Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:10:36 (78)

2000-10-05 11:10:36# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:10]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hér er einnig hreyft mikilvægu máli sem þingmenn þekkja mætavel vegna fyrri umræðna í þingsalnum um tekjuskiptingarmál ríkis og sveitarfélaga. En ástæðan fyrir því að ekki er vikið að þessu máli með öðru en almennum hætti í fjárlagafrv. er auðvitað sú að það er engin ný niðurstaða í þessu máli. Það er nefnd að störfum undir forustu hv. þm. Jóns Kristjánssonar sem er að vinna að tillögum um þetta mál. Hvernig dettur þingmanninum í hug að til greina kæmi að setja eitthvað inn í fjárlagafrv. um þessi mál áður en einhver niðurstaða er fengin á pólitískum vettvangi um þessi atriði?

Hæstv. forsrh. gat þess í stefnuræðu sinni að fullur vilji er til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma til móts við þau sveitarfélög sem hafa orðið fyrir fólksfækkun og lent í erfiðleikum fjárhagslega af þeim sökum með sérstökum fólksfækkunarframlögum svipað og gert var í fyrra. Það er einnig fullur ásetningur ríkisstjórnarinnar að efna það fyrirheit sem gefið var í stjórnarsáttmálanum um að breyta fyrirkomulagi fasteignamats á landsbyggðinni þannig að létt verði af íbúunum í sveitarfélögunum úti á landi rúmlega 1 milljarði kr. sem nú er ranglega af þeim tekinn með því að miða fasteignamat úti á landi við eignir á Reykjavíkursvæðinu. (SvanJ: Er það ekki samkvæmt lögum?) Það þarf að breyta þeim lögum. Það er það sem ég er að segja. Það er það sem þarf að gera, það þarf auðvitað að breyta lögunum. Liggur það ekki fyrir, hv. þm., að hlutverk Alþingis er að breyta lögum? Er það nýtt mál? Þarf að kalla fram í og segja: Það þarf að breyta lögum. Það er ekki bannað með lögum að breyta lögum, hv. þm. (SvanJ: Þú sagðir að það hafi verið ranglega tekið.) Ég tel að það hafi verið ranglega tekið, já, vegna þess að ég tel að þau lög séu óréttlát og það eigi að breyta þeim þess vegna.