Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 16:32:39 (7919)

2001-05-16 16:32:39# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talar um lágmarksinngrip. Ég get verið sammála því að það eigi yfirleitt ekki að grípa til afdrifaríkari ráðstafana en nauðsynlegt er. En hvað eru lágmarksinngrip? Ég hef ekki séð neinar tillögur frá minni hlutanum um hvernig hann hefði viljað grípa inn í þessa deilu. Ég hef ekki heyrt minni hlutann lýsa því yfir að hann væri tilbúinn að grípa inn í deiluna.

Það er komin tillaga frá meiri hlutanum um hvernig eigi að leysa þetta mál. Allt orkar tvímælis þá gert er. Eina niðurstaðan sem menn vilja fá í svona máli er að allir komist á sjó, það sé ekki röð verkfalla eftir þetta eða inngrip sem enginn getur séð fyrir. Ég reikna með að það sé ástæðan fyrir því að menn fara þessa leið. Ef hv. þm. viðurkennir að það hafi þurft lágmarksinngrip inn í þessa deilu þá hef ég ekki séð hvaða inngrip það hefði mátt vera.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt og það vita svo sem allir að samkvæmt þessum lögum er gert ráð fyrir því að menn fái tvær vikur til að ljúka málinu. Ég er ekki að segja að það takist samningar undir þeim kringumstæðum. En ég vil samt meina að það væri mjög mikið atriði fyrir samningsaðila, bæði útvegsmenn og sjómenn, að ná samningum á þessum tíma.