Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:01:06 (168)

2000-10-05 18:01:06# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:01]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo að um ellilífeyri og örorkubætur gilda aðrar reglur því að í lögum um það segir, og er búið að vera í þrjú eða fjögur ár, að ellilífeyrir og örorkubætur skulu fylgja annaðhvort neysluvísitölu eða launavísitölu eftir því hvor er hærri.

Þetta var hið stóra skref sem stigið var hér fyrir nokkrum árum til þess að tryggja kjör aldraðra og öryrkja. Áður hafði þetta alltaf gengið þannig fyrir sig að ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar fylgdu sveiflunni upp og niður. Þegar við urðum fyrir tekjuskerðingu þá varð skerðing á tekjum, á afkomu og kaupmætti ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega eins og hjá öðrum. Þetta var afnumið með lögum fyrir þremur árum.

En verði þjóðfélagið fyrir tekjurýrnun þannig að allur almenningur þurfi að bera tekjurýrnun þá eru ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar undanþegnir því. Þetta var stórkostlegt skref og mér er ekki kunnugt um að nokkurt velferðarríki annað en Ísland hafi tekið þetta inn í löggjöf sína.

Í dag stendur málið þannig að áhöld eru um hvort það eru 0,2% eða 0,4% sem vanti upp á að þeir fylgi nú almennri launahækkun og launavísitölunni. Vegna þeirrar kröfu hefur ríkisstjórnin ákveðið að við næstu launahækkun í landinu, sem verður um áramótin þegar almenn laun hækka um 3%, skuli laun ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega hækka um 4% til að taka af allan vafa. Þetta er sannleikurinn.