Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 21:29:09 (7948)

2001-05-16 21:29:09# 126. lþ. 126.1 fundur 551#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, RG
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 126. lþ.

[21:29]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ætla mætti að landsmenn búi við sterka ríkisstjórn því stjórnarflokkarnir hafa mikinn meiri hluta á Alþingi. Stjórnvöld upplifa vald sitt mjög sterkt og beita því af þunga í samskiptum við stjórnarandstöðuna en ekki síður í athöfnum sem snúa að stofnunum og almenningi í landinu. Heilbrigðri og málefnalegri gagnrýni og umræðu utan úr þjóðfélaginu er ekki unað né faglegri umfjöllun sérfræðinga í stjórnkerfinu. Sérstaklega á þetta við um viðhorf eða skoðanir sem henta ekki afstöðu ráðamanna þá stundina. Ég ætla að nefna dæmi. Af nógu er að taka.

[21:30]

Forstöðumenn ríkisstofnana boðuðu til fundar á síðasta ári. Hvert var umræðuefnið? Þeir vildu ræða um þá stöðu sína að mega ekki tjá sig faglega um málefni sem undir stofnanir þeirra heyra, ef sú faglega afstaða var ekki þóknanleg þeim sem valdið hefur. Þessi uppákoma vakti ekki umtalsverða athygli. Sama má segja um það þegar vísindasiðanefndin var leyst upp í kjölfar þess að synja Íslenskri erfðagreiningu um upplýsingar. Viðbrögðin urðu þá sterk þegar forsrh. líkaði ekki mat Þjóðhagsstofnunar á stöðu efnahagsmála. Mörgum brá í brún þegar skýr og einbeittur vilji forsrh. kom í ljós strax í kjölfarið um að leggja stofnunina niður. Dómsvaldinu var veitt ofanígjöf vegna kvótadóms. Og alþjóð veit hvernig samskiptin voru við Öryrkjabandalagið þegar hæstaréttardómur féll sem úrskurðaði þessum hópi óskerta tekjutryggingu.

Það veldur öllu hugsandi fólki áhyggjum að þessi athyglisverðu dæmi eru allt of mörg til að vera tilviljun. Þau eru beinlínis sláandi þegar ýmsar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar eru skoðaðar. Viðbrögðin í málum þar sem eðlileg og málefnaleg gagnrýni er höfð uppi á ríkisstjórnina eru engan veginn til sóma hjá þjóð með langa hefð fyrir virku lýðræði.

Forsrh. gagnrýndi harkalega spá Þjóðhagsstofnunar í desember um að verðbólga yrði 6% á þessu ári. Hún mælist nú 5,5% milli ára og samkvæmt Seðlabankanum stefnir verðbólga í 5,7% á árinu, sem þýðir reyndar um 6% seinni hluta ársins. Þjóðhagsstofnun hafði bara allt of rétt fyrir sér. Þennan sannleika mátti ekki segja. Það er heppilegra að þegja.

Forstöðumenn ríkisstofnana búa oft yfir upplýsingum sem geta verið afar óþægilegar fyrir stjórnvöld. Þeir hafa lært að það er betra að þegja. Vísindasiðanefndin mátti ekki neita Íslenskri erfðagreiningu um upplýsingar. Þar með skulu vísindamenn vita að það er betra að þegja. Skilaboðin til Öryrkjabandalagsins voru alveg skýr: Það hefði verið betra fyrir ykkur að þegja.

Þessi framkoma ríkisstjórnarinnar tekur á sig alvarlegustu myndina þegar ráðherrar neita að horfast í augu við staðreyndir efnahagslífsins. Viðvörunum efnahagsstofnana allt síðasta ár um hættuástand fram undan í efnahagsmálum var ekki sinnt. Þegar Samfylkingin benti á þessar staðreyndir og gerði ábendingar Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka og OECD að sínum gerði forsrh. lítið úr viðvörunum og fjmrh. tók undir. Frá Seðlabankanum berast nú þær fregnir að nýtt met hafi verið slegið í skuldaaukningu þjóðarbúsins erlendis, að stöðugleiki fjármálakerfisins sé í hættu og verðtryggðar skuldir heimilanna hafi hækkað um 15 milljarða frá áramótum.

Góðir tilheyrendur. Ef verðbólga er 6% í stað 2%, sem allar þjóðir keppa að, virkar hún svipað og skattar hefðu verið hækkaðir um 2%. Þegar gengi lækkar verða allar innfluttar neysluvörur dýrari. Að framlengja svokallað góðæri með umræðunni einni saman eru stjórnarhættir suður-amerískra ríkja. Há verðbólga þýðir að launin elta --- en bara seinna. Gamalkunnur vítahringur fer í gang. Að bregðast ekki við er að bregðast þeim fjölskyldum sem reynt hafa að sjá fyrir um útgjöld heimilisins, tekið ákvarðanir á grundvelli þess sem þær hafa milli handa, staðráðnar í að standa við skuldbindingar sínar. Að bregðast ekki við er óvirðing við þá þjóðfélagshópa sem báru uppi þjóðarsáttina á sínum tíma og gerðu hófsama kjarasamninga í vetur.

Það er ekki sterk ríkisstjórn sem hagar sér svona. Það er ríkisstjórn sem að þingmeirihluta gæti verið sterk en er í reynd afar veik. Umræða sem byggir á frjóum hugmyndum, rannsóknum og eðlilegri gagnrýni er forsenda framfara í öllum lýðræðisríkjum. Ríkisstjórn sem óttast umræðu og beitir valdi til að halda henni niðri er veik stjórn.

Góðir landsmenn. Stjórnmál snúast um hugmyndafræði. Og hana þarf að endurskoða í síbreytilegum heimi. Samfylkingin varð til vegna hugsjónar um sameiningu jafnaðarmanna og fyrir brýna þörf á endursköpun stjórnmálanna. Sigurganga jafnaðarmanna í Evrópu er slíkri endursköpun að þakka og því að þeir svöruðu kalli tímans.

Samfylkingin byggir á jafnrétti og kvenfrelsi, sterku félagslegu réttlæti og virkjun markaðslögmála. Samfylkingin hefur sýnt það í verki að hún er reiðubúin að axla ábyrgð. Samfylkingin er merkisberi lýðræðislegrar þróunar sem þetta þjóðfélag þarf sárlega á að halda í dag. Og Samfylkingin mun svara kalli tímans. --- Góðar stundir.