Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 16:26:35 (145)

2000-10-05 16:26:35# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[16:26]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Einhver misskilningur hefur slæðst inn þar sem mig rekur ekki minni til að hafa sagt að framlög í jöfnunarsjóð eigi að leysa tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þau gera það vissulega ekki. En þau koma til móts við vandamál sem uppi er. Ég sé ekki fram á það að jöfnunarsjóðurinn í tekjuöflunarkerfi og tekjukerfi sveitarfélaga verði óþarfur á næstunni. Aðstaða sveitarfélaganna og stærð er svo misjöfn enn þá. Vissulega væri gott ef svo yrði. En ég er ekki svo bjartsýnn að ætla það. En ég kannast ekki við að hafa haldið því fram að framlög í jöfnunarsjóð leysi öll þessi mál og ég er sammála því að auðvitað gerir það það ekki. En þýðing jöfnunarsjóðsins er mikil.

Hitt er svo annað mál, og mætti halda um það langar ræður og við getum tekið um það langa umræðu, hvort þær reglur sem jöfnunarsjóður notar til útgreiðslu og hvort takmörk um þjónustuframlög og fólksfækkunarframlög séu eðlileg. Það er hægt að taka langa umræðu um það en ég hygg að við þurfum á jöfnunarsjóðnum að halda til þess að mæta þessum aðstæðum í sveitarfélögunum. Því er nú verr og miður þá kemur þetta tekjuöflunardæmi sem ég nefndi áðan ákaflega misjafnlega niður. Tekjuaukningin af útsvarinu, hlutur sveitarfélaganna í góðærinu kemur misjafnlega niður.