Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 15:01:27 (122)

2000-10-05 15:01:27# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það frv. sem hér er lagt fram og er til umræðu er, eins og hér hefur margoft komið fram hjá fjmrh., tímamótafrumvarp með stórkostlega miklum tekjuafgangi, tekjuafgangi sem menn eru að tala um nú í góðærinu og er að skila sér hér til ríkissjóðs en tekjuafgangi sem er líka að skila sér vegna þess að ríkið hefur lagt auknar álögur á aðra og fengið til sín þá peninga en eftir situr hinn aðilinn þá og safnar skuldum eða er með skerta þjónustu. Einn af þeim aðilum eru sveitarfélögin í landinu sem bera sig illa, sama hverjir stjórna þeim, sama hvort þeim er stjórnað af sjálfstæðismönnum eða öðrum, og harma hlutinn sinn og harma það hvernig ríkisvaldið, stóri bróðir, kemur fram við sveitarfélögin. Það er því ekki að ástæðulausu sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur gert um þetta mikla skýrslu, farið í gegnum þessi atriði einmitt og í tilefni af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars 1997 um lækkun útsvars sveitarfélaga jafnhliða skattalækkunum ríkisins í tengslum við gerð kjarasamninga.

Sá hópur sem unnið hefur að þessu fyrir Samband ísl. sveitarfélaga kemst að þeirri niðurstöðu að álögur ríkisins á sveitarfélög í formi skerðingar tekna, tímabundinnar þátttöku þeirra í rekstri ríkissjóðs, beinna skattlagninga og strangari reglna sem sveitarfélög þurfa að framfylgja hafi verið gríðarlega miklar. Og hópurinn hefur komist að því að miðað við þessar upplýsingar og forsendur sem stuðst hefur verið við megi álykta að þær aðgerðir ríkisvaldsins sem hægt er að meta beint hafi skert fjárhag sveitarfélaga um samtals 14--15 milljarða kr. á tímabilinu, eða í kringum 1,8--1,9 milljarða á ári að meðaltali. Þetta eru vissulega mjög háar tölur. Síðan eru sveitarfélögin allt að því hundskömmuð af hæstv. forsrh. fyrir að kunna ekki að fara með sitt fé, fyrir bruðl og annað slíkt, og þau hafi hreinlega ekkert með auknar tekjur að gera heldur þurfi bara að taka til í sínum rekstri.

Ég var sveitarstjórnarmaður hluta af þessu tímabili og ég mótmæli því harðlega að það sé algeng regla að sveitarstjórnir kunni ekki að fara með fjárhag og gæti ekki aðhalds og að sveitarstjórnir hafi ekki þurft að skera niður sinn rekstur, þjónustu við íbúana, m.a. vegna þess að stóri bróðir, ríkissjóður, var sífellt að krukka í tekjustofna þeirra og hirða til sín m.a.s. sumt af þeirra tekjum. Enda hefur komið fram, eins og stóð í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. sem var með frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996, og það er að mörgu leyti mjög táknrænt dæmi um afstöðu ríkisvaldsins í þessu efni undanfarin ár en þar sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Þau nýmæli eru í frumvarpi þessu frá fyrri lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum að flest skerðingarákvæði sem endurtekin hafa verið árum saman eru nú sett fram í varanlegu formi.``

Það er einmitt í þessum efnum þar sem mikið hefur verið skert og við getum tekið ýmsa kafla úr þessari skýrslu þar sem fram kemur, eins og ég sagði áðan, að á verðlagi ársins 1997 séu þarna tæpir 15 milljarðar kr., það kemur fram t.d. varðandi virðisaukaskattinn að þar séu bara um 5 þúsund millj. kr. Ef við förum í atriði eins og fjárfestingu einstaklinga í atvinnurekstri þá kemur fram að það séu tæpar 800 milljónir sem hafa bitnað á sveitarfélögunum vegna þessa. Það eru rúmar 800 milljónir á verðlagi 1997.

Í sambandi við skattfrelsi lífeyrisiðgjalda hafa útsvarstekjur sveitarfélaga verið skertar mjög mikið. Þar áætla sveitarfélögin að skattfrelsi lífeyrisgreiðslna kosti sveitarfélögin um tæpar 1.900 millj. kr. á árunum 1995--1997 og um einn milljarð kr. árlega eftir það miðað við meðal útsvarsprósentu 1997 og það verðlag sem þá var.

Svona má lengi telja upp úr þessari skýrslu. Það má halda áfram og fara í fjármagnstekjuskattinn þar sem talið er að á þessum tíma sé hann farinn að íþyngja sveitarfélögunum um tæpar 500 millj. kr. Það kemur t.d. fram í því að sveitarfélögunum er gert skylt að greiða fjármagnstekjuskatt af vöxtum, arði og söluhagnaði hlutabréfa en sveitarfélögin höfðu fram til þess ekki þurft að greiða skatta af slíkum tekjum. Þetta hefur töluvert íþyngjandi áhrif á sveitarfélög.

Skerðing á útsvarsstofni sveitarfélaganna samkvæmt þessum fjármagnstekjuskatti var við mælingu árið 1997 tæpar 160 millj. kr. þannig að það má áfram og endalaust telja hér upp skatta, álögur og ýmislegt annað sem ríkissjóður hefur sótt til sveitarfélaganna, skert getu þeirra til að sinna sinni þjónustu en það er hluti af hinum mikla tekjuafgangi ríkissjóðs í dag sem ríkisstjórnarflokkarnir með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar eru að guma sér af. Og ég sagði: Það er sannarlega þannig að það er tekið úr vösum skattborgaranna, fært til ríkissjóðs í meira mæli en oft hefur verið áður, og það allra versta er náttúrlega hvernig farið er með sveitarfélögin. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. fjmrh. út í það hvað áætlað sé að gera í þessum efnum vegna þess að í mínum huga er það engin ráðstöfun og engar endurbætur að koma með á síðustu dögum áður en við afgreiðum fjárlög einhverja dúsu upp á 750 millj. kr. líkt og gert var síðast, og láta jöfnunarsjóð skipta því til þeirra sveitarfélaga sem hafa misst flest fólk, það er ekkert upp í það sem ríkissjóður hefur tekið frá sveitarfélögunum.

Herra forseti. Hér hefur líka verið minnst á það að atvinnuleysi sé nær ekkert. Ég hef áður sagt það að atvinnuleysi megi mæla í tveimur mismunandi afbrigðum. Atvinnuleysið er í dag um 1% eða þar um bil. Það má líka taka búferlaflutningana inn í það. Og það að atvinnuleysi hafi minnkað á landinu er m.a. vegna þeirra ofboðslegu flutninga sem hafa átt sér stað frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega sl. tíu ár, sem eru um 12.500 manns. Þetta er hluti af atvinnuleysiskráningunni.

Rétt í lokin vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. út í eitt atriði. Hér hefur verið vitnað í byggðaáætlun og mikið rætt um byggðamál, og einn af þeim þáttum sem full samstaða var um í byggðanefnd forsrh. var að stórauka niðurgreiðslur á rafhitun eða húshitun, eins og ég vil nú frekar kalla það. Ég get ekki séð að í þessu fjárlagafrv. sé staðið við þau loforð sem þar voru um að stíga annað skrefið af þremur jafnstórum til þess að auka þann þátt þannig að þeir íbúar, sérstaklega á landsbyggðinni, sem búa við mjög dýra húshitun færu í svokallaðan meðaltalskostnað úr 120--130 þús. kr. niður í 60 þús. kr. Ég sé ekki í frv. að svo sé. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. út í það hverju það sætir, hvort ekki eigi að standa við þau loforð sem þar voru gefin um að þetta næsta skref verði stigið í þessum efnum.