Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 14:02:52 (8112)

2001-05-18 14:02:52# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Nú er umræðu um þetta stóra mál að ljúka hér á hv. Alþingi. Skammt er stórra högga á milli í einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar. Síminn var til umræðu í gær og 3. umr. um söluna á bönkunum er í dag.

Stærsta einkavæðing Íslandssögunnar stendur yfir. Það er ekki einkavæðing Símans og ekki einkavæðing bankanna. Það er einkavæðing fiskimiðanna við Ísland. Verið er með öllum ráðum að reka síðustu naglana í þá einkavæðingu, m.a. voru lögin á sjómenn sem hér voru afgreidd síðast, liður í því, til þess að reyna að negla niður það fyrirkomulag sem gildir um eignarhald útgerðarinnar á fiskinum í sjónum. Góð samstaða virðist vera í ríkisstjórninni um að einkavæða bankana, Símann og fiskimiðin.

Við í Samfylkingunni höfum ekki lagst gegn því að bankastarfsemi verði einkavædd. Við höfum hins vegar talið að engin þörf væri á því að snúa sér að því með miklum hraði að selja þessar eigur ríkisins. Við höfum lagt til að ef menn ætla út á þessa braut þá verði byrjað á því að selja annan bankann, Búnaðarbankann. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú ekki tekið undir þetta og vilja taka ákvörðun um að selja báða bankana og hafa hér nánast klár fyrirmæli um það að hvað svo sem fyrir þá fæst, skuli þeir seldir á tveimur árum.

Ekki er nú mjög skynsamlegt með dýrar eignir að taka um það bindandi ákvarðanir hvenær eigi að selja þær. Við þekkjum gott dæmi um það hvernig getur farið þegar menn taka slíkar ákvarðanir. Það var einu sinni ríkisstjórn á Íslandi sem tók þá ákvörðun að hún ætlaði að selja Síldarverksmiðjur ríkisins. Það átti að vera búið að selja þær fyrir áramót. Sú ákvörðun var tekin nokkrum vikum fyrr. Þó að 14 aðilar sýndu áhuga á að kaupa hlut í því fyrirtæki þá endaði með því að enginn fékk náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar. Ekkert tilboð var talið gilt af hálfu ríkisstjórnarinnar nema eitt. Það var valið út. Þann 7. desember var ákveðið og það gefið út að Síldarverksmiðjur ríkisins yrðu seldar fyrir áramót.

Skyldi nokkrum manni detta í hug að selja dýrmæta eign sína með svona fyrirkomulagi? Mundu hv. þm. stjórnarliðanna nokkurn tímann láta sér detta í hug að auglýsa húsið sitt og segja: Ég ætla að selja það fyrir áramót og það er ekki gilt tilboð nema sá sé haltur og blindur sem gerir tilboðið. Svo skýr voru fyrirmælin um það hvernig sá aðili ætti að vera í laginu sem átti að fá þetta keypt að það fyrirfannst bara einn á öllu heila landinu sem passaði við. Ég ætla að vona að ekki verði hafðar slíkar aðferðir við söluna á bönkunum. En það er ástæða til að minna á þetta því þeir eiga að sjá um þessa sölu sem sáu um söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins. Þeir kunna þetta enn þá.

Ég satt að segja vona að menn hafi eitthvað lært af þessu. En ég get ekki treyst því.

Og er nú svo skrýtið að þó menn hafi tekið ákvarðanir um að selja ríkisfyrirtæki þá hefur því nú ekki verið fylgt fram. Það er umhugsunarefni vegna þess að hæstv. forseti sem er að stjórna þessum fundi er, ef ég veit rétt, í stjórn þess ríkisfyrirtækis sem ég veit ekki betur en að hafi staðið býsna lengi til að selja, Sementsverksmiðju ríkisins. Af einhverjum ástæðum hefur ekki verið látið af því verða að selja það fyrirtæki. Nú er ég ekki að hvetja til þess. En ég veit um áhuga þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn á því að selja það fyrirtæki. Það hefur ekki verið nefnt í langan tíma. Það væri nú ástæða til þess að upplýsa þingmenn um stöðu þess máls. Eru menn hættir við söluna eða hefur t.d. innflutningur á sementi frá Danmörku eitthvað breytt afstöðu manna til þess hvort selja eigi hlut ríkisins í því fyrirtæki? Það væri forvitnilegt að frétta af því. (HBl: Kannski Danir vilji kaupa.) Hæstv. forseti. Ég held að þetta innskot sé hárrétt. Það liggur fyrir að Danir hafa örugglega áhuga á að kaupa. Ég þykist vita hvers vegna þeir sem hér stjórna því hvað selt er af eigum ríkisins hafa ekki tekið ákvörðun um að selja Sementsverksmiðjuna, þ.e. hvers vegna sú ákvörðun hefur ekki verið tekin. Það er einmitt vegna þess að komist erlendir aðilar yfir þetta fyrirtæki þá verður starfsemin að öllum líkindum lögð niður á Íslandi og sölukerfi Sementsverksmiðjunnar eingöngu notað til þess að yfirtaka markaðinn. Þess vegna hafa menn ekki viljað selja.

Það er full ástæða til þess að hafa gát á sér þegar fyrirtæki á Íslandi eru seld. Þess vegna er ekki gott ef stjórnendum liggur mikið á eins og þeim virðist liggja mikið á núna að selja bankana og selja Símann.

Ég held þó að skárra sé að selja eitthvað af hlutafé í bönkunum, að það sé þó skár undirbúið mál en sala Símans sem var rædd hér í gær. Þar er á ferðinni mjög alvarlegt mál, finnst mér, hvað það varðar að Síminn eins og hann er í dag, er gífurlega stórt fyrirtæki á markaðnum. Menn hafa tekið þá ákvörðun að hafa grunnnetið áfram með og í því felst auðvitað viðbótarforskot langt fram yfir stærð Símans.

Einn hv. þm. stjórnarliða lýsti þessu alveg snilldarlega hér á hv. Alþingi. Hv. þm. Kristján Pálsson sagði: ,,Að selja Símann án grunnnetsins væri eins og að ætla að selja vélarlausan bíl.`` Var hægt að lýsa þessu betur? Hann var að segja í raun að þeir sem væru að keppa við Símann væru allir á hestvögnum, a.m.k. væri engin vél í bílunum hjá þeim. Þetta lýsir alveg prýðilega þeirri samkeppnisaðstöðu sem verið er að búa til á þann markað.

Þetta á ekki við hvað varðar bankana. Hér er alvöru samkeppni á þeim markaði. Hins vegar er engin ástæða fyrir ríkið að haska sér í því að selja þessar fjármálastofnanir. Það er full ástæða til þess að fara með mikilli gát og fylgast vel með því hvaða áhrif sala annars bankans, eins og við höfum lagt til, Búnaðarbankans, hefur á þennan markað. Búið er að gera þessi fyrirtæki að hlutafélögum. Þau eru farin fyrir löngu síðan að taka þátt í samkeppninni á þessum fjármálamarkaði alveg eins og önnur hlutafélög. Það eru því ekki lengur forsendur fyrir því að halda því fram að það hver eigi stærsta hlutinn í bönkunum hafi nokkur önnur áhrif á fjármálamarkaðinn en þó einhverjir aðrir ættu hlutinn.

Ég hef ekki séð neinn mun á því hvernig þeir haga sér sem stjórna núna bönkunum sem ríkið á stærri hlutinn í og hinum bönkunum sem eru hér á markaðnum. Ég sé engan mun á því. Ég vil biðja menn að sýna mér fram á það hvort mikill munur sé á stjórn þessara fyrirtækja í dag.

Ég er búinn að svara því hvort það eigi að selja. Ég segi ekki að það eigi að selja. Ég segi að það megi selja en það eigi að gera það hægt og taka allan vara á því hversu mikið verður selt, með tilliti til þess hvaða áhrif það hefur þegar farið verður að selja í Búnaðarbankanum eins og við höfum lagt til.

Ég get ekki tekið undir þær umræður sem hafa farið hér fram um þjóðbanka einfaldlega vegna þess sem ég nefndi áðan, það er búið að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög. Þeir eru farnir að taka þátt í samkeppni á fjármálamarkaðnum jafnfætis öðrum fjármálafyrirtækjum og það væri fáránlegt að breyta því.

Það er líka útilokað að hugsa sér það í frjálsu hagkerfi að eitt fjármálafyrirtæki ætti að hafa aðrar skyldur en önnur fjármálafyrirtæki á markaðnum sem eiga að keppa við það. Þess vegna tel ég alveg ástæðu til að taka undir ýmislegt sem hefur komið fram í umræðunni um frelsi á þessum markaði. En þetta frelsi er fyrir hendi þó ríkið eigi í þessum hlutafélögum.

Það er athyglisvert að nú var einmitt að koma út skýrsla um eignatengsl og eignarhald í íslensku fjármálalífi. Og hvað gerist? Háværustu einkavæðingarsinnar eru nú að fá staðfestingu á því að ríkið er að eignast meira og meira af þeim fyrirtækjum sem eru talin upp í þessari skýrslu, stærri og stærri hlut. Það er þriðjungs hækkun á eignarhaldi ríkisins í þeim fyrirtækjum sem þarna er verið að tala um, eftir því sem mér skilst af fréttum. Af hverju skyldi þetta vera? Ekki hef ég lesið skýrsluna og veit það ekki nákvæmlega. En ég svona giska á að kaup Landssímans á fjölmörgum fyrirtækjum geti nú verið einhver partur af þessu.

[14:15]

Hlutafé frá sjóðum sem ríkið á í önnur fyrirtæki og annað slíkt getur verið hluti af þessu. En þetta er umhugsunarefni fyrir þá sem hafa viljað draga úr umsvifum ríkisins á fjármálamarkaði. Kannski liggur þeim á að selja eitthvað til að ekki verði hægt að benda endalaust á það að þeir séu að auka hlut ríkisins. Það er kannski svolítið leiðinlegt fyrir þá sem hafa haldið hér ræður um það að losa ríkið út úr atvinnulífinu að hlutur ríkisins skuli aukast stöðugt undir stjórn þeirra. Sumt af þessu er bara sjálfsagt mál. Ég held að það að sjóðir sem ríkið á aðild að til að efla atvinnulífið og eignast hlut í fyrirtækjum til að styðja við bakið á nýrri atvinnustarfsemi og koma henni á lappirnar sé bara jákvætt. Ég mundi ekki hafa áhyggjur af þessari þróun sérstaklega. En ég þykist vita að sumir sem vilja ekki að ríkið eigi mikinn hlut í atvinnulífinu hafi áhyggjur af henni.

Hæstv. forseti. Ég hélt ræðu við 2. umr. málsins og kom þar sjónarmiðum mínum á framfæri og það er fjarri mér að ætla að fara að halda uppi einhverju málþófi í þinginu í kringum þetta mál. Ég tel að það hafi fengið eðlilega og ágæta umfjöllum bæði frá þeim sem eru óánægðir með það og þeim sem eru samþykkir þessu frv.

Niðurstaðan virðist liggja nokkuð ljós fyrir, að ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér að klára þetta mál með þessum hætti sem það er, sem það liggur hér fyrir. Síðan eigum við eftir að sjá hvert framhaldið verður. En ég ætla satt að segja að vona að menn séu ekki fyrir fram alveg búnir að festa sig í þeirri snöru að þeir þurfi og verði að selja þessi fyrirtæki á þeim tíma sem hér er talað um að gera það og taki tillit til bæði hagsmuna eigendanna, þ.e. þjóðarinnar sjálfrar, og fjármálalífsins í landinu þegar teknar verða ákvarðanir um það hvenær þessum söluhugleiðingum verður hrundið í framkvæmd, hæstv. forseti.

Meira ætla ég ekki að segja um þetta mál. Ég læt máli mínu lokið.