Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 15:30:11 (129)

2000-10-05 15:30:11# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. fjmrh. sýni það í ræðustól að hann hefur verulegan skilning á vegaframkvæmdum í Reykjavík. Engin furða, hann er þingmaður Reykvíkinga, og hann á að hafa verulegar áhyggjur af umferðarástandinu eins og allir þingmenn. Ég geri því ráð fyrir því að stuðningur hans sé vís ef á að fara að skera verulega niður í vegaframkvæmdum og sá niðurskurður eigi að beinast sérstaklega að höfuðborgarsvæðinu.

Varðandi fíkniefnamálin og að ákveðnum verkefnum sé lokið sem þessi fjárhæð var ætluð til, sem mig minnir að hafi verið 30--40 millj., þetta var ekki stærra, þá sé ég ekki sparnaðinn í því að taka út þessar 10 millj. í stað þess að láta þær standa áfram til aðgerða og átaks í fíkniefnamálum. Ég held að margt sé ógert á því sviði og ég minni á loforð framsóknarmanna í því efni fyrir kosningar þar sem átti að setja milljarð til átaks í fíkniefnamálum á kjörtímabilinu. Það þarf eiginlega að fara að setja þann reikning upp, hvernig hann lítur út núna þegar vel fjórðungur af kjörtímabilinu er búinn.

Af því að ég hafði ekki tíma til þess áðan að fara út í það þá vil ég nota þetta andsvar til að spyrja hæstv. ráðherra um það sem ég komst ekki inn á, sem eru barnabæturnar sem á að auka á þessum fjárlögum um 600 millj., sem er mjög vel, en mér heyrist á hæstv. fjmrh. og þeirri lýsingu sem fram kemur í fjárlagafrv. að fallið hafi verið frá því að taka upp barnakortin, en mest af þessum fjármunum eigi að fara til þess að afnema eignatenginguna á barnabótakerfinu. ASÍ hefur í ályktun, sem það hefur sent frá sér, litið svo á að það kæmi þá til viðbótar ef það á að afnema eignatenginguna á þessum 600 millj. sem eru á fjárlögum.