Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 22:02:50 (8207)

2001-05-18 22:02:50# 126. lþ. 128.16 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv. 59/2001, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[22:02]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það bregst ekki að í hvert skipti sem lagðar eru til breytingar á lögunum um aukatekjur ríkissjóðs spinnast um það mál býsna fjörlegar umræður í þingsalnum. Svo hefur einnig orðið að þessu sinni, bæði við 1. umr. og við 2. umr. og hreyfa menn þá gjarnan ýmsum almennum sjónarmiðum varðandi þessa löggjöf en ekkert sérstaklega kannski því sem er til umfjöllunar í viðkomandi lagafrv.

Lögin um aukatekjur ríkissjóðs sem slík eiga sér ekki mjög langa sögu. Hún er innan við tíu ára gömul. Það er vegna þess að áður giltu ekki um þessa gjaldtöku sérstök lög. Þá var henni komið fyrir í reglugerð sem fjmrh. gaf út og sem var venjulega breytt á ári hverju skömmu fyrir áramót til þess að tryggja hag ríkissjóðs að þessu leyti til á ári komanda og með tilliti til þeirra fjárlaga sem þá höfðu verið afgreidd fyrir næsta ár. Þannig var þetta nú og ekki spunnust miklar umræður á Alþingi um einstök ákvæði þessarar reglugerðar alla jafna. Þó var það eitt árið svo að úr slíku hófi keyrði af hálfu þáv. fjmrh., forvera míns sem þá sat, að um það spunnust miklar umræður á Alþingi og víðar í þjóðfélaginu því að þá hafði viðkomandi ráðherra með einu pennastriki ákveðið að margfalda í sumum tilfellum þá gjaldtöku sem tekin var af ákveðnum aðilum, ákveðin leyfi og þess háttar til þess að bæta stöðu ríkissjóðs. (ÖJ: Var það Friðrik?) Síðan þegar ný ríkisstjórn tók við ekkert löngu síðar, 1991, var gengið í að lagfæra þetta, það sem eftir stóð af þessum atriðum, og koma þessu fyrir í lögum þar sem þessi mál eiga heima. En það er stundum eins og manni finnist að fólk sem var á Alþingi á þeim árum og studdi þáv. ríkisstjórn og stóð að baki þeim ákvörðunum hafi eitthvað slæma samvisku út af þessu sem þá gerðist og sé að reyna að láta það koma fram tíu eða tólf árum síðar að skoðanir viðkomandi í þessum efnum hafi gjörbreyst. Ég fagna því að sjálfsögðu ef þetta mál er þannig í pottinn búið.

Lögin um aukatekjur ríkissjóðs eru samsett af ýmsum gjaldtökuliðum þar sem er verið að greiða fyrir ýmsa þjónustu og fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins sem veitt er borgurunum samkvæmt beiðini eða óskum hverju sinni eða við sérstakar aðstæður sem upp koma.

Hvert er þá innihald þess frv. sem hér er núna til umræðu? Það er þríþætt. Í fyrsta lagi að láta sömu reglur gilda um öryrkja og gilda um aldraða að því er varðar útgáfu vegabréfa, þ.e. að sá afsláttur sem aldraðir fá í dag nýtist líka öryrkjum. Fulltrúar Öryrkjabandalagsins gengu á minn fund snemma á árinu og óskuðu eftir því að það sama yrði látið gilda um þá og aldraða í þessu efni. Ég segi: Mér finnst þetta sanngjörn ósk. En ég get ekkert gert í þessu nema Alþingi fallist á að gera slíka breytingu. Ég skal taka þetta með næst þegar flutt verður frv. um aukatekjur ríkissjóðs. Nú eru menn að tala um að það sé bara rétt að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar og vera ekkert að afgreiða þetta mál, þetta sé bara alveg hörmulega vitlaust frv. og eigi ekkert erindi inn í Alþingi. En þetta er reyndar bara eitt atriðið í málinu sem nú er verið að flytja.

Annað atriðið er að í stað þess að í reglugerð sem utanrrn. gefur út og fáir hafa séð og fáir hafa tök á að kynna sér, þá sé það sett í lögin um aukatekjur ríkissjóðs hvað utanrrn. tekur í þóknun fyrir ýmsa þjónustu sem veitt er Íslendingum, aðallega í útlöndum. Geta menn verið á móti slíkri breytingu í raun? Vilja menn frekar að þetta sé í einhverri reglugerð sem utanrrn. er að pukrast með en í lögum sem samþykkt eru af Alþingi? (Gripið fram í: Hver er að segja það?) Út á hvað ganga þessar kvartanir og þessar athugasemdir við frv.? Þær ganga nefnilega ekki út á efni málsins sem ég er að reyna að rekja fyrir þá sem kannski ekki hafa kynnt sér hvert efni málsins er.

Svo er í þriðja lagi meginkafli þessa frv. sá að teknar verði inn í lögin þær gjaldtökuheimildir sem Ísland er búið að skuldbinda sig að þjóðarétti til þess að innleiða hér og tengjast Schengen-samningnum. Vill Samfylkingin kannski ekki að við förum eftir þeim samningi um Schengen sem mig minnir að Samfylkingin hafi stutt þegar það mál var afgreitt á Alþingi?

Þegar maður leyfir sér að líta á efni frv. sem er í aðalatriðum þetta þrennt, hvað stendur þá eftir í þessum ágreiningi? Jú, það stendur eftir að menn eru með almennar athugasemdir við upphaflegu lögin og menn hafa fram að færa einhvern gálgahúmor um hvað það taki langan tíma að útvega sér vegabréf, ökuskírteini og brennuleyfi og eitthvað slíkt og eru að hafa það hér uppi máli sínu til stuðnings.

Spurt var hvað þetta gæfi miklar tekjur í ríkissjóð. Hvað haldið þið að það gefi miklar tekjur í ríkissjóð að lækka vegabréfakostnað öryrkja eins og hér er verið að gera? Liggur ekki í augum uppi að tekjur í ríkissjóð skapast ekki við það? Hvað halda menn að það færi miklar tekjur í ríkissjóð að flytja úr reglugerð í utanrrn. yfir í þessa löggjöf? Auðvitað aukast ekki tekjur ríkissjóðs við það vegna þess að sú gjaldtaka er þegar fyrir hendi og það er breytilegt frá ári til árs hvað þar er um að ræða, stundum meira og stundum minna.

Að því er varðar Schengen-reglurnar þá veit náttúrlega enginn hvað þar verður á ferðinni í sambandi við þá gjaldtöku í rauninni og heldur ekki hve mikill kostnaður samfara þessu leggst á sem vonandi verður þó ekki meiri en þessi gjaldtaka. Þannig er þetta nú, herra forseti. Ég tel að af þessu litla tilefni, þessu frv., sé búið að þyrla upp alveg furðulegu moldviðri. Það er verið að ræða hér heilmikið um flugleiðsögugjaldið, hin og þessi mál.

Eitt skal ég þó taka undir af því sem hér hefur verið rætt og það gerði ég líka við 1. umr. málsins. Það er það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði við þá umræðu og einstaka menn hafa verið að vitna í og er reyndar nefnt í áliti minni hluta hv. efh.- og viðskn. og það er þáltill. sem var samþykkt á sínum tíma um þessi mál, þ.e. 1993. Ég sagði við 1. umr. að ég vildi kanna hvað því máli liði. Ég tel augljóst að ekki hefur verið farið í það verk sem hér var samþykkt 1993 fyrst það er ekki enn þá fram komið og ég mun skoða hvað skynsamlegast sé að gera í því efni nú átta árum síðar. Ég tel hins vegar eðlilegt að mörgu leyti að fara í heild sinni yfir þessi mál eins og þáltill. frá þeim tíma gerði ráð fyrir.

Síðan er það þetta sem stundum er spurt um, þ.e. hvað með tekjurnar af öllu þessu? Er þetta ekki mjög óréttlátt? Er ekki óeðlilegt að verið sé að taka svona gjöld? Mér finnst það ekki. Mér finnst eðlilegt að fólk greiði fyrir þjónustu eins og t.d. útgáfu vegabréfa og það er alls staðar gert og þykir hvergi tiltökumál. Deila má um það hvort það sé skattur eða þjónustugjald. Það er skattur samkvæmt skilgreiningu ef það er hærra gjald en sem kostnaði af þjónustunni nemur. Ég hef ekki á takteinum hvað kostnaðurinn við þetta er mikill. Mér þykir líklegt að hann sé ekki eins mikill og hv. þm. nefndi, 120--150 millj. og þá er þetta skattur. (Gripið fram í.) Já, já. Það er gott. Þá þarftu ekki að vera að spyrja mig að þessu ef þú ert með þetta allt saman. Þá getur þingmaðurinn bara lesið sér til um þetta. En þá er þetta skattur. Það er auðvitað þess vegna sem þarf að fá staðfestingu og samþykki Alþingis til þess að leggja þetta á svo að menn þurfa ekki að láta sér koma það á óvart. Alþingi þarf að samþykkja skatta og gjöld af þessu tagi.

Ég hef aldrei haldið því fram að þetta væru ekki skattar og finnst ekkert athugavert við það. Ég tel því að í þessu máli hafi fólk verið að þyrla upp ástæðulausu moldviðri. Það er alveg óskiljanlegt ef þingmenn eru með einhverjum hætti að leggja stein í götu þess að þetta mál nái fram að ganga. Svo er það auðvitað önnur saga hvað við viljum gera almennt í þessum hlutum. Mér segir svo hugur um að það verði ekki fyrsta verk núverandi stjórnarandstöðu ef hún kemst einhvern tíma til valda að fella niður lögin um aukatekjur ríkissjóðs og þá gjaldstofna sem í þeim eru fyrir ríkið. Það held ég að verði seint gert af slíkum aðilum þegar og ef þeir komast hér einhvern tíma til valda.