Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:19:00 (159)

2000-10-05 17:19:00# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:19]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla að beina spurningum til hæstv. fjmrh. og óska eftir að hann sé viðstaddur. --- Hann gengur hér í salinn, hann er ekki langt undan.

Í fjárlagafrv. á bls. 489 segir um Íbúðalánasjóð eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Í bráðabirgðaákvæði nr. IX í lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, er heimilt til ársloka 2000 að veita lán til leiguíbúða með óbreyttum lánskjörum. Þar sem heimildin fellur niður um næstkomandi áramót er ekki gert ráð fyrir framlögum til að niðurgreiða þessi lán. Í samræmi við lög nr. 44/1998, um húsnæðismál, er því gert ráð fyrir að útlánsvextir taki mið af almennum lánskjörum frá upphafi árs 2001.``

Þetta var gagnrýnt og var mjög til umræðu þegar nýju húsnæðislögin voru afgreidd á Alþingi árið 1998. Þá höfðu ýmsir aðilar sem hafa húsnæðismálin á sinni könnu fyrir hönd sinna skjólstæðinga, Öryrkjabandalagið, Sjálfsbjörg og námsmannasamtök, svo dæmi séu tekin, áhyggjur af því hvert stefndi, hvort ríkisstjórninni væri virkilega alvara að fara með alla vexti inn á markað, keyra þá upp í markaðsvexti. Hæstv. félmrh. kvað svo ekki vera, vísaði jafnan til þessa bráðabirgðaákvæðis og sagði að tíminn fram til ársloka árið 2000 yrði notaður til að komast að samkomulagi um framhaldið.

Samkvæmt fjárlagafrv. er niðurstaðan skýr. Það á að fara með þessa vexti á markað. Þessir vextir hafa verið lágir miðað við það sem gerist á markaði. Á sínum tíma voru félagslegir vextir 1% og enn eru til lánaflokkar sem eru á þeim kjörum. Önnur lán eru hærri, bera 3,9% vexti, en vextir á markaði eins og menn þekkja eru mun hærri. Húsbréfavextir eru rúmlega 5%, 5,1% þótt það segi ekki alla söguna um kjörin á húsbréfunum vegna affallanna. En samkvæmt fjárlagafrv. liggur fyrir að hæstv. fjmrh. vill keyra þessa vexti upp í það sem gerist á markaði.

Hæstv. félmrh. var spurður álits á þessu efni við umræðuna hér fyrr í dag, það gerði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Félmrh. hæstv. sagði að um þetta hefði ekki náðst samkomulag og spurningin er: Við hvern? Við fjmrh.? Fjmrh. virðist hins vegar ekki á þeim buxunum að gera neitt samkomulag. Í þeim kafla sem hann lætur frá sér fara um ráðuneyti hæstv. félmrh. segir m.a. á bls. 407, með leyfi forseta, þar sem fjallað er um húsnæðismálin:

,,Loks er 50 millj. kr. fjárveiting á lið 205 Leiguíbúðir til húsaleigubóta eða til stofnkostnaðarstyrkja. Niður fellur af sama lið 100 millj. kr. tímabundin fjárveiting samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál um niðurgreiðslu vaxta til leiguíbúða fram til ársloka 2000.``

Hér er talað alveg skýrt. Hæstv. fjmrh. hefur ákveðið að þessir vextir verði markaðsvextir og í stað þess á að koma til eins konar styrkjakerfi. Eins og ég nefndi hér þá fellur niður 100 millj. kr. tímabundin fjárveiting sem ætluð var til að niðurgreiða þessa vexti. Hér virðist því á ferðinni mjög djúpstæður ágreiningur á milli hæstv. félmrh. annars vegar og hæstv. fjmrh. hins vegar. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir þessum áreiningi sem greinilega er kominn upp innan ríkisstjórnarinnar um hvernig eigi að taka á leiguíbúðum sem ýmis félagasamtök hafa á sinni hendi.

Það er margt harla kyndugt í fjárlagafrv. en undarlegast þótti mér sannast sagna að lesa um framlagið til áfengis- og fíkniefnamála í ljósi alls þess sem sagt hefur verið um það efni. Reyndar er framlag til löggæslumála aukið lítið eitt, harla lítið þó með hliðsjón af yfirlýsingum sem gefnar hafa verið um það efni. En um áfengis- og fíkniefnamálin segir á bls. 389, með leyfi forseta:

,,Fjárveiting liðarins lækkar um 10 millj. kr. þar sem fellt er niður tímabundið framlag í gildandi fjárlögum sem ætlað var til að bæta og auka við búnað til fíkniefnarannsókna hjá lögregluembættum.``

Þetta hefur vakið mikla furðu hjá lögreglumönnum og Landssamband lögreglumanna hefur sent alþingismönnum erindi þar sem þessu er harðlega mótmælt. Þar segir, með leyfi forseta, í bréfi sem er undirritað af formanni Landssambands lögreglumanna, Jónasi Magnússyni:

,,Framkvæmdastjórn Landssambands lögreglumanna lýsir undrun sinni á þeim fjárveitingum til öryggis- og löggæslumála sem gert er ráð fyrir í frv. til fjárlaga ársins 2001.

Stjórnvöld hafa undanfarin ár sett fram háleit markmið um stórfellda fækkun alvarlegra umferðarslysa, vímuefnalaust land og fækkun afbrota. Þau markmið verða innihaldslaus orðaleikur sé starfsemi lögreglunnar lömuð vegna fjárskorts.

Fjárframlög til öryggis- og löggæslumála hafa undanfarið ekki endurspeglað að hugur fylgi máli. Í frv. til fjárlaga ársins 2001 stefnir í enn frekari niðurskurð löggæslu. Á sama tíma fjölgar alvarlegum umferðarslysum, afbrotatíðni eykst og umfang fíkniefnamála stækkar. Lögregluembættum um land allt er gert að ná fram umtalsverðum sparnaði í rekstri, sparnaði sem leiðir það eitt af sér að lögreglan verður að forgangsraða verkefnum. Staðreyndir tala sínu máli.

Samdráttur löggæslunnar og minnkandi vinnuframlag hefur leitt til þess að skortur er á faglærðum lögreglumönnum enda bjóðast betri kjör á almennum vinnumarkaði. Veruleg hætta er á að þeim fækki enn frekar gangi þau markmið eftir sem nú blasa við í fjárlagafrumvarpinu. Löggæsla er viðfangsefni sem krefst kunnáttu og faglegra vinnubragða.

Það er ein af frumskyldum ríkisvaldsins að halda uppi lögum og reglu í þjóðfélaginu og tryggja með markvissum hætti öryggi samborgaranna. Löggæsla er einn hornsteina lýðræðisþjóðfélags. Háleit markmið og efndir þurfa að fara saman.

Framkvæmdastjórnin skorar á háttvirta alþingismenn að taka fjárframlög til þessa málaflokks til rækilegrar endurskoðunar, fylgi hugur máli.``

Mér þótti ástæða til þess að gera Alþingi grein fyrir þessum hugleiðingum frá Landssambandi lögreglumanna og eindregnum mótmælum við fjárlagafrv.

Í fjárlagafrv. eru ekki aðeins settar fram ýmsar hagstærðir og fyrirhugað framlag til aðskiljanlegra málaflokka heldur er það jafnframt eins konar stefnuyfirlýsing. Þess vegna reynir maður jafnan að lesa á milli línanna um hvert skuli stefna í ríkisrekstrinum og skipulagningu hans. Það er ljóst að ríkisstjórnin ætlar að ganga lengra á þeirri braut sem hún hefur gengið undanfarin ár í að auka margvíslegar sértekjur og notendagjöld. Þannig kemur fram á bls. 310 í fjárlagafrv. að sértekjur ríkisstofnana eru nú áætlaðar 11 milljarðar kr. en voru 10 milljarðar kr. í fjárlögum árið 2000. En þar með er ekki öll sagan sögð vegna þess að innritunargjöld háskóla og framhaldsskóla eru nú flokkuð sem ríkistekjur en ekki sértekjur og við það lækka sértekjur um 224 millj. kr. Við erum því ekki að tala um einn milljarð til viðbótar í sértekjur heldur um 1.200 millj. kr.

Tími minn er útrunninn. Ég mun ræða þessi mál frekar við síðari umræður fjárlaganna.