Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:35:35 (7807)

2001-05-15 11:35:35# 126. lþ. 123.12 fundur 591. mál: #A viðurkenning á menntun og prófskírteinum# (EES-reglur) frv. 49/2001, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:35]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.

Frumvarpið miðar að því að koma til framkvæmda hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1999/42/EB um tilhögun viðurkenningar á menntun og hæfi með tilliti til atvinnustarfsemi sem fellur undir tilskipanir um afnám hafta og bráðabirgðaráðstafanir og um viðbót við almennu kerfin til viðurkenningar á menntun og hæfi. Tilskipunin var samþykkt í júní 1999 og á að vera komin til framkvæmda í aðildarríkjunum fyrir 31. júlí 2001.

Með samþykkt þessarar nýju tilskipunar eru margar eldri tilskipanir felldar úr gildi og ákvæði þeirra sameinuð í þessari einu tilskipun. Kerfi tilskipana um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum og starfsréttindum er með þessu einfaldað verulega. Flest ákvæði tilskipunarinnar eru þegar í gildi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ákveðinn hópur fólks sem hefur menntun og starfsþjálfun á þeim sviðum sem tilskipunin tekur til var þó þannig settur að hann hafði engan viðurkenndan rétt til að fá menntun sína og starfsþjálfun viðurkennda. Í tilskipuninni eru sett ákvæði sem bæta úr þessu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Menntmn. er einróma í áliti sínu.