Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 15:08:17 (7824)

2001-05-15 15:08:17# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil á sama hátt og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir merka og góða yfirferð, ekki síst varðandi lífeyrissjóðsmál sjómanna. Kannski hefði farið betur á því að hv. stjórnarþingmenn sem ætla að styðja þetta frv. hefðu verið í salnum og hlýtt á þennan akademíska fyrirlestur hv. þm. en því miður voru þeir fáir.

Ég og hv. þm. vorum saman á fundi í nótt þar sem farið var yfir þetta frv. til laga og mig langar að spyrja hann um mat hans á afstöðu Sjómannasambandsins varðandi aflýsinguna á verkfallinu. Er það ekki vegna þess að það er kalt mat Sjómannasambandsins að frv. leiði til kjaraskerðingar, gerðardómnum séu gefnar línur í frv. þannig að þeir hafi metið það þannig að betra væri að aflýsa verkfalli í von um að halda málum í því horfi sem þau eru núna í staðinn fyrir að upplifa og standa frammi fyrir kjaraskerðingu með þessu frv.?