Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 20:25:26 (12)

2000-10-03 20:25:26# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[20:25]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þegar við komum saman til þingstarfa á þessu hausti er að flestu leyti bjart yfir þjóðlífinu. Sú heillaþróun sem hófst með þátttöku Framsfl. í ríkisstjórn vorið 1995 heldur áfram. Fjárhagur ríkisins er orðinn traustur, atvinnuleysinu hefur verið útrýmt.

Við framsóknarmenn töluðum 1995 um að skapa þyrfti 12 þúsund störf til aldamóta. Þau eru orðin yfir 15 þúsund. Þessi mikla fjölgun starfa hefur orðið til þess að við erum orðin háð erlendu vinnuafli. Gera má ráð fyrir að hér séu að störfum 8--9 þúsund útlendingar. Reynslan sýnir að um 40% þeirra útlendinga sem fengu atvinnuleyfi frá Vinnumálastofnun fyrir fjórum árum eru hér enn þá. Þetta fólk er að setjast hér að og við höfum skyldur við það eins og aðra þegna þjóðfélagsins. Á þessu hausti eru t.d. 700 börn í grunnskólum Reykjavíkur af erlendu bergi brotin.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ætla að sinna nýbúum myndarlega og hafa alla burði til þess. Við í félmrn. ætlum okkur að hrinda í framkvæmd ályktun Alþingis frá í fyrravor og koma á fót nýbúamiðstöð á Vestfjörðum.

Einnig ber að geta þess að undanfarin tvö ár hafa fleiri Íslendingar komið heim frá útlöndum en flutt hafa úr landi. Þetta sýnir okkur m.a. að hér er betra að búa en víðast hvar annars staðar og trúin á landinu hefur aukist.

Hagur fjölskyldnanna á Íslandi hefur stórbatnað. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um fjórðung, velferðarþjóðfélagið stendur miklu traustari fótum og það samfélag sem við lifum í í dag er að flestu leyti betra en það var fyrir hálfum áratug. Ekki svo að skilja að ekki bíði næg verkefni fram undan. Þótt lífskjör hér séu betri en í næstum öllum öðrum löndum er þó brýnt að bæta enn frekar en gert hefur verið kjör öryrkja og þess hluta aldraðra sem lægstar tekjur hafa. Einnig þarf að leita leiða til að auðvelda öldruðum, sem langflestir hafa sem betur fer góða eignastöðu, að njóta eigna sinna og skapa sér þægilegri lífdaga á ævikvöldi fremur en að láta eftir sig mikinn arf.

Efnahagur ríkisins er mjög traustur og sama má segja um efnahag þeirra sveitarfélaga sem best eru rekin og ekki hafa orðið fyrir áföllum. Afkoma sveitarfélaganna skiptir þjóðarbúskapinn miklu máli og því er brýnt að hann sé alls staðar í lagi. Með nýlegum sveitarstjórnarlögum hefur fjárhagseftirlit þeirra verið treyst. Við þurfum að styrkja sveitarstjórnarstigið, flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga og fá sveitarfélögunum tekjur til þess að standa sómasamlega undir lögbundnum verkefnum sínum.

Nefnd um tekjustofna sveitarfélaga sem ég skipaði í fyrra er komin vel á veg og vona ég að sátt geti orðið um tillögur hennar. Þessi nefnd hefur vandasamt verkefni þá þegar af þeirri ástæðu að aðstaða sveitarfélaganna er mjög misjöfn. Hinir miklu þjóðflutningar sem orðið hafa á undanförnum árum hafa komið harkalega við sveitarfélögin.

Þjóðhagsstofnun áætlaði fyrir tveimur árum að hver einstaklingur sem flytti búferlum kostaði viðtökusveitarfélagið 3--5 millj. Útsvarstekjur vaxa raunar á móti um 10--15% milli áranna 1999 og 2000 í þeim sveitarfélögum þar sem aðflutningurinn er mestur. Þau sveitarfélög sem verða fyrir verulegri fólksfækkun eiga hins vegar við tilfinnanlega tekjuskerðingu að stríða. Þar að auki sitja sum sveitarfélög uppi með auðar íbúðir sem þau hafa orðið að innleysa úr gamla félagslega húsnæðiskerfinu. Þetta skapar gífurlegan vanda í sumum sveitarfélögum. Unnið er að lausn þessa vanda.

Árið 1999 og það sem af er þessu ári hafa verið innleystar af sveitarfélögunum um 480 félagslegar íbúðir. 220 þessara íbúða hefur verið breytt í leiguíbúðir í eigu sveitarfélaganna en hinar seldar út úr kerfinu. Íbúðalánasjóður hefur veitt rúmlega 500 lán til leiguíbúða frá því að hann tók til starfa og um tvö þúsund tekjulitlar fjölskyldur hafa fengið lán til að kaupa sér eigið húsnæði.

Viðræður standa yfir um hvernig ríkisaðstoð við öflun leiguhúsnæðis verður háttað í framtíðinni. Þá er mikið starf óunnið við að ráða bót á fortíðarvanda félagslega húsnæðiskerfisins en að því munum við einbeita okkur. Breytingin á húsnæðiskerfinu hefur sannað ágæti sitt og stuðlað að stórkostlegum úrbótum í húsnæðismálum, sérstaklega hinna tekjulægri.

[20:30]

Fólksflutningar hafa skapað mikla þenslu á fasteignamarkaði höfuðborgarsvæðisins og sú þensla er rótin að helmingi þeirrar verðbólgu sem verið hefur undanfarið. Sem betur fer er heldur að draga úr þenslunni sem er auðvitað varasöm og þjóðhagslega mjög óhagkvæm. Þenslan á fasteignamarkaði höfuðborgarsvæðisins orsakaði einnig afföll á húsbréfum og þrátt fyrir afföllin, sem eru enn of mikil, eru þó raunvextir af húsbréfum enn þá innan við 6%.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur miklu og vaxandi hlutverki að gegna og ástæða er til að endurskoða reglur þær er gilda um jöfnunarsjóði. Enn fremur verður að lagfæra grundvöll fasteignamatsins og miða við raunverulegt verðmæti eigna. Það er ranglátt að skattleggja fasteignir á landsbyggðinni langt yfir markaðsverði. Á hinn bóginn verður að bæta sveitarfélögum sem verða fyrir tekjutapi við leiðréttingu fasteignamatsins, tekjumissi sem hlýst af breytingunum.

Svokölluð auðlindanefnd hefur nýlega skilað viðamikilli álitsgerð. Það er von margra að tillögur auðlindanefndar geti leitt til betri sátta í þjóðfélaginu um skipan auðlindamála en ég tel fyllstu ástæðu til að fara vandlega yfir hvernig hugmyndir auðlindanefndar koma við sveitarfélögin í landinu og mun óska eftir samstarfi við sveitarfélögin um það efni. Veiðileyfagjald er fyrst og fremst skattur sem leggst á landsbyggðina og gaumgæfa ber vandlega hver áhrif veiðileyfagjaldið kemur til með að hafa á sjávarbyggðirnar.

Á sviði barnaverndarmála hefur sá gleðilegi árangur náðst að biðlisti eftir vímuefnameðferð er horfinn og unnt er að veita þeim börnum sérhæfða meðferð sem þess þarfnast. Frv. til nýrra barnaverndarlaga verður lagt fram á Alþingi innan skamms. Frv. felur í sér fjölda nýmæla og einnig er margt skýrara þar en í gildandi lögum. Í fjárlagafrv. næsta árs er gert ráð fyrir stórhækkun fjármuna til barnabóta. Þá mun ég endurflytja frv. til nýrra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga ásamt fylgifrumvörpum. Þessi frv. voru lögð fram til kynningar á síðasta þingi og umsagna var aflað. Félagsþjónustufrv. breytist nokkuð með hliðsjón af ábendingum sem fram hafa komið. Er það von mín að á grundvelli nýrra laga verði félagsþjónustan betri og skilvirkari og betur verði séð fyrir þörfum langveikra barna og fatlaðra. Biðlistar eftir úrræðum fyrir fatlaða eru að styttast og hefur verið unnið markvisst eftir tillögum biðlistanefndarinnar frá 1998.

Nýlega hafa verið tekin í notkun í Reykjavík dagvistarrými þar sem um 40 einstaklingar njóta þjónustu og von er til að þörfinni fyrir dagvistarrými í Reykjavík verði fullnægt innan skamms. Hvað búsetuúrræði varðar standa vonir til þess að unnt verði að leysa úr vanda flestra á næstu missirum.

Nýlega var opnuð Jafnréttisstofa á Akureyri. Starfið þar fer glæsilega af stað undir forustu Valgerðar H. Bjarnadóttur. Nýju jafnréttislögin leggja grunn að bættu þjóðfélagi jafnaðar og réttlætis. Við Íslendingar erum í fararbroddi þjóða heims í jafnréttismálum og það er viðurkennt á alþjóðavettvangi.

Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof voru samþykkt á síðasta þingi. Þegar þau eru að fullu komin til framkvæmda hafa konur og karlar sama rétt og sömu aðstöðu til góðs fjölskyldulífs og ættu einnig að verða jafnsett á vinnumarkaði hvað laun og starfsframa varðar. Þessi lagasetning er geysilegt framfaraspor og mjög mikil réttarbót fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Herra forseti. Samskipti okkar við aðrar þjóðir varða okkur ætíð miklu. Það er engin nýlunda þó rætt sé um afstöðu Íslands til Evrópusamrunans enda er það málefni sem flestum öðrum fremur ræður því hvar menn skipast í flokka. Afstaða til EB var rækilega rædd upp úr 1960. Evrópustefnunefnd Alþingis lagði í það mikla vinnu á árunum 1988--1990 að reyna að móta afstöðu Íslands sem var að frumkvæði utanrrh. var unnin mikil skýrsla og lögð fram á Alþingi og rædd hér á síðasta vori um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi. Innan Framsfl. fer nú fram umræða um Evrópumál en það er fjarri því að það merki að Framsfl. hafi breytt um afstöðu til Evrópusambandsins. Samkvæmt skýrslu utanrrh. mundi aðild að ESB kosta okkur yfir 8.000 millj. árlega í beinum fjárframlögum til sjóða bandalagsins. Við gætum hugsanlega fengið helming þeirrar upphæðar til baka í styrkjum að óbreyttum aðstæðum. Ef við höfum 8.000 milljónir aflögu árlega sýndist mér ráðlegra að ráðstafa þeim sjálfir innan lands til byggðamála, til atvinnuuppbyggingar og til að bæta lífskjör þjóðarinnar.

Sem betur fer farnast okkur vel við núverandi aðstæður og engar þær blikur sjáanlegar sem knýja okkur til stefnubreytingar. Á meðan við búum við betri lífskjör, meiri lífsgæði og traustari hag en flestar aðrar þjóðir getum við unað glöð við okkar. Sjálfstæðið hefur reynst Íslendingum dýrmætt, yfirráð yfir auðlindum okkar eru okkur ómetanleg og óskynsamlegt væri að afsala þeim.