Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 15:19:23 (7907)

2001-05-16 15:19:23# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. í minni hlutanum séu vísvitandi eða óvart að vitna rangt í ræðu mína síðustu daga. Ef það er óvart þá er það auðvitað fyrirgefið. En ef það er af ásettu ráði þá er það verra mál sem við þyrftum að skoða í framhaldinu.

En þær aðstæður sem þá voru uppi þegar ég gaf þessi svör gerðu það að verkum að það sem ég var að tala um var hvað gerðist ef Sjómannasambandið og Farmanna- og fiskimannasambandið aflýsti verkfallinu. Það kemur skýrt fram í fyrstu ræðunni um þetta efni og er síðan vitnað til þess og vísað til þess í öllum hinum ræðunum, bæði þann sama dag og daginn eftir. Aldrei er talað um ,,ef aðili aflýsi`` heldur er talað um ,,Sjómannasambandið og Farmanna- og fiskimannasambandið``. Þennan mun virðast hv. þingmenn ekki skilja. Vonandi er það óvart, vonandi ekki viljandi.

Þetta virðast hins vegar forustumenn sjómanna hafa skilið, a.m.k. einhverjir þeirra því haft er eftir formanni Sjómannafélags Reykjavíkur í fréttum í gær, með leyfi herra forseta:

,,Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, sagði í samtali við fréttastofu að hann hefði það á tilfinningunni að samstöðuleysi yki líkurnar á því að kjaramál þeirra yrðu sett undir lög þrátt fyrir allt. Allar fyrri yfirlýsingar sjávarútvegsráðherra um málið miðuðu að sjálfsögðu við að Sjómannasambandið í heild sinni aflýsti verkfalli en ekki hluti þess.``

Maðurinn sem er í baráttunni skilur málið rétt og fer með rétt mál þrátt fyrir hitann en hv. þingmenn á Alþingi geta ekki vitnað rétt í útskrifaðar ræður.