Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 13:48:13 (31)

2000-10-04 13:48:13# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Sú regla gildir í þinghúsinu að einvörðungu kjörnir fulltrúar hafa málfrelsi. Þingpallarnir eru þéttsetnir en ég er sannfærður um að ef þar ríkti málfrelsi hefðu einhverjir viljað láta athugasemdir og orð falla undir þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar og vísa ég þar til ráðherranna.

Ég vil byrja á því að fagna umræðunni. Hún er ekki löng en í rauninni er ekki þörf á langri umræðu. Öll rök í málinu hafa þegar komið fram. Það er staðreynd sem verður ekki mótmælt að kjör aldraðra og öryrkja hafa ekki þróast á undanförnum árum eins og hefðbundin viðmiðunarlaun. Allir muna að tengslin þarna á milli voru rofin og þeim breytt á þann veg að hliðsjón skyldi höfð af meðaltölum en ekki þeim kauptöxtum láglaunafólks sem samstaða var um í kjarasamningum að hækka umfram meðaltal. Þetta hefur leitt til þess að grunnlífeyrir og tekjutrygging sem var 51,7% af dagvinnulaunum verkamanna árið 1991, var á síðasta ári komin niður í 43,9% af þessum launum. Þetta er staðreynd og er þá ótalin kjaraskerðingin sem er til komin vegna raunlækkunar á skattleysismörkum, að ekki sé minnst á aukinn lyfja- og símkostnað.

Það er líka staðreynd að öryrki getur mest fengið um 70 þús. kr. á mánuði og það er staðreynd að hann hrapar niður í 49 þúsund við það eitt að vera í sambúð og afli makinn tekna getur sú upphæð farið niður í 17 þús. kr. Einstaklingur með þessar tekjur er sviptur sjálfstæði sínu, um það þarf ekki að hafa fleiri orð. Og fólk sem er á þessum töxtum fær ekkert umfram það sem hér er kveðið á um, hæstv. forsrh. Það er líka staðreynd að ef ekki verður breyting á stefnu ríkisstjórnarinnar mun enn aukast bilið á milli lágra kauptaxta annars vegar og grunnlífeyris öryrkja og aldraðra á komandi árum. Um þetta hefur verið tekin ákvörðun og þinginu var greint frá henni á sl. vori. Þetta er mergurinn málsins. Það snýst um pólitískar ákvarðanir. Nú hefur ríkisstjórnin myndarlegan tekjuafgang upp á 30 milljarða kr. og ef pólitískur vilji er fyrir hendi að leiðrétta þessi kjör þá er það gerlegt.

Hæstv. heilbrrh. (Forseti hringir.) Þessi mál eiga að vera á borðum allra ríkisstjórna, en ekki bara á borðinu. Við erum orðin þreytt á orðagjálfri. (Forseti hringir.) Nú viljum við framkvæmdir og við krefjumst framkvæmda.

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir á að mjög margir hv. þm. óska eftir að taka þátt í umræðunni sem gert er ráð fyrir að standi aðeins í 30 mínútur og hann ætlast til þess að hv. þm. virði þau tímamörk sem hér eru sett sem eru tvær mínútur.)