Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:35:53 (82)

2000-10-05 11:35:53# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt í ræðu þingmannsins sem ég vil gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi það sem hann sagði um aukningu útgjalda umfram verðlagsþróun. Það er rétt að nokkur aukning útgjalda er í frv. En það er hins vegar ekki aukning almennra rekstrarútgjalda í frv., það er lykilatriði. Aukningin er á þeim sviðum sem ég taldi upp sérstaklega áðan, á sviði fjölskyldumála vegna Fæðingarorlofssjóðsins og aukinna barnabóta og á sviði t.d. þróunaraðstoðar og sérstaklega á sviði aukinna framkvæmda vegna nýrrar vegáætlunar sem Alþingi samþykkti samhljóða á síðasta vori.

Er þingmaðurinn á móti þessum útgjöldum? Er hann á móti þeim framförum sem í þeim felast? Heldur hann að ríkisstjórnin muni ekki halda áfram að beita sér fyrir margháttuðum framförum þó að það kosti tímabundin útgjöld á ákveðnum sviðum á meðan hinum almenna rekstri er haldið niðri? Það væri gaman að fá svör við því. Er þingmaðurinn á móti þeim framförum sem felast í þessum útgjöldum?

Í öðru lagi út af viðskiptahallanum sem þingmaðurinn gerir hér ítrekað að umtalsefni og allt gott um það, en þingmaðurinn segir: ,,Það þarf að gera allt sem hægt er til þess að sporna gegn hallanum.``

Ég er út af fyrir sig alveg sammála því. En hvað er það nákvæmlega sem þingmaðurinn vill gera? Hvaða aðgerðir eru það sem ekki hefur verið gripið til sem hann vill grípa til? Hvernig á að vinna bug á þessum viðskiptahalla sem hann gerir hér ítrekað að umtalsefni umfram það sem ríkisstjórnin hefur þegar gert og er að gera? Getur þingmaðurinn ekki bara komið með matseðilinn og sagt okkur hvað það er sem við höfum ekki gert sem hann mundi vilja gera í þessu efni?