Skipan opinberra framkvæmda

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 20:41:42 (8198)

2001-05-18 20:41:42# 126. lþ. 128.15 fundur 671. mál: #A skipan opinberra framkvæmda# (heildarlög) frv. 84/2001, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[20:41]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um skipan opinberra framkvæmda. Minni hlutann skipa ásamt mér hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson.

Helstu breytingar sem þetta frumvarp felur í sér leiðir af nýju frumvarpi til laga um opinber innkaup sem greidd voru atkvæði um hér áðan. Auk þess er kveðið á um starfsemi og hlutverk Framkvæmdasýslu ríkisins. Minni hlutinn hefur skilað ítarlegu nefndaráliti um frumvarpið um opinber innkaup. Þar er rökstutt að rétt sé að vísa málinu frá, m.a. vegna ágreinings sem óútkljáður er við sveitarfélögin og hugmynda sem fram hafa komið hjá Ríkisendurskoðun og fela í sér grundvallarbreytingu á skipan opinberra framkvæmda, m.a. milli ráðuneytisins og Framkvæmdasýslu ríkisins, sem rétt þykir að fái skoðun áður en frumvörpin verði að lögum. Til þess gafst ekki tíma vegna hraða sem er á afgreiðslu mála á hv. Alþingi.

(Forseti (GuðjG): Það er fullmikill kliður í salnum og hliðarsölum.)

Það eru afleit vinnubrögð og gagnrýnisverð. Minni hlutinn hefur lýst vilja sínum til þess að málið fái betri umfjöllun í nefnd, ágreiningur við sveitarfélögin verði leystur og hugmynd Ríkisendurskoðunar tekin til sérstakrar skoðunar áður en frumvörpin tvö verða að lögum.

Til þess á að gefast tími í sumar og hægt væri að taka málið fyrir strax á haustþingi, en ekkert hefur komið fram í málsmeðferð nefndarinnar á þessu máli né hinu fyrra sem atkvæði voru greidd um hér áðan sem rökstyður þann hraða sem er á afgreiðslu þessara mála.

Með vísan til þess sem ég hef hér sagt og ítarlegs rökstuðnings minni hlutans við frumvarp um opinber innkaup, 670. mál, leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.