótt sem leið þá hefði honum orðið ljóst að það er ekki vilji sjómanna að Kvótaþingið fari út. Þeir eru á móti því vegna þess að þetta er það illskásta sem þeir hafa í stöðunni þó svo að vélstjórar hafi samþykkt það að útvegsmenn fengju þessa ósk sína uppfyllta í því frv. sem hér liggur fyrir.

Þetta var búið að koma fram, herra forseti, og þessu verðum við að halda til haga vegna þess að það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra ætlar sér að brjóta á sjómönnum með því að breyta starfsumhverfi þeirra með þeim hætti sem hér liggur fyrir, enda þótt þeir ætli að aflýsa verkfalli og kjósi því að starfa áfram eftir sínum gamla kjarasamningi.

Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. taki á þeim málum af meiri alvöru sem hann á að fást hér við.