Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 14:50:52 (121)

2000-10-05 14:50:52# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt í upphafi að taka undir með hæstv. fjmrh. og fagna þeim árangri sem náðst hefur undanfarin ár í ríkisfjármálum, m.a. með þeim góða árangri sem náðst hefur í afgangsskilum á fjárlögum. Nú þriðja árið í röð er stefnt að því að afgangur verði mikill og samanlagt sl. þrjú ár um 80 milljarðar.

Einnig eru áherslur hæstv. fjmrh. um það hvernig hann vill verja þeim afgangi fagnaðarefni, þ.e. að greiða skuldir, ýmist innlendar eða erlendar, allt eftir því hvernig staðan er í efnahagsmálunum, og tryggja ákveðnar framkvæmdir sem eru mjög til hagsbóta fyrir þjóðlífið og eins að styrkja íslenska upplýsingasamfélagið. Þetta eru allt hin jákvæðustu mál og það nálgast að hægt sé að taka undir með hæstv. fjmrh. að fjárlagafrv. sé aðhaldssamt en ekki afturhaldssamt, þó að á ýmsum sviðum sé það þó ekki aðhaldssamt heldur afturhaldssamt.

Það sem er þó meginvandinn við þetta fjárlagafrv. eins og þau flest sem hér hafa verið fram lögð á hinu háa Alþingi er hversu það stendur á ótraustum grunni. Því miður hefur það reynst svo að spár þjóðhagsáætlunar Þjóðhagsstofnunar, sem frv. byggir að stórum hluta á, hafa ekki reynst nægjanlega traustar. Örlítið dæmi hér í upphafi er um hagvaxtarspár, en það var um þetta leyti í fyrra, ef ég man rétt, að Þjóðhagsstofnun spáði því að hagvöxtur yrði 2,7% en nú er áætlað að hann verði á þessu ári um 3,6%. Nú spáir Þjóðhagsstofnun hins vegar að hagvöxtur á næsta ári verði 1,6% og ýmislegt bendir til að óvissan sé jafnvel enn meiri nú heldur en hún var í fyrra. Hæstv. fjmrh. taldi nokkuð víst t.d. að olíuverð hefði náð hámarki. Um þetta leyti í fyrra voru einnig færð rök fyrir því að væntanlega hefði olíuverð náð hámarki. Vonandi að það sé rétt, því það reyndist því miður ekki svo fyrir ári síðan.

Það eru fleiri óvissuþættir í efnahagsspánni og ég vil nefna nokkur dæmi til viðbótar vegna þess að því miður, eins og ég sagði áðan, hefur Þjóðhagsstofnun ekki náð því að spá nógu nákvæmlega um ýmsa þætti. Ég vil nefna hér nokkra.

Einkaneyslan. Því var spáð af Þjóðhagsstofnun í fyrra að hún mundi aukast um 3%. Nú er gert ráð fyrir að hún aukist um 4%. Enn nálgast Þjóðhagsstofnun fyrri spá sína og spáir nú fyrir árið 2001 að aukningin verði 2,6%.

Samneyslan. Það má segja svipað um hana, þ.e. Þjóðhagsstofnun spáði í fyrra að hún yrði á þessu ári 2,5%. Nú er gert ráð fyrir að hún verði 3,5%. Um næsta ár spáir Þjóðhagsstofnun að hún verði 3%.

Fjárfestingaspáin er þó enn meira fjarri lagi vegna þess að Þjóðhagsstofnun spáði að aukning fjárfestinga yrði 2,7%, en nú er gert ráð fyrir að hún verði 11,1%. En Þjóðhagsstofnun spáir fyrir næsta ár að hún muni dragast saman um 1,5%.

Útflutningurinn. Þar var einnig verulegur munur á spá og raunveruleika vegna þess að spáð var að útflutningur mundi aukast um 1,9%, en nú er gert ráð fyrir að hann muni aukast um 2,6%. Hins vegar spáir Þjóðhagsstofnun fyrir næsta ár að hann muni dragast saman um 0,9%.

Sama má segja um innflutninginn, því spáð var í fyrra að hann mundi aukast um 1,9% en raunveruleikinn eins og hann blasir við nú er 7%. Þrátt fyrir þetta spáir Þjóðhagsstofnun að hann muni dragast um 0,3% á næsta ári.

Þetta eru, herra forseti, örfá dæmi um að það ber að fara varlega með flestar þær tölur sem fram koma í fjárlagafrv. vegna þess að grunnur þess er ekki traustari en ég hef hér nefnt nokkur dæmi um.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson nefndi dæmi um þátt sem eykur enn á óvissu þessa frv., en það eru væntanlegir kjarasamningar opinberra starfsmanna. Það er eðlilegt eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. að það séu ekki inni ákveðnar tölur í frv. um það hvernig menn muni leysa þær deilur sem í uppsiglingu eru.

Þetta eykur enn á óvissuna og það er auðvitað eðlilegt að stórar tölur séu fram lagðar af þeim hópum ýmsum sem nú ganga til samninga af þeirri einföldu ástæðu að ríkisvaldið hefur gengið til samninga við ýmsa hópa ríkisstarfsmanna sem fengið hafa á undanförnum árum miklum mun meiri hækkanir heldur en þeir hópar sem nú ganga til samninga. Og við erum enn að sjá það í því frv. sem við fjöllum um nú í fjárln. að enn hefur verið að bætast í á þessu ári, þannig að það er augljóst að það er mikill vandi sem bíður manna hæstv. fjmrh. við það að ná viðunandi samningum við þessar stéttir. Þeir sem til þekkja vita auðvitað að meginrök yfirleitt í kjarasamningum eru viðmiðunartölur við svokallaðar viðmiðunarstéttir. En vonandi næst það markmið sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti svo vel og hann þekkir gjörla frá fyrri tíð, vegna þess að þeir samningar sem líklega hafa haft hvað mest áhrif á þann efnahagslega stöðugleika sem við höfum búið við um nokkurt skeið hafa verið nefndir hinir svokölluðu þjóðarsáttarsamningar. Á þeim grunni hafa menn byggt síðan og það verður aldrei fullþakkað þeim aðilum öllum sem að því stóðu.

Það er eitt atriði sem getið hefur verið um hér og verður aldrei of oft getið og menn sakna eðlilega í fjárlagafrv., en það eru auknar jöfnunaraðgerðir. Við hlýddum hér á verulegar umræður og horfðum á mótmælastöður utan þinghússins fyrir nokkrum dögum, sem minnir okkur að sjálfsögðu á þá hópa sem fyrst ætti að horfa til þegar verið er að auka jöfnunaraðgerðir. En því miður er ekkert á því tekið í þessu fjárlagafrv.

Byggðamál hafa einnig verið nokkuð til umræðu og ég vil nota tækifærið og fagna orðum hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur og hv. þm. Jóns Kristjánssonar um að það sé hlutverk okkar sem í fjárln. sitjum að lesa saman þá áætlun sem fyrir er í byggðamálum og fjárlagafrv. Það er full ástæða til þess vegna þess að samkvæmt þjóðhagsáætlun sem fyrir er lögð virðist ekkert benda til þess að breyting sé að verða á þeirri óheillaþróun sem staðið hefur allt of lengi.

Með leyfi forseta stendur hér í þjóðhagsáætlun:

,,Á næsta ári má búast við því að áfram fjölgi á höfuðborgarsvæðinu vegna aðflutnings fólks af landsbyggðinni enda þótt örðugt sé að segja til um hversu miklir flutningar verða.``

Það segir einnig, með leyfi forseta:

,,Ef litið er til landsbyggðarinnar utan nærsvæða höfuðborgarinnar hefur íbúum fækkað um 1% á ári frá 1994 og samtals um nær 6.000 manns.``

Ég held að sé mikilvægt að við förum einmitt að horfa til þess að við þurfum að skilgreina upp á nýtt þau svæði sem við erum að horfa til í þessu. Í þessum orðum þjóðhagsáætlunar kemur einmitt í ljós að það er örlítill munur á nærsveitum höfuðborgarsvæðisins, vegna þess að höfuðborgarsvæðið hefur í raun og veru verið að stækka á undanförnum árum.

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram og með réttu að það er ekki allur afgangur fjárlaga myndaður af viðskiptahalla, það er vissulega margt fleira sem þar kemur við sögu. Ýmsir hafa m.a. nefnt sveitarfélögin, menn hafa nefnt að persónuafsláttur hafi ekki fylgt verðlagsþróuninni.

Sveitarfélögin eru sérstakur kapítuli og hann skiptir verulegu máli vegna þess að bæði hefur hæstv. forsrh. og nú síðast hæstv. fjmrh. gefið það í skyn að það eigi ekkert meira að gera í málefnum sveitarfélaganna heldur en það sem gert var í fyrra, þ.e. að eingöngu verði sett ein upphæð, sem var um 700 millj. í fyrra, til sveitarfélaganna til þess að mæta hinum svokallaða fólksfækkunarvanda. Það er hins vegar miklu meiri vandi sem steðjar að sveitarfélögunum heldur en eingöngu það sem tengist fólksfækkuninni.

Það er ljóst að lögin um tekjustofna sveitarfélaga eru orðin gömul, þau eru orðin tíu ára gömul og vissulega hefur mjög margt breyst á þeim tíma. M.a. hafa ýmsar lagasetningar hér á Alþingi haft það í för með sér að tekjur sveitarfélaga hafa minnkað. Ég nefni nokkur dæmi, þ.e. um skattfrelsi lífeyrissjóðsgreiðslna, þ.e. um hlutabréfakaup. Og fjármagnstekjuskatturinn hefur komið inn sem einnig hefur orsakað minni tekjur sveitarfélaga.

Umhverfis- og félagsmál hafa að sjálfsögðu gjörbreyst á þessum árum. Eitt dæmið er stofnkostnaður fráveitna sem hefur að sjálfsögðu kostað sveitarfélögin stórfé. Félagsþjónustulög, sem eru frá því um 1990, um svipað leyti og tekjustofnalögin, hafa að sjálfsögðu einnig stóraukið útgjöld sveitarfélaganna af ýmsum ástæðum. Íþrótta- og tómstundamál hafa að sjálfsögðu einnig vaxið mjög á þessum tíma þannig að það er að ýmsu að hyggja. En að auki liggja nú fyrir eða eiga að liggja fyrir á næstu dögum úttektir m.a. á því hvernig til hefur tekist með flutning grunnskólans til sveitarfélaganna en þar m.a. hefur kostnaður stóraukist þó ekki væri nema vegna þess að sett hefur verið ný námskrá fyrir grunnskólana sem sveitarfélögin þurfa að sjálfsögðu að standa kostnað af.

Síðan má ekki gleyma því, og þar ber ríkisvaldið að sjálfsögðu verulega ábyrgð, að um 70% af útgjöldum sveitarfélaganna tengjast beint launagreiðslum og það er auðvitað öllum ljóst að launagreiðslur sveitarfélaga taka mið af launastefnu ríkisins þannig að ríkið ber þar af leiðandi mikla ábyrgð á því hvernig hlutur launa í útlátum sveitarfélaga hefur stöðugt aukist.