Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 14:18:01 (8113)

2001-05-18 14:18:01# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í máli mínu fyrr í umræðunni beindi ég nokkrum fyrirspurnum til hæstv. viðskrh. En hæstv. viðskrh. gat vegna anna lítið verið viðstödd þá umræðu. Ég boðaði af þeirri ástæðu komu mína hingað aftur í ræðustólinn í trausti þess að geta þá rætt við hæstv. ráðherra. Því spyr ég hæstv. forseta nú hvort hæstv. viðskrh. sé ekki einhvers staðar á næstu grösum þannig að ég geti lokið máli mínu vegna þess að ég ætla ekki að vera lengi í ræðustólnum ef ég fæ ráðherrann hingað til að spjalla aðeins við og hún svari þá fyrirspurnum mínum.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. ráðherra er í húsinu og forseti hefur sent henni skilaboð að óskað sé eftir að hún komi til þingsalar.)

Ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra gat ekki verið við umræðuna var sú að ráðherrann var bundin við að kynna skýrslu sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfðum kallað eftir hér á þingi um þróunina varðandi stjórnar- og eignatengsl í atvinnulífinu á fjármálamarkaði. Það er auðvitað nokkuð sérstakt, herra forseti, að byrjað skuli á því að kynna þetta í fjölmiðlum áður en skýrslunni er dreift eða kynnt á hv. Alþingi. Það er mjög sérstakt. Sérstaklega af því að eftir því hefur verið kallað við 1. og 2. umr. málsins að þessi skýrsla gæti verið mikilvægt innlegg í þá umræðu sem hér fer fram um sölu á bönkunum. Því vænti ég þess að hæstv. ráðherra dreifi þessari skýrslu hið fyrsta inni í þingsal þannig að við getum skoðað hana og metið hvaða áhrif stjórnar- og eignatengsl geta haft inn í þá sölu sem hér er áformuð af hendi hæstv. ríkisstjórnar á bönkunum á þessu kjörtímabili vegna þess að það liggur mikið á að selja. Það er bara boðað að selja eigi báða bankana og Landssímann eins og það leggur sig á kjörtímabilinu. Ekkert virðist reka á eftir því nema að þeir vilja selja á meðan þeir eru við völd þannig að þeir geti aðeins haft hönd í bagga með því hverjir þeir aðilar verði sem kaupa þessa banka og verði stærstu kjölfestufjárfestar í bönkunum.

En sú skýrsla sem maður hefur nú hlustað á í fjölmiðlum í hádeginu virðist staðfesta að fákeppni einkennir atvinnulífið. Það er einmitt það sem við óttumst sem höfum talað fyrir því að fara af varkárni í þessa sölu og heimila aðeins sölu á öðrum bankanum, að stórir aðilar í atvinnulífinu geti eignast ráðandi hlut í þessum bönkum og haft þar óeðlileg ítök. Þess vegna höfum við viljað sporna margvíslega við því, m.a. með því að setja takmörkun á atkvæðisrétt, hvað einn aðili eða tengdur aðili gæti farið með stóran hlut í þessum bönkum. Þó að ég hafi ekki séð skýrsluna heyrist mér að ýmislegt sem í henni kemur fram styðji þær áhyggjur sem við höfum í þessu efni vegna þess að það er auðvitað alveg ótækt að stórar og miklar valdablokkir í þjóðfélaginu og fyrirtækjasamsteypur sem eru orðnar ráðandi aðilar í ýmsum atvinnugreinum fari líka að sölsa undir sig markaðsráðandi stöðu í bönkunum.

Ég tók eftir því í fréttum í hádeginu að erfitt er að greina eignatengslin í atvinnulífinu og á fjármálamarkaðnum. Það var vissulega athyglisvert sem þar kom fram að eignarhlutur ríkisins hafi aukist um fjórðung og þá eru nefnd fyrirtæki á sviði fjármálamarkaðarins og fjarskipta og í orkugeiranum. Vera má að það sé vegna þess að þessi fyrirtæki hafa stækkað og orðið verðmætari og út frá þeim mælikvarða gæti það svo sem verið skýringin.

Herra forseti. Ég fór ítarlega yfir það sem ég vildi koma á framfæri við lokaafgreiðslu málsins. Ég beindi fyrirspurnum til ráðherra. Ég skal aðeins hlaupa á því og taka til þess mjög stuttan tíma, herra forseti. Áhyggjur mínar hafa lotið að meðferðinni, svo ég noti nú það orð, á starfsmönnunum og samráðsleysinu við starfsmennina. Ég hef af því áhyggjur að hæstv. viðskrh. skuli ekki kalla til sín forustumenn samtaka starfsmanna sem hafa sett fram í ítarlegri umsögn til efh.- og viðskn. ákveðnar ábendingar og tillögur um aðgerðir sem varða stöðu starfsfólksins í bönkunum sem starfsfólkið hefur lagt áherslu á að verði skoðað áður en bankinn verður seldur.

Það eru ýmsar athyglisverðar hugmyndir sem við höfum tekið undir í þeirri brtt. sem liggur fyrir við 3. umr. Þær eru um að semja við starfsfólk um möguleika á starfsþjálfun og endurmenntun til að auðvelda aðlögun að nýrri tækniþróun og breytingum í bankakerfinu og að eðlileg starfsmannavelta verði höfð í fyrirrúmi við sölu á bönkunum. Starfsmennirnir hafa líka lagt áherslu á að fá fulltrúa í stjórn bankanna.

Mér finnst lágmarkskurteisi við starfsfólkið að því sé sýnd sú virðing að ráðherra hafi frumkvæði að því að boða starfsfólkið á sinn fund, þó ekki væri nema til þess að ræða við það um þær hugmundir sem það hefur í þessu efni. Hæstv. ráðherrann hafði ekki gert þetta þegar við ræddum málið við 2. umr. Ég spyr: Hefur eitthvað breyst í því núna þegar málið er tekið til 3. umr.? Hafa þessi samtöl farið fram eða mun ráðherrann eiga frumkvæðið að því að ræða við starfsfólkið um þær hugmyndir sem það hefur áður en kemur til sölu á bankanum? Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það, herra forseti, og vænti þess að ráðherrann hæstv. svari því.

Ég spyr líka um það sem fram kom í fréttum nú í vikunni, það sem haft var eftir fulltrúa í einkavæðingarnefnd sem sagði að ekki væri heppilegt að selja hlut ríkisins í Búnaðarbankanum meðan bankinn sætir opinberri rannsókn. Ég spyr um afstöðu ráðherrans til þess sem þar kemur fram, hvort ráðherrann telji að sú rannsókn sem hafin er og ekki hafa komist lyktir á sem snerta mál sem tengjast Búnaðarbankanum, tvö mál sem eru til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild rannsóknarlögreglunnar, hvort hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að það þurfi að leiða þau mál til lykta áður en bankinn fari í sölu. Og hvort hæstv. ráðherra sé sammála því og hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórninni og tekin um það ákvörðun að selja hlut ríkisins í Landsbankanum áður en farið verður í sölu á Búnaðarbankanum?

Þetta er það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um. Ég geri ráð fyrir, herra forseti, þó að það skipti vissulega miklu máli í þeirri heimild sem hér er verið að veita ráðherranum, hvort tekin hafi verið afstaða til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig ráðstafa eigi andvirðinu af sölunni, að þá sé ekkert nýtt í því máli. Ég geng út frá því að ráðherra muni upplýsa okkur um það ef svo er. Ráðherrann hefur rætt um áhuga sinn á að verja andvirði af sölunni til byggðamála. Auðvitað eru skiptar skoðanir um að fara þá leið ef á að fara að stofna til einhvers byggðasjóðs með andvirðinu á þessari sölu. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún geti greint eitthvað nánar frá þeim áformum, hvað hún hafi nánar í huga að því er varðar ráðstöfun á andvirðinu til byggðamála. Það er náttúrlega mjög opið og teygjanlegt að skilja þannig við það eins og ráðherrann hefur rætt, að hún hafi áhuga á að verja hluta af þessu til byggðamála. Mér finnst, herra forseti, að þingið eigi heimtingu á því að ráðherrann skýri eitthvað heldur nánar um áformin en hér hafa komið fram. Við erum að tala um sölu á ríkisbönkunum og það eru miklir peningar í húfi, mikil verðmæti í húfi þar. Auðvitað skiptir máli miðað við stöðuna í efnahagslífinu hvernig andvirðinu er ráðstafað.

Herra forseti. Í lokin vil ég nota tækifærið og spyrja ráðherrann af því það snertir þessi bankamál og margir óttast að það gæti verið að miðað við þá miklu útlánaþenslu sem verið hefur, eiginfjárstöðu bankanna og fleiri atriði, vísbendingar um að það gætu verið útlánatöp í farvatninu í bankakerfinu. Mér finnst þetta nokkuð stórar stærðir sem ég fæ í svari frá hæstv. ráðherra í dag um vanskil einstaklinga og fyrirtækja í bankakerfinu. Ég spyr ráðherrann um mat hennar á þeim tölum sem koma fram í svari hennar þar sem fram kemur yfirlit yfir vanskil hjá níu innlánsstofnunum sem eru með 73% af heildarútlánum innlánsstofnana. Það kemur fram að heildarvanskil hjá fyrirtækjum og einstaklingum voru 31. mars milli 17 og 18 milljarðar. Þar af voru hjá einstaklingum um 7,6 milljarðar kr. í vanskilum og það voru 5,7% af heildarútlánum sem mér finnst vera nokkuð há tala vegna þess að í svarinu kemur einnig fram samanburður við vanskil sem eru hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum, þar sem vanskil eru töluvert innan við 1%, og því finnst mér við sjá nokkuð háar tölur hjá bönkunum í þeim tölum sem ég hef hér nefnt. Ég vildi fá mat ráðherrans á þeim tölum sem fram koma í svari hennar um leið og ég lýsi óánægju með það að enn eina ferðina erum við að sjá svar frá ráðherrum þar sem þeir svara ekki því sem um er spurt og skýla sér á bak við hlutafélagalöggjöfina og upplýsingalögin, sem ég tel að fari vaxandi, herra forseti, hér í þinginu og vera virkilegt áhyggjuefni. Sérstaklega þegar verið er að spyrja svona almennra spurninga eins og hér er gert, þar sem verið er að spyrja um heildarvanskil í bankakerfinu að ekki skuli fást fyllri svör við þeim spurningum sem ég lagði fyrir ráðherrann en hér koma fram. Það er áhyggjuefni og hvernig ráðherrarnir svara þessum fyrirspurnum og hlýtur við betra tækifæri, herra forseti, að verða tekið upp með einum eða öðrum hætti í forsn. vegna þess að á þessum vetri hafa safnast upp ansi mörg mál og svör frá ráðherrum sem ástæða væri til að væri rætt í forsn. og af formönnum þingflokka hvernig með skuli fara. Þetta er ekki hægt, herra forseti, þessi yfirgangur framkvæmdarvaldsins við löggjafarsamkomuna. Sífellt er erfiðara fyrir þingmenn að sinna störfum sínum í ljósi þess hve hæstv. ráðherrar hunsa það almennt í skjóli hlutafélagalaga að upplýsa þingheim og gefa þeim svör við eðlilegum fyrirspurnum sem fram eru bornar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þetta lengra og mun ekki þurfa að ræða frekar um þetta mál, sérstaklega ef ég fæ nú skýr og skilmerkileg svör frá hæstv. ráðherra við þeim spurningum sem ég hef beint til ráðherrans.