Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 16:00:00 (140)

2000-10-05 16:00:00# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að fylgjast með því hvernig hv. þm. Kristján Pálsson leikur sér að Framsfl. Hann sagði áðan að það að vilja selja Landssímann án þess að láta dreifikerfið fylgja með væri eins og að selja vélarlausan bíl. Nú vitum við það að þetta er það sem Framsfl. vill. Er þá hv. þm. að halda því fram að Framsfl. vilji pranga inn á þjóðina vélarlausum bíl? Það er í rauninni það sem hv. þm. var að segja.

Að öðru leyti get ég ekki fallist á að fullkomlega eðlilegar samningaviðræður séu milli flokkanna um hvernig eigi að einkavæða og hvað eigi að einkavæða. Er það eðlilegt, herra forseti, að þær samningaviðræður fari fram í gegnum ræðustól Alþingis? Er eðlilegt að lagt sé fram fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir miklum tekjum vegna sölu eigna þegar fyrir liggur að ekki er samkomulag um það milli flokkanna tveggja hvað á að selja?

Hvað er það sem hér er undir, herra forseti? Það er sala á bönkunum. Samfylkingin hefur ekki lagst gegn því. Samfylkingin hefur lagst gegn því hvernig fyrsti hluti einkavæðingarinnar var framkvæmdur.

Ástæðan fyrir því að ekki liggja fyrir neinar tillögur t.d. í fjárlagafrv. um hvort eða hvernig eigi að selja bankana er eftirfarandi: Sjálfstfl. vill að bönkunum sé rennt saman í einn stóran banka áður en hann er seldur. Framsfl. er á móti því. Það er ágreiningur um málið, það ríkir kyrrstaða í málinu. Ríkisstjórnin kemst ekki úr sporunum í þessu máli. Sjálfstfl. vill selja allan Landssímann. Framsfl. vill bara selja tiltekinn hluta af honum.

Herra forseti. Málið kemur hálfbakað inn í þing. Enginn veit hver niðurstaðan verður. Það er bara sagt: Við ætlum að afla tiltekinna tekna, en það er ekki sagt hvernig.

Samningaviðræður? Eru þær í gangi? Ég veit ekki um það. Þær hafa kannski verið í gangi milli hv. þm. Kristjáns Pálssonar og einstöku þingmanna Framsfl. sem hér hafa talað. En þetta sýnir að ríkisstjórnin nær ekki niðurstöðu, ágreiningurinn þar er orðinn svo mikill um mál eins og þetta, og þetta kalla ég stórmál, að það er farið að torvelda framgang fjárlaga á Íslandi.