Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 10:20:48 (8091)

2001-05-18 10:20:48# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[10:20]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar mál það sem er á dagskrá um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands var til 2. umr. flutti Samfylkingin nokkrar brtt. Tvær af þeim brtt. voru dregnar til baka til 3. umr. og eru þær fluttar núna á þskj. 1388 og snerta m.a. starfsmenn bankanna og hvernig með skuli fara við sölu á hlutafé í bönkunum.

Ég nefndi það að fulltrúar Samfylkingarinnar höfðu flutt nokkrar brtt. sem ég vil rifja upp vegna þess að þær snerta málflutning minn við þessa umræðu en brtt. voru þær að Samfylkingin telur rétt, miðað við þá stöðu sem er nú á markaðnum, að heimila ríkisstjórninni að selja aðeins annan bankann. Lögðum við til að ríkisstjórnin fengi að þessu sinni aðeins heimild til að selja hlutafé sitt í Búnaðarbankanum. Við lögðum til að dreifð eignaraðild yrði m.a. tryggð með því að 10% af hlutafé bankans verði skipt jafnt meðal ríkisborgara með tilteknum kvöðum. Við lögðum til að starfsöryggi starfsmanna yrði tryggt með því að eðlileg velta starfsmanna væri höfð í fyrirrúmi við hagræðingu innan bankans og starfsfólki boðið upp á endurmenntun og starfsþjálfun. Sömuleiðis lögðum við til að starfsmenn fái fulltrúa í stjórn með fullum réttindum í anda þeirrar stefnu sem við viljum sjá um atvinnulýðræði og loks að sala á hlutafé í bankanum verði ekki hafin fyrr en fyrir liggur staðfesting Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar á því að aðstæður á fjármálamarkaði séu með þeim hætti að verjanlegt sé að ráðast í söluna.

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fara yfir þá brtt. sem við flytjum núna og rökstuðning fyrir henni. Ástæða þess að hún var dregin til baka til 3. umr. var sú að hún þarfnaðist nokkurra lagfæringa við miðað við það að búið var að fella aðrar þær tillögur sem Samfylkingin flutti við 2. umr. máls.

Herra forseti. Mjög erfitt er að skilja þá afstöðu stjórnarmeirihlutans að taka ekki tillit til starfsfólks við bankana og hafa samráð við starfsfólkið um söluna. Það sem okkur finnst eðlilegt og sjálfsagt er að hér verði tækifærið notað og stigið skref í átt til atvinnulýðræðis með þátttökulýðræði þannig að starfsmenn bankanna fái fulltrúa í stjórn beggja bankanna líkt og verið hefur í löndunum sem við berum okkur saman við og kapp hefur verið lagt á að gera, t.d. hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Hæstv. viðskrh. hefur verið þráspurður um það við fyrri umræður málsins hvort hún teldi ekki ástæðu til að hafa samráð við starfsfólk, hvort hún teldi ekki ástæðu til að starfsmannavelta yrði látin ráða við hagræðingu í bankakerfinu þannig að ekki þyrfti að koma til uppsagna hjá starfsfólki og einnig um skoðun hennar á því að starfsfólk fengi fulltrúa í stjórn bankanna.

Herra forseti. Mér virðist svo af svörum hæstv. viðskrh., og þykir mér miður að hæstv. ráðherra skuli ekki vera viðstödd umræðuna vegna þess að það hefðu verið nokkrar fyrirspurnir sem ég hefði viljað beina til hæstv. ráðherra við lokaafgreiðslu málsins en hæstv. viðskrh. hefur í reynd viðurkennt að lítið samráð hafi verið haft við starfsmenn bankanna. Það hafi einungis verið gert á fyrri stigum þegar hugmyndir vöknuðu í ríkisstjórninni um að sameina bankana en eftir það hefur ekkert samráð verið haft við starfsmennina.

Þegar við ræddum málið við 2. umr. fór ég yfir þær hugmyndir sem starfsmenn bankanna eru sjálfir með um stöðu þeirra innan bankakerfisins við þessa breytingu. Þeir höfðu lagt fram mjög margar tillögur um stöðu starfsmannanna. Ég innti hæstv. ráðherra eftir því hvort ekki væri full ástæða til að kalla til forustumenn starfsfólks til að ræða þær hugmyndir sem starfsmenn eru með á borðum sínum til að treysta stöðu sína og eru vissulega margar hverjar til hagsbóta og framdráttar fyrir bankana en hæstv. viðskrh. gaf í reynd lítið út á það að leita eftir samráði við starfsmennina.

Ég hafði þó satt að segja, herra forseti, vonast til þess að miðað við þá umræðu sem fram hefur farið og óskir starfsmanna að ráðherrann hefði engu að síður gert gangskör að því að kalla til forustumenn starfsfólks milli 2. og 3. umr. og hefði áhuga á því, herra forseti, núna við lok afgreiðslu málsins að inna ráðherrann frekar eftir því hvort hún hefði ekki talið ástæðu til þess miðað við umræðurnar að kalla starfsmennina til. Þá hefði ég viljað vita, herra forseti, hvort hæstv. ráðherra gæti ekki greint okkur frá þeim umræðum. Það væri, herra forseti, með ólíkindum ef hæstv. ráðherra hefði ekki gert það miðað við þær umræður sem fóru fram við 2. umr. málsins.

Fulltrúar bæði Sambands íslenskra bankamanna, Félags starfsmanna Landsbankans og starfsmannafélags Búnaðarbanka Íslands komu á fund nefndarinnar og skiluðu einnig ítarlegri umsögn til efh.- og viðskn. um stöðu starfsmanna við þessa breytingu sem ég tel rétt að rifja upp, herra forseti, þar sem það tengist líka þeirri brtt. sem við drógum til baka til 3. umr. og kemur nú til afgreiðslu þegar málið er á lokastigi.

Ég vil ræða það í samhengi við þessa brtt. en brtt. á þskj. 1388 orðast svo, með leyfi forseta:

,,Við sölu á hlutafé ríkissjóðs skv. 2. mgr. 6. gr. og hagræðingu sem henni fylgir innan Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. skal ráðherra beita sér fyrir því að eðlileg velta starfsmanna verði höfð í fyrirrúmi. Ráðherra skal jafnframt beita sér fyrir því að samið verði við starfsfólk um möguleika á starfsþjálfun og endurmenntun til að auðvelda aðlögun að nýrri tækniþróun og breytingum í bankakerfinu.``

Herra forseti. Áður hafði verið felld við 2. umr. tillaga okkar um að starfsmenn Landsbanka Íslands annars vegar og Búnaðarbanka Íslands hf. hins vegar skyldu eiga einn fulltrúa í bankaráði viðkomandi banka og átti að skipa hann að fenginni tillögu frá starfsmannafélagi hvors banka um sig. Herra forseti. Mér finnst ótrúleg skammsýni hjá hæstv. ríkisstjórn að grípa ekki tækifærið og fara inn í þá breytingu að starfsmenn eigi fulltrúa í bankaráðunum. Ég nefndi það áðan og það eru þær leiðir sem farnar hafa verið hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Þar var t.d. ekki beðið eftir því að breyta hlutafélagalöggjöfinni eða taka slíkt ákvæði almennt upp varðandi þátttöku starfsmanna í stjórnun fyrirtækja, t.d. á fjármálamarkaði, heldur var tækifærið notað þegar bankalöggjöfinni var breytt og sú breyting gerð að starfsmenn áttu fulltrúa í stjórn bankastofnana. Því miður, herra forseti, stöndum við frammi fyrir því að ríkisstjórnin og þingmenn hennar hafa fellt tillöguna. Þá standa eftir þær tillögur sem ég hef greint hér frá sem lúta að starfsmönnunum.

[10:30]

Ég vil í þessu sambandi minna á að í umsögn frá Sambandi íslenskra bankamanna segir, með leyfi forseta:

,,SÍB, FSLÍ og SBÍ eru þeirrar skoðunar að huga þurfi vel að málefnum starfsmanna áður en til þess kemur að bankarnir fari úr höndum ríkisins þar sem gera má ráð fyrir að þær breytingar og hagræðingar sem í kjölfarið fylgi komi fyrst og fremst niður á starfsmönnum. Það er reynsla annarra, m.a á hinum Norðurlöndunum og á Bretlandseyjum, að eldri starfsmönnum sé fyrst og fremst fórnað þegar í gang fara hagræðingar vegna einkavæðingar og því miður er eldri konum fyrst sagt upp störfum, en þær eru mjög margar í bönkunum tveimur.``

Ég held, herra forseti, að það sé einmitt reynslan sem við höfum gengið í gegnum á umliðnum árum, að hagræðing í bankakerfinu hafi fyrst og fremst komið fram í uppsögnum á starfsfólki, ekki síst eldri starfsmönnum og konum þá sérstaklega. Þau hundruð starfsmanna sem sagt hefur verið upp er mér tjáð að séu að 90% konur. Það er öll hagræðingin, herra forseti. Við sjáum ekki, miðað við þær breytingar sem gerðar hafa verið í bankakerfinu, að mikið hafi dregið úr þóknunum eða gjöldum sem fólkið þarf að greiða fyrir þjónustuna í bankakerfinu. Eitthvað hefur dregið úr vaxtamun en hann er allt of mikill og miklu meiri en í löndunum sem við berum okkur saman við. Auk þess er vaxtastigið, eins og allir þekkja, náttúrlega miklu hærra. Ég held því að í megindráttum megi segja að hagræðing innan bankakerfisins hafi fyrst og fremst birst í uppsögnum á starfsfólki. Það er því ekki skrýtið að starfsfólk óttist mjög um hag sinn við þessar breytingar og vilji fá sæmilegar tryggingar stjórnvalda fyrir því að staða þess verði tryggð við þessar breytingar.

Í umsögninni segir enn fremur, herra forseti:

,,Þessum starfsmönnum, sem hafa lengi og af mikilli hollustu starfað við þjónustugreinar eins og bankastörf er hættast við að lenda til langs tíma á atvinnuleysisskrá. Við þessari hættu viljum við sérstaklega vara núverandi meirihlutaeigendur Landsbanka og Búnaðarbanka.``

Núverandi meirihlutaeigendur eru ríkið. Vitaskuld er það svo að starfsmenn vilja reyna, meðan bankarnir eru enn í meirihlutaeign ríkisins, að tryggja betur hag sinn. En miðað við viðbrögð ríkisstjórnarinnar er mikil óvissa um stöðu þeirra.

Herra forseti. Ég vil rifja upp fleira sem fram kemur í þessari umsögn, með leyfi forseta:

,,Nauðsynlegt er að grípa til ráðstafana sem gagnast starfsmönnum bankanna áður en bankarnir verða seldir frá ríkinu, en nokkurn fyrirvara þarf til að hægt sé að koma þeim ráðstöfunum í kring.``

Herra forseti. Starfsmennirnir eru einmitt að leita eftir því að við þá verði a.m.k. rætt og manni finnst það lágmarkskurteisi, þegar starfsmennirnir hafa lagt fram svona góðar og ítarlegar tillögur, að við þá sé rætt. Þeir hafa lagt áherslu á að þessar viðræður fari fram áður en bankarnir verða seldir frá ríkinu. Ég ætlaði einmitt að nota þetta tækifæri, herra forseti, og ræða við hæstv. viðskrh. um það hvort þingið hefði einhverja tryggingu fyrir því að ráðherrann, ef hún hefur ekki þegar beitt sér fyrir því, fari í slíkar viðræður áður en bankarnir verða seldir. Ekki er bjart útlit fyrir sölu á þessum bönkum miðað við stöðuna á markaðnum, nema stjórnarflokkarnir ætli að gera það sem margir óttast, að selja þessa banka ásamt þeim ríkiseigum sem nú eru á söluskrá hjá ríkinu á hreinni útsölu. Þannig mundi þjóðin fá mjög lítið í sinn hlut fyrir bankana miðað við markaðsvirði þeirra við eðlilegar aðstæður. Af þeim sökum vonaði maður að ríkisstjórnin mundi ekki selja bankana um leið og hún fengi þessa heimild. Þá skapaðist auðvitað svigrúm til að ræða við starfsmennina en, herra forseti, við höfum ekki tök á málinu nema meðan það er fyrir þinginu og þess vegna er ekki skrýtið að ég vilji beina spurningum varðandi málið til hæstv. viðskrh.

Ég spyr hæstv. forseta: Eigum við von á því, nú þegar málið er komið á dagskrá, að hæstv. viðskrh. heiðri okkur með nærveru sinni eða má búast við því að ríkisstjórnarfundur standi fram eftir degi? Það hefur auðvitað áhrif á þingstörfin. Það kom fram hér í morgun að þingmenn hafa áhuga á viðveru ýmissa ráðherra. Það er ekki óeðlilegt, þegar svo stórt mál er á ferðinni, þ.e. að Alþingi gefi ríkisstjórninni heimild til sölu á báðum bönkunum, að hæstv. viðskrh. sé viðstaddur lokaafgreiðslu þess máls.

(Forseti (HBl): Ég vil vegna ummæla hv. þm. segja að það er guðvelkomið að gera hlé á þessari umræðu og taka fyrir annað mál á dagskrá ef hv. þm. óskar þess.)

Ég var að spyrja hæstv. forseta að því hvort við gætum átt von á að hæstv. ráðherra verði viðstaddur þessa umræðu og hvenær við gætum búist við henni. Það skiptir auðvitað máli um framhald þessa máls og ræðu mína nú við þessa umræðu.

(Forseti (HBl): Ég hef boðið hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni. Þá væri hægt að halda umræðunni áfram síðar þegar hæstv. ráðherra er í salnum.)

Er nokkur vitað um hvenær von er á hæstv. viðskrh.?

(Forseti (HBl): Nei, það er ekki vitað.)

Ég gæti út af fyrir sig haldið máli mínu áfram vegna þess að ég á ýmislegt eftir órætt og get látið það bíða til loka ræðu minnar að beina spurningum til hæstv. ráðherra, t.d. ef von væri á henni á næsta klukkutíma eða innan eins og hálfs klukkutíma.

(Forseti (HBl): Mér þykir mjög vænt um það að hv. þm. getur haldið máli sínu áfram.)

Herra forseti. Ég beini spurningu til hæstv. forseta um hvenær von er á hæstv. ráðherra. Ég spyr hvort ég megi gera hlé á máli mínu meðan það yrði kannað eða hvort ég geti haldið máli mínu áfram einhverja stund en fengið, meðan ég ræði þetta mál, vitneskju um hvenær von er á hæstv. ráðherra.

(Forseti (HBl): Ég var óviðbúinn þessari spurningu og af augljósum ástæðum hef ég ekki getað haft samband við hæstv. ráðherra. Ég ítreka hins vegar boð mitt til hv. þm. um að hún geri hlé á ræðu sinni, umræðum um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands verði frestað um sinn og málið tekið fyrir síðar í dag. En ef hv. þm. kýs fremur að halda áfram ræðu sinni þá er ekkert því til fyrirstöðu af minni hálfu. Ég hef gert ráðstafanir til þess að boðum verði komið til hæstv. ráðherra um að hennar sé saknað.)

Ég heyri, herra forseti, að hæstv. forseta er ekki mikið í mun að fá lyktir í þetta mál miðað við það hvernig hann svarar þeim spurningum sem ég beini til hans.

(Forseti (HBl): Ég hlýt að leiðrétta hv. þm. Um leið og hv. þm. hafði orð á þessu í ræðu sinni hafði ég samband við starfsmenn þingsins og bað þá um að láta koma boðum til hæstv. ráðherra. Ég veit ekki betur en að af þingsins hálfu hafi verið gerð tilraun til að koma þeim boðum áleiðis.)

Ég geri þá ráð fyrir, herra forseti, að á næstu 5--10 mínútum muni koma svar við því hvort og hvenær von sé á hæstv. ráðherra þannig að ég spyr: Er þá ekki eðlilegt að ég haldi áfram máli mínu í 5--10 mínútur meðan við bíðum eftir að fá svar frá ráðuneytinu um hvenær við getum fengið hæstv. ráðherra hingað í salinn eða vill hæstv. forseti að ég fresti strax máli mínu?

(Forseti (HBl): Það er algerlega á valdi hv. þm. Eins og ég sagði hef ég gert ráðstafanir til þess að hæstv. ráðherra sé gert aðvart um að hennar sé saknað og óskað sé eftir nærveru hennar. Ef hv. þm. vill halda áfram ræðu sinni þá er það frjálst. Ef hv. þm. óskar að gera hlé á ræðu sinni og að önnur mál séu tekin fyrir þá stendur það einnig til boða.)

Herra forseti. Þar sem þetta er allt komið í mínar hendur mun ég bara kjósa að halda áfram næstu 10--15 mínúturnar í trausti þess að þá liggi fyrir hvenær hæstv. ráðherra geti komið í salinn. Ég mun þá eftir stundarfjórðung eða svo inna hæstv. forseta eftir því hvort svar sé ekki komið frá viðskrn. um hvenær hæstv. ráðherra kemur í salinn. Ég mun þá halda áfram máli mínu og taka fyrir önnur atriði en þau sem lúta að starfsmönnunum sem ég hafði einkum áhuga á að ræða við ráðherrann. Ég mun því bíða með þann hluta ræðu minnar.

Ég vil þá víkja að því, herra forseti, sem við höfum rætt töluvert í tengslum við sölu á þessum bönkum, þ.e. þeim aðstæðum sem nú eru á hlutabréfamarkaðnum. Það kemur æ skýrar í ljós að sem stendur eru ekki kjöraðstæður eða heppilegar aðstæður til að selja bankana, hvað þá þegar við bætist sala á Landssímanum eins og áform eru um. Það er vissulega athyglisvert, herra forseti, að umfangsmesta einkavæðing sem farið hefur fram hér á landi, þ.e. þau áform sem nú eru uppi um sölu á bönkunum og sölu á Landssímanum, skuli eiga að fara fram þegar markaðurinn er í mikilli lægð. Það hlýtur, herra forseti, óhjákvæmilega að vekja upp tortryggni og ýmsar efasemdir. Menn hljóta þar af leiðandi að álykta að ríkisstjórnin sé ekki með það í huga að fá hámarksverð fyrir þessar eigur heldur fyrst og fremst að koma þeim í hendur, eins og menn hafa orðað það, einhverra vildarvina og ýta enn undir það sem menn tala um að mikið hafi verið um í tíð þessarar ríkisstjórnar, þ.e. einkavinavæðingu.

Það kom fram, herra forseti, í vikunni að mikið verðfall hefur orðið á mörgum fyrirtækjum á umliðnum mánuðum. Þau voru dregin saman í Fréttablaðinu nú í vikunni, þau tíu fyrirtæki sem rýrnað hafa mest að verðgildi frá því í lok febrúar í fyrra. Þar er greint frá því að miðað við markaðsvirði þessara tíu fyrirtækja í febrúar í fyrra hafi þau rýrnað að verðgildi um rúmlega 62 milljarða. Þar er efst á blaði Eimskipafélagið, herra forseti, en markaðsvirði Eimskips hefur rýrnað um 23 milljarða frá því fyrir rúmu ári. Landsbankinn hefur rýrnað í verði um tæplega 8,2 og er það ekkert smátt, herra forseti. Grandi um 5,1 milljarð, Búnaðarbankinn um tæpa 5 milljarða, Þormóður rammi um 4,5 milljarða, Flugleiðir um 3,9 milljarða, Opin kerfi um 3,2 milljarða, Marel um 3,2 milljarða, Útgerðarfélag Akureyringa um 3,1 milljarða og Síldarvinnslan hf. um 2,7 milljarða kr.

Herra forseti. Þetta segir vissulega sína sögu og er sláandi að sjá þetta svona samandregið. Það er mjög sérstakt að við þessar aðstæður á markaðnum skuli ríkisstjórnin leita svo stíft eftir því í önnum þingsins, á lokadögum þess, að fá þær heimildir sem hér hefur verið kallað eftir, bæði varðandi bankana og Landssímann. Auðvitað er ástæða til að velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur á markaðinn að mikið af nýju hlutafé komi inn á hann við þessar aðstæður.

Ég hef í höndunum upplýsingar frá Verðbréfaþingi um að einungis miðað við að lítið af hlutafé úr bönkunum fari á markaðinn á þessu ári og tiltölulega lítið af hlutabréfum úr Landssímanum væri engu að síður um að ræða tvöföldun á nýju hlutafé, sem ætlunin er að hugsanlega gæti farið á markaðinn, á markaðnum á þessu ári, miðað við spá Verðbréfaþings sem er miðuð við útboð á nýju hlutafé á síðasta ári. Á síðasta ári komu á markað 16 milljarðar kr. í nýju hlutafé en á þessu ári er áformað, samkvæmt því sem Verðbréfaþing upplýsti meðan málið var til meðferðar í efh.- og viðskn., að það verði um 32 milljarðar kr.

[10:45]

Það kemur fram í Fréttablaðinu í morgun, sem ég vitna til, að fjármagn leiti fyrst og fremst á skuldabréfamarkað en í litlum mæli á hlutabréfamarkaðinn. Maður veltir fyrir sér, herra forseti, hvaða áhrif þetta getur almennt haft á hlutabréfaeign landsmanna. Er hætta á því, herra forseti, ef setja á mikið af nýju hlutafé á markaðinn að það hafi áhrif á aðra hlutabréfaeign hjá landsmönnum, að hún rýrni kannski enn meira en á undanförnu einu til einu og hálfu ári. Ákveðin áhætta er tekin með því ef setja á mikið á markaðinn.

Í Fréttablaðinu í morgun kemur fram að árið 2000 hafi einkennst af miklum vexti útlána og gert er ráð fyrir að útlánavöxtur verði mun minni á næstu árum. Yfirlýsingar og markmið bankanna og opinberar tölur um útlánavöxt það sem af er árinu 2001 styðji þá skoðun.

(Forseti (HBl): Forseti biður hv. þm. afsökunar, en það er sýnilegt að hæstv. ráðherra kemur ekki í hús næsta klukkutímann. Forseti býður því enn hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni.)

Ég sé að hæstv. ráðherra gengur í salinn þannig að þetta var enginn klukkutími. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæta við þessa umræðu vegna þess að ég hygg að þeir sem hér tala á eftir munu fagna því ef ráðherrann getur séð af dýrmætum tíma sínum til þess að vera með okkur við þessa umræðu.

Herra forseti. Áhyggjur okkar margra lúta að stöðunni á markaðnum og hverjir muni koma til með að kaupa hlutabréf í þessum bönkum. Horft er til þess að erlendir aðilar komi inn í einhverjum mæli með fjármagn og kaup bæði á bönkunum og Landssímanum. Það væri fróðlegt að fá skoðun hæstv. ráðherra á því hvort hún telji líkur á því að erlendir fjárfestar komi inn, hvort eitthvað slíkt hafi komið upp á borð ráðherrans, hvort hæstv. ráðherra hafi einhverja vitneskju um að eitthvað slíkt sé í farvatninu, þ.e. að erlendir aðilar hafi sýnt áhuga á kaupum á bönkunum.

Nokkuð er horft til lífeyrissjóðanna í þessu sambandi. Menn hafa haft töluverðar áhyggjur af því að mikið af fjármagni lífeyrissjóðanna hafi leitað til útlanda og það hafi skipt nokkrum tugum milljarða á hverju ári sem lífeyrissjóðirnir hafi leitað út með fjárfestingu á sínu fé. Það hefur auðvitað haft sín áhrif innan lands, líka það, herra forseti, að útlánaaukning innlánsstofnana var á seinni hluta síðasta árs að verulegu leyti fjármögnuð með erlendu lánsfé eins og reyndar hefur verið á undanförnum missirum og hlutdeild erlends lánsfjár hefur verið um 50% af útlánaaukningunni. Það er ansi mikið og á sinn þátt, herra forseti, í verulegri útlánaaukningu í bankakerfinu sem ýmsir hafa miklar áhyggjur af. En í því sem ég var að vitna til í Fréttablaðinu í morgun, kemur fram, með leyfi forseta:

,,Að okkar mati eru aukin útlánatöp einn helsti áhættuþáttur í rekstri bankanna, en vænta má að útlánatöp aukist í kjölfar minnkandi hagvaxtar. Afkoma bankanna er jafnframt komin undir þróun á verðbréfamörkuðum sem mikil óvissa ríkir um en þó er gert ráð fyrir að þróunin verði hagstæðari en á síðasta ári.``

Þetta er haft eftir greiningardeild Íslandsbanka-FBA. Þeir setja síðan í lokin fram sína skoðun og segja:

,,Við teljum vænlegra að fjárfesta í Landsbankanum.``

Herra forseti. Þetta kemur vissulega heim og saman við það sem fram kom nýlega í fréttum, í þessari viku. Því vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrir liggi, herra forseti, og hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórninni að fyrst verði ráðist í sölu á Landsbankanum. Í hádegisfréttum RÚV í vikunni kom fram, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin ætlar að byrja á því að selja hlut sinn í Landsbanka en ekki verður hægt að selja hlut ríkisins í Búnaðarbanka fyrr en niðurstaða opinberrar rannsóknar á viðskiptaháttum bankans liggur fyrir.

Litlar fréttir er að hafa af rannsókn lögreglunnar á viðskiptum Búnaðarbankans með hlutabréf í Pharmaco.``

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta tvennt, herra forseti, með vísan til þess sem fram kemur hjá greiningardeild Íslandsbanka-FBA og með hliðsjón af þeirri frétt sem ég var að vitna til: Hefur verið tekin ákvörðun um það í ríkisstjórninni að selja fyrst hlutabréf ríkissjóðs í Landsbankanum? Ég vænti þess að hæstv. ráðherra heyri orð mín. Hefur verið tekin einhver ákvörðun um það? Ég er að vitna í þær fréttir sem fram hafa komið um það mál að byrjað verði á því að selja Landsbankann. Er hæstv. ráðherra sammála því sem fram kemur hjá fulltrúa einkavæðingarnefndar, Jóni Sveinssyni? Hann segir að það séu sameiginleg viðhorf allra nefndarmanna að ekki sé heppilegt að selja hlut ríkisins í Búnaðarbankanum á meðan bankinn sæti opinberri rannsókn. Mikilvægt sé þegar hlutabréf í bankanum eru seld, m.a. til almennings, að allir séu vissir um hver staða bankans er. Þetta eru vissulega rök í málinu sem hér eru sett fram af hálfu fulltrúa í einkavæðingarnefnd. Ég vil spyrja hvort nokkuð sé vitað hvenær þessi rannsókn, sem ég held að sé hjá efnahagsbrotadeildinni, liggi fyrir varðandi þau eitt eða tvö mál, að ég hygg, sem snerta Búnaðarbankann og eru þar til meðferðar. Og getur hæstv. ráðherra tekið undir það sem fram kemur hjá fulltrúa einkavæðingarnefndar og hefur það verið staðfest í ríkisstjórninni að byrja eigi að selja hlut í Landsbankanum en Búnaðarbankinn verði ekki settur í sölu fyrr en með haustinu í fyrsta lagi? Er það þá mat ríkisstjórnarinnar líka að það verði að komast lyktir í þessi mál sem eru til rannsóknar áður en sala á Búnaðarbankanum hefst?

Þetta er auðvitað innlegg í þetta mál, herra forseti, af því að við höfum sagt að miðað við þá lægð sem markaðurinn er í sé ekki ástæða til þess að hraða málinu svo í gegn eins og okkur sýnist ríkisstjórnin óska eftir.

Herra forseti. Ég hef séð að hæstv. ráðherra þarf að fara á blaðamannafund kl. 11. Ég virði það að hæstv. ráðherra þurfi að fara á blaðamannafundinn. Mér sýnist líka að á þeim blaðamannafundi sé verið að kynna skýrslu sem er mikilvægt innlegg inn í þessa umræðu sem hér fer fram þannig að ég geri ekki athugasemdir við það, herra forseti, þó að hæstv. ráðherra yfirgefi þessa umræðu núna. Ég mun því, herra forseti, halda áfram mínu máli en freista þess, af því að ég á kost á því að taka þátt í umræðunni í annað sinn síðar á þessum fundi, að beina máli mínu og fyrirspurnum aftur til hennar, þ.e. þegar ég tek þátt í umræðuni í seinni áfanganum. Ég virði það að hún þurfi að fara en það kemur fram að hún muni koma eins fljótt og hún getur aftur til þessarar umræðu.

Af því að ég var að vitna í hvenær væri rétt og eðlilegt að selja bankana þá höfum við í brtt. okkar sem ég mæli fyrir sett fram eftirfarandi, herra forseti:

,,Áður en sala á hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. skv. 2. mgr. 6. gr. er hafin skal leita álits og samþykkis Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnunar á því að aðstæður á fjármálamarkaði séu með þeim hætti að hyggilegt sé að ráðast í söluna.``

Við teljum þessar varúðarráðstafanir nauðsynlegar, herra forseti, með tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið við meðferð málsins í efh.- og viðskn. og þeirra sjónarmiða sem þessar mikilvægu efnahagsstofnanir, þ.e. Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun, hafa sett fram um þessa sölu. Það hefur m.a. komið fram hjá Þjóðhagsstofnun að a.m.k. tvennt þarfnist frekari skoðunar. Þeir benda á og spyrja, með leyfi forseta:

,,Eru ákveðnar markaðsaðstæður sem geta valdið því að ávinningur af einkavæðingu verður lítill eða jafnvel neikvæður?``

Þeir segja einnig, með leyfi forseta:

,,Af þessum ástæðum er erfiðleikum bundið að leggja mat á þjóðhagsleg áhrif einkavæðingar með áreiðanlegum hætti. Því er ekki hægt að fullyrða að einkavæðing valdi auknum hagvexti og lægra atvinnuleysi, a.m.k. er þar vart eingöngu um áhrif einkavæðingarinnar að ræða.``

Herra forseti. Þjóðhagsstofnun sagði líka orðrétt:

,,Heppilegt kann þó að vera að hlutur ríkisins sé ekki seldur í einum áfanga.``

Aðvörunarorð komu líka frá Seðlabanka, með leyfi forseta:

,,Þó má e.t.v. segja að í ljósi þess hve efnahagsástandið er viðkvæmt um þessar mundir og áhrifin óljós þurfi að gæta þess sérstaklega vel við útfærslu sölunnar að hún verði ekki til þess að ýta undir ójafnvægi.``

Þetta eru aðvörunarorð sem segja okkur að það eru auðvitað blikur á lofti í efnahagsmálunum eins og við þekkjum. Það kom einnig fram hjá þeim að þjóðhagsleg áhrif af fyrirhugaðri sölu hlutafjár í Landsbanka og Búnaðarbanka Íslands á innlenda eftirspurn og fjármálamarkaði séu háð mikilli óvissu. Það er einmitt þess vegna sem við teljum, herra forseti, brýnt að setja þessi ákvæði inn eins og við leggjum til, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og sú sem hér stendur, þ.e. að bæta þessu ákvæði inn til bráðabirgða.

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta við varðandi þá brtt. sem við flytjum um starfsmennina lýsa því að við leggjum til í brtt. okkar að samið verði við starfsfólk um möguleika á starfsþjálfun og endurmenntun til að auðvelda aðlögun að nýrri tækniþróun og breytingum í bankakerfinu. Á þetta hafa starfsmennirnir lagt mikla áherslu og mæla með því að farnar verði svipaðar leiðir í því efni og á hinum Norðurlöndunum, m.a. með því að bjóða þeim starfsmönnum sem eru á aldrinum 40--50 ára að fara til náms í eitt til tvö ár á launum og að þeir starfsmenn sem orðnir eru 55--65 ára fái rýmri heimildir til að láta af störfum á eðlilegum eftirlaunum. Hér segir orðrétt, herra forseti:

,,Þannig er mælst til þess að við einkavæðingu bankanna verði norsku aðferðinni beitt en hún hefur reynst vel, en þar er eðlileg starfsmannavelta smám saman látin draga úr áhrifum minnkandi mannaflaþarfar, en ekki gripið til uppsagna. Höfuðáhersla er lögð á að starfsmennirnir séu vel undir það búnir að mæta breytingum þegar að þeim kemur.``

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að vitna frekar í þetta langa bréf og umsögn sem kemur frá starfsmönnunum. Þeim er auðvitað mikið niðri fyrir varðandi stöðu sína við svona miklar breytingar sem hér eru á döfinni. Þeir benda á, svo ég vitni í það í lokin, varðandi starfsmennina að á öllum Norðurlöndum nema Íslandi eigi starfsmennirnir fulltrúa í stjórnum hlutafélagabanka og segja orðrétt, herra forseti:

,,Þessi sterki nútímalegi meðákvörðunarréttur er tryggður með lögum í hverju landi. Í Noregi, þar sem ríkið á enn stóran eignarhluta í bönkunum (m.a. 60% í Den norske Bank) og markaðurinn því að flestu leyti líkur okkar, er þessi réttur starfsmanna til að tilnefna menn í stjórn banka tryggður í 3. kafla í lögum bæði um viðskiptabanka og lögum um sparisjóði ...``

[11:00]

Herra forseti. Ég mun aðeins ræða nánar um starfsmennina þegar ég nýti síðari rétt minn í þessari umræðu, enda verður hæstv. ráðherra þá væntanlega komin. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra muni þá greina þinginu frá niðurstöðu af þeirri skýrslu sem hún er nú að kynna á blaðamannafundi um stjórnar- og eignatengsl í atvinnulífinu og á fjármálamarkaðnum. Þessi skýrsla er nokkuð sem Samfylkingin kallaði eftir og við báðum um hér á Alþingi og samþykkt var að fara út í fyrir atbeina þeirrar beiðni sem þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram. Nú er hæstv. ráðherra að kynna skýrsluna á blaðamannafundi og ég vænti þess að hún muni kynna hana í þinginu í tengslum við þá umræðu sem hér fer fram og mun ég því ekki ræða hana sérstaklega, en ráðherrann hafði einmitt upplýst við 2. umr. að hún mundi leggja áherslu á að skýrslan gæti komið til umræðu við lokaafgreiðslu þessa máls.

Herra forseti. Ég vil aðeins enn og aftur minna á það sem ég hef verulegar áhyggjur af og fleiri sem um þetta hafa fjallað og hefur ítrekað komið fram í umræðum um málið í efh.- og viðskn. og hjá Fjármálaeftirlitinu að þeir hafa áhyggjur af eiginfjárstöðu bankanna sem hefur versnað mjög á umliðnum mánuðum og missirum, m.a. vegna þeirrar miklu útlánaþenslu sem orðið hefur og þegar litið er á eiginfjárhlutfall bankanna þ.e. Íslandsbanka-FBA, Landsbanka og Búnaðarbanka, og ríkjandi lán dregin frá, þá eru eiginfjárhlutföll bankanna undir því sem áskilið er í lögum. Af þessu hafa margir áhyggjur og Fjármálaeftirlitið hefur kallað eftir því að gerðar verði breytingar, m.a. að þeir fái auknar heimildir til að krefja innlánsstofnanir um ákveðna stöðu að því er varðar eigið fé og hafa kallað eftir því að rétt væri að það yrði hugsanlega misjafnt eftir innlánsstofnunum.

Ég nefndi að það hefði komið fram í blaði í morgun að menn hafa áhyggjur af útlánatöpum, að þau gætu verið fram undan í bankakerfinu. Og í efh.- og viðskn. kom fram hjá fulltrúum annars viðskiptabankans að vissulega væri hætta fyrir hendi að útlánatöp gætu verið fram undan í bankakerfinu. Við munum að fyrir ekki allmörgum árum var lagt hér fram svar ráðherra um útlánatöp í bankakerfinu sem voru alveg gríðarlega mikil. Þau skiptu mörgum milljörðum. Ef ég man þá tölu rétt voru þetta um 10 milljarðar kr. á fimm ára tímabili. Það er því ástæða til að hafa áhyggjur af því. Ég vil t.d. nefna að í svari viðskrh., sem ég fékk í hendur í dag, við fyrirspurn minni um vanskil einstaklinga í bankakerfinu, kemur fram að vanskilahlutföll af lánum til heimila hafa vaxið á síðustu missirum en fram til ársloka 2000 hafi þau farið lækkandi en á þessu séu að verða breytingar. Mér finnst miðað við þær tölur sem ég er með í höndunum að vanskilin séu allmikil í bankakerfinu. Í þessu svari hef ég yfirlit yfir vanskil níu innlánsstofnana sem eru 73% af heildarútlánum innlánsstofnana og hve mikið af þeim 73% eru í vanskilum. Það eru um 17,3 milljarðar sem eru í vanskilum og mánaðarvanskil eru um 7,8 milljarðar. Þetta eru vanskilin eins og þau eru bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum, en ef litið er til einstaklinganna sérstaklega í því svari sem ég fékk í hendur í dag kemur fram að vanskil einstaklinga miðað við heildarútlán, en í þessum níu innlánsstofnunum er um að ræða 73% af heildarútlánum innlánsstofnana, voru um 7,6 milljarðar eða 5,7% af útlánum og er það nokkuð há tala, herra forseti, að mínu mati. Hjá fyrirtækjum var um að ræða lægra hlutfall eða 9,7 milljarða sem var 2,9% af heildarútlánum.

Til samanburðar má geta þess að hjá Íbúðalánasjóði eru vanskilin miklu minni sem hlutfall af heildarútlánum. Hér er ég með t.d. hver staðan er í janúarmánuði á þessu ári. Þá eru tæplega 3.000 einstaklingar með vanskil við Íbúðalánasjóð og vanskilin eru um 490 milljarðar kr. sem er 0,19% af heildarvanskilum samanborið við það að öll vanskil einstaklinga við þessar níu innlánsstofnanir sem ég nefndi eru 5,7% af heildinni. Það virðast því vera miklu meiri vanskil í bankakerfinu, margfalt meiri hlutfallslega þegar miðað er við heildarútlán en er hjá Íbúðalánasjóði.

Hjá lífeyrissjóðunum --- en við þessari fyrirspurn minni bárust svör frá fjórum lífeyrissjóðum --- eru vanskil á útlánum um 0,7% og voru í marslok á þessu ári um 145 millj. kr. í vanskilum.

Herra forseti. Þessar tölur sem ég hef hér nefnt og ýmislegt annað sem kemur fram í þessu svari segir okkur að vanskil í bankakerfinu eru að aukast og það er ástæða til að hafa af því áhyggjur, ekki síst þegar horft er á hvernig eiginfjárhlutfall stendur í þeim bönkum sem ég nefndi.

Herra forseti. Þar sem ég mun taka aftur til máls og nýta rétt minn á eftir til að tala aftur og þar sem ráðherrann þurfti að bregða sér frá mun ég ekki hafa ræðu mína lengri að sinni en mun þess í stað tala hér þegar ráðherrann sér sér fært að verða viðstödd umræðuna að loknum blaðamannafundi. En, herra forseti, ég hef mælt fyrir þeim brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur.