Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 16:02:09 (141)

2000-10-05 16:02:09# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[16:02]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að áhyggjur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar af samningaviðræðum ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli séu óþarfar. Það er skýrt tekið fram í samningum flokkanna, t.d. um sölu eigna, að sala ríkisbankanna verði á næsta ári samkvæmt ákveðnum hugmyndum sem hafa komið fram frá einkavæðingarnefnd og ríkisstjórninni.

Að öðru leyti hefur ekki neitt verið ákveðið um sölu Landsbankans en það hefur margoft komið fram vilji frá báðum flokkum um að nauðsynlegt sé að finna leiðir til að hægt sé að selja Símann. Þar verður að sjálfsögðu að nást samkomulag sem gæti ríkt víðtæk sátt um meðal þjóðarinnar og þess vegna er engin ástæða til að vera með einhverja tortryggni í ræðustól Alþingis á að það sé ekki þegar fyrirliggjandi hvernig að því verði staðið.

Ég held því að þegar á allt er litið sé málið í mjög eðlilegum farvegi. Ef menn horfa á reynsluna að þessu leyti þá hefur flokkunum tekist mjög farsællega að ná niðurstöðu í þau mál sem einhver ágreiningur hefur orðið um á undanförnum árum.