Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:21:09 (174)

2000-10-05 18:21:09# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:21]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú skildi ég hæstv. fjmrh. mun betur. Ég sé að við erum sammála um að fjárlögin, fjárlagafrv. og hvernig ríkissjóður er rekinn skiptir mjög miklu máli fyrir það efnahagsumhverfi fyrirtækja. Við erum þannig sammála um það en við erum þá líka sammála um að fyrstu mælanlegu viðbrögð við þessu eru neikvæð. Hvort það er hinn endanlegi dómur verður ekkert um sagt en fyrstu mælanlegu viðbrögð markaðarins við því fjárlagafrv. sem menn hafa hér í dag keppst við að hæla eru neikvæð. Það er hinn mikli veruleiki og kannski vísbending um að menn hafi ekki trú á því sem ríkisstjórnin er að gera. Kannski er það vísbending um að hinn almenni rammi sem ríkisstjórnin er að setja til þess að viðhalda stöðugleikanum sé þess eðlis að markaðurinn hafi ekki trú á honum. En það á eftir að koma í ljós.