Sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 15:51:17 (8133)

2001-05-18 15:51:17# 126. lþ. 128.10 fundur 626. mál: #A sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða# frv. 53/2001, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við athugun þessa máls í félmn. komu ekki fram miklar athugasemdir við að við mundum afgreiða málið þaðan út, nema hvað fyrirvari var reyndar hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Eftir því sem ég hef athugað þetta mál hjá sveitarstjórn Fljótsdalshrepps og fram kemur jafnframt í þessari greinargerð, þá telur hreppsnefndin að það þjóni best hagsmunum íbúa hreppsins að búskap verði haldið áfram á jörðunum og frv. gerir einmitt ráð fyrir því að einungis sé heimilt að selja jarðirnar til ábúenda hreppsins.

Ég get svo sem tekið undir að það er í sjálfu sér sjálfstætt athugunarefni að fara yfir það hversu margar kristfjárjarðir eru yfir höfuð til og hvernig þeim er fyrir komið almennt í landinu.

Varðandi þetta mál, þá er þetta náttúrlega ósk hreppsnefndarinnar. Ráðuneytið er búið að fara mjög vandlega yfir málið og í raun var heimild til þess að selja þetta með lögum 20/1953. En tímafresturinn til þess að selja jarðirnar rann út þá og í því tilfelli var einungis nýtt heimildin til að selja jörðina Geitagerði. Þess vegna er hreppsnefnd Fljótsdalshrepps nú að óska eftir endurnýjuðu umboði til þess að fá að selja þessar jarðir.