Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 21:56:52 (8204)

2001-05-18 21:56:52# 126. lþ. 128.16 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv. 59/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[21:56]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru dæmigerð viðbrögð hjá hv. þm. Ekki leggur hann á aukagjöld ríkissjóðs þegar búið er að einkavæða. Þá hverfur sú músarholan. Nú veit ég ekki hvort fjölskyldumeðlimir hv. þm. hafa þurft á þessu skyndiafgreiðslu að halda eður ei en hafi svo verið, þá hafa útgjöld hjá fjölskyldu hv. þm. verið í kringum 30 þús. kr. Raunkostnaður vegna útgáfunnar hefði verið kringum 5 eða 6 þús. Ég er fyrst og fremst að gagnrýna það.

Mér finnst þetta mál ekki sérstaklega broslegt. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál. Hér er ég að nefna til sögunnar tvö dæmi og þau eru vafalaust miklu fleiri. Þetta eru hins vegar dæmi sem varða hvern einasta mann og ég er handviss um að fólk sem leggur í sína fyrstu utanferð eftir að hafa sparað fyrir henni munar um að þurfa að greiða viðbótarskatt til ríkisins ofan á allt annað, jafnvel tugþúsundir króna. Það er auðvitað ekki markmið löggjafans þegar við erum að afgreiða aukatekjur ríkissjóðs. Ástæðurnar eru þær að við viljum tryggja að ríkissjóður verði ekki fyrir fjárhagslegum skakkaföllum vegna þessarar þjónustu.

Það er auðvitað allt annað mál hver á að halda utan um þessa þjónustu. Mér þykir það hins vegar býsna mikil gagnrýni á hæstv. fjmrh. og raunar aðra ráðherra sem koma nærri þessu, dómsmrh. og utanrrh., ef hv. þm. telur affarasælast í málinu að losa einfaldlega ráðherrana við þetta ok, að þurfa að veita almenningi þessa þjónustu. Ég vil þó trúa því að þeir vilji standa sig.