Skýrsla um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 20:35:31 (8193)

2001-05-18 20:35:31# 126. lþ. 128.92 fundur 587#B skýrsla um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (um fundarstjórn), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[20:35]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef ekkert við fundarstjórn forseta að athuga en ég leita ásjár hjá forseta og aðstoðar hans. Við þingmenn og þjóðin öll fylgdumst með því í fréttum áðan að í dag kom út bók sem beðið hefur verið lengi eftir um eignamyndun og tengsl í íslensku atvinnulífi, beiðni og tillaga sem kom héðan úr þinginu á sínum tíma og hefur verið kallað ítrekað eftir.

Ég leit í hólfið mitt rétt fyrir þennan fund og sá að bókin var ekki komin í hendur okkar þingmanna. Ég átel hæstv. viðskrh. harðlega fyrir að standa svona að verki. Það er lágmarksvirðingarvottur við þingmenn og hið háa Alþingi að þetta rit komi í hendur alþingismanna a.m.k. á sama tíma og það er sýnt fréttamönnum.

Ég leita því ásjár hjá hæstv. forseta við það að hann beini þeim eindregnu tilmælum og raunar skipun til framkvæmdarvaldsins, hæstv. viðskrh., að þessi bók komi í hendur okkar núna og ekki mínútunni síðar.