Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 12:09:42 (91)

2000-10-05 12:09:42# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[12:09]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til fyrstu umræðu frv. til fjárlaga fyrir árið 2001. Hæstv. fjmrh. hefur gert allítarlega grein fyrir helstu niðurstöðutölum frv. og þeim forsendum sem þær tölur byggja á og jafnframt rakið áform og markmið ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins fyrir næsta ár og nánustu framtíð.

Við búum við þá stöðu í efnahagsmálum að þensla er viðvarandi. Hér er mikil eftirspurn eftir fjármagni og þar af leiðandi mikil umframeftirspurn eftir vöru og þjónustu sem einungis er hægt að verða við með auknum innflutningi. Þjóðarframleiðslan og verðmæti í útflutningi vöru og þjónustu hafa ekki vaxið að sama skapi og verðmæti innflutningsins.

Á þessu ári er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn nemi 54 milljörðum kr. eða um 8% af landsframleiðslu og á næsta ári er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði um 57 milljarðar kr. eða áfram um 8% af landsframleiðslu. Til samanburðar má geta þess að í þjóðhagsáætlun eða þeim tölum sem fylgdu fjárlagafrv. fyrir þetta ár, það er í október í fyrra, var að mig minnir gert ráð fyrir liðlega 20 milljarða kr. viðskiptahalla, eða um 4% af landsframleiðslu og mundi svo haldast óbreytt næstu árin. Raunin hefur orðið allt önnur og þessi halli á viðskiptunum við útlönd, þessi tala hefur hækkað mánaðarlega síðan í áætlunum ríkisstjórnarinnar og er nú áætluð 54 millj. Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni áðan að enn meiri óvissu gæti nú um þessar stundir um efnahagshorfur en oft áður. Þá spyr maður sig: Hvers virði eru þær tölur sem hér eru settar fram?

Herra forseti. Árið er ekki liðið og samkvæmt reynslu frá síðasta hausti getum við átt von á að hallinn vaxi enn til áramóta. Vonandi er þó að þær tölulegu forsendur sem hér er lagt upp með séu öruggari nú en á síðasta ári. Hins vegar hlýtur að verða að gera athugasemdir við þau vinnubrögð og öryggi þeirra sem liggja að baki þegar munar milljörðum ef ekki tuga milljörðum á efnahagsforsendum í framlög við fjárlagafrv., fjárlögum og síðan niðurstöðu á útkomu ársins.

Herra forseti. Viðskiptahallinn kemur sér vel fyrir fjárhag íslenska ríkisins til skemmri tíma þar sem skattar og gjöld af auknum innflutningi skila auknum tekjum í ríkissjóð. Fyrir íslenska hagkerfið í heild er staðan nokkuð önnur. Hallann verður að fjármagna með erlendum lánum og á undanförnum árum hafa erlendar skuldir þjóðarinnar vaxið mjög hratt. Við þær horfur í hagvexti sem lagðar eru til grundvallar við þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar mætti viðskiptahallinn ekki nema meira en um 2,5% af landsframleiðslu til að erlendar skuldir þjóðarbúsins hækkuðu ekki sem hlutfall af landsframleiðslu. Nú er hins vegar búist við viðskiptahalla sem nemur 8% af landsframleiðslu og það fjórða árið í röð sem hallinn er yfir 6% miðað við sama mælikvarða og spáð er framhaldi á viðskiptahalla næstu ár.

Ég vil einnig benda á þá staðreynd að þrátt fyrir að heildarskuldir íslenska ríkisins hafi minnkað hafa erlendar skuldir ríkissjóðs nánast staðið í stað. Á síðasta ári minnkuðu til að mynda erlendar skuldir ríkisins nánast ekki neitt og á þessu ári er heldur ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum niðurgreiðslum á erlendum skuldum ríkissjóðs. Erlendur vaxtakostnaður er enn jafnfyrirferðarmikill í fjárlögum ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja: Hver er erlend skuldastaða ríkissjóðs í dag og hver var hún fyrir ári? Enn fremur vil ég spyrja: Hver er erlend skuldastaða ríkisfyrirtækja sem fá að taka fé að láni erlendis og hvernig hafa breytingar orðið á þeirri skuldastöðu við útlönd? Hvað hafa þessar skuldir verið greiddar mikið niður á þessu ári? Ég vil þá fá aðrar upplýsingar en ég hef ef þær liggja fyrir. Enn fremur væri fróðlegt að fá að heyra hver er erlend skuldastaða sveitarfélaga og þjóðarbúsins í heild og hvernig hefur hún breyst á þessu ári og því næsta á undan.

Ég ætla ekki að rekja hvað gerst getur ef haldið er áfram á þessari braut. Það ætti öllum að vera augljóst. Viðskiptahalli getur gengið um tíma í miklum hagvexti og uppbyggingu atvinnulífs sem síðar skilar auknum útflutningstekjum. En því er ekki nema takmarkað til að dreifa hér. Nú er því spáð að útflutningstekjur standi nánast í stað á næsta ári og hagvöxtur minnki niður í 1--2% en viðskiptahallinn standi aftur á móti eftir nær óbreyttur.

[12:15]

Við á Alþingi og fyrir hönd landsmanna allra hljótum að hafa verulegar áhyggjur af framvindu mála. Um leið og hægir á hagkerfinu mun fjármagnseftirspurn minnka. Við það gæti dregið úr fjármagnsflæði sem hingað til hefur fjármagnað viðskiptahallann og haldið gengi krónunnar uppi. Með öðrum orðum, herra forseti, um leið og þenslan hættir gæti viðskiptahallinn orðið að blýlóðum sem geta dregið hagkerfið niður.

Myndarlegur tekjuafgangur á ríkissjóði er ein leið til að bregðast við þessum vanda en hún mun ekki duga ein sér. Þá skiptir miklu máli fyrir jafnvægi í efnahagsmálum og aukningu hagvaxtar hvernig þessi tekjuafgangur er til kominn, hvar hann er innheimtur og hvernig tekjum ríkissjóðs er ráðstafað. Þar greinir okkur á í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Herra forseti. Við viljum sjá aðhald en við hefðum einnig viljað sjá fjárlagafrv. spegla vilja til jöfnunar í þjóðfélaginu sem drægi úr þenslu og hömlulausu neyslukapphlaupi og skuldasöfnun heimila og einstaklinga. Við hefðum viljað sjá myndarlega tekið á málum öryrkja og þeim tryggð eðlileg samfélagslaun. Við hefðum viljað að tekjur aldraðra hefðu fylgt tekjum annarra í þjóðfélaginu. Við hefðum viljað sjá betur staðið við bakið á barnafólki.

Herra forseti. Við hefðum viljað sjá almennar aðgerðir til að jafna búsetuskilyrði fólks, t.d. í gegnum skattkerfið með eflingu menntunar og að grunnnámið verði eflt og ungt fólk geti lengur stundað nám í heimabyggð sinni. Aukið almennt menntunarstig þjóðarinnar er ein forsenda vaxandi hagsældar og velferðar. En núna er þjóðinni mismunað, skipt í hópa eftir aðgengi að menntun.

Þetta er allt spurning um forgangsröðun verkefna, val um hvað skuli bíða eða mæta afgangi og hvernig tekjum ríkisins skuli varið. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hefðum einnig viljað sjá merki um að ríkisstjórnin hugi til framtíðar en ekki aðeins til næsta fjárlagaárs. Hægur vöxtur í útflutningi er akkillesarhæll íslenska hagkerfisins og er m.a. ástæðan fyrir því að viðskiptahallinn er eins mikill og raun ber vitni.

Það hefur verið ljóst um nokkurn tíma að sjávarútvegurinn getur ekki staðið undir allri þeirra lífskjarasókn sem þjóðin væntir og hefur tekið lán út á þó vafalaust megi þar sækja fram með breyttri fiskveiðistefnu sem tekur mið af sjálfbærri nýtingu auðlindanna og að byggðirnar meðfram ströndum landsins njóti forgangs við nýtingu auðlinda sjávar á grunnslóð og frekari fullvinnslu afla.

En ríkisstjórn Davíðs Oddssonar virðist veðja öllu sínu á stóriðju og virkjanir sem krefjast mikils fjármagns en skapa fá störf en munu lítið gera til þess að bæta fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Hér viljum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sjá algjöra áherslubreytingu. Við hefðum viljað sjá frv. og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar fela í sér hvatningu til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, ekki síst þeirra sem nýta innlendar auðlindir með sjálfbærum hætti. Nú eru það einmitt einstaklingar og litlu fyrirtækin sem greiða hæstu vextina, taka óhagkvæmustu lánin og standa undir arðkröfum bankanna. En einmitt í þessum fyrirtækjum og hjá þessum fjölbreytta atvinnurekstri, sem byggir á framtaki einstaklinganna, fjölskyldusamfélagsins og samtakamætti fólks, sækjum við hagvöxt og aukna framleiðslu og framleiðni vítt og breitt um landið. Stórrekstur og einhæfni henta ekki fyrir svo lítið land sem Ísland. Við þurfum fjölbreytni og nýsköpun.

Herra forseti. Ég hefði viljað sjá tillögu um lækkun raforkuverðs til þessara litlu fyrirtækja, til gróðurhúsabænda, til grænmetisframleiðenda svo að þau stæðu a.m.k. jafnfætis erlendum samkeppnisaðilum og erlendum atvinnufyrirtækjum hér á landi. Ég hefði viljað sjá stórátak í að koma þriggja fasa rafmagni til heimila og fyrirtækja vítt um landið.

Herra forseti. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sniðgengur þá miklu möguleika sem búa í íslensku atvinnulífi, íslenskum auðlindum, íslenskum einstaklingum og íslensku samfélagi. En það versta við þessi fjárlög er að þau segja aðeins hálfa sögu um stöðu hins opinbera. Á meðan ríkissjóður er rekinn með miklum tekjuafgangi berjast mörg sveitarfélög í bökkum og verja auknum hluta tekna sinna í rekstur til að standa undir þeim lögboðnu verkefnum sem Alþingi hefur falið þeim. Mörg sveitarfélög safna nú skuldum og verða að skera niður lögboðna þjónustu og geta ekki ráðist í eðlilegt viðhald og nýframkvæmdir. Með íþyngjandi lögum og reglugerðum ásamt skerðingu eða niðurfellingu tekjustofna hefur svigrúm sveitarfélaga til að sinna verkefnum sínum verið stórlega skert. Á tíu ára tímabili, frá 1990 til 2000, telur Samband ísl. sveitarfélaga samanlagðan viðbótarkostnað og tekjumissi vegna þessara aðgerða ríkisvaldsins vera 10--20 milljarða kr. og er þá ekki talinn með sá viðbótarkostnaður sem þau telja sig hafa orðið fyrir við yfirfærslu grunnskólans og að þeir mörkuðu tekjustofnar sem fylgdu yfirfærslunni hrökkvi ekki til.

Samkvæmt úttekt, sem Ólafur Darri Andrason vann fyrir Samband ísl. sveitarfélaga ,,Mat á kostnaði sveitarfélaga við yfirtöku grunnskólans 1. ágúst 1996 og kostnaðaráhrifum aðalnámskrár``, er áætlað að kostnaður sveitarfélaganna umfram tekjustofna frá ríkinu sé nú 700--800 millj. kr. ári.

Vert er að rifja upp að samkvæmt samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga var skipuð nefnd 4. mars 1996 sem skyldi gera úttekt á framkvæmd grunnskólalaganna í höndum sveitarfélaganna og endurmeta fjárþörf þeirra. Sú nefnd átti að skila áliti 1. ágúst sl. Ég spyr: Hverjar eru niðurstöður þeirrar nefndar?

Þann 6. júní 1999 skipaði félmrh. nefnd til að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga. Átti hún að skila af sér í júnímánuði sl. Af og til í sumar hafa birst yfirlýsingar um að nú sé hún alveg að fara að skila af sér og síðasta dagsetning sem nefnd var opinberlega var 2. október.

Herra forseti. Júní er liðinn og 2. október er liðinn og ekkert bólar á áliti nefndarinnar. Herra forseti, hvenær kemur álit nefndarinnar? Sveitarfélögin vítt og breitt um landið binda miklar vonir við störf nefndarinnar og að þau leiði til þess að tekjustofnar flytjist frá ríki til sveitarfélaga og að meiri jöfnuður komist á í þjónustugetu þessara opinberu aðila. Að vísu hefur forsrh. gefið yfirlýsingu um að álagning fasteignaskatts út á landi yrði leiðrétt til markaðsverðs eignanna og tæpt er á fólksfækkunarframlagi til þeirra sveitarfélaga sem verst hafa orðið úti í þeim efnum. Þær leiðréttingar, sem sér reyndar ekki stað í fjárlagafrv., standa utan við þær almennu kröfur sem sveitarfélögin gera á tekjujöfnun frá ríkinu.

Herra forseti. Fjárlagafrv. sem tekur engin mið af breyttri tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga eða tillit til bóta eða endurgreiðslna vegna lögboðinna verkefna sem þau hafa ekki tekjustofna fyrir er lítið nærri raunveruleikanum.

Ég mun svo koma inn á einstaka liði frv. í ræðu minni síðar í umræðunni.