Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 15:09:20 (190)

2000-10-09 15:09:20# 126. lþ. 5.1 fundur 28#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég held að það hafi verið mjög þýðingarmikil ákvarðanataka í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og marktæk og athyglisverð einmitt fyrir þær sakir að Bandaríkjastjórn sat hjá við þessa afgreiðslu, öfugt við það sem oftast nær gerist varðandi málefni á þessu svæði þar sem Bandaríkjastjórn hefur yfirleitt við sambærileg tilvik greitt atkvæði gegn ályktunum sem beinast gegn Ísrael. Þannig hygg ég að það sé mál manna að í þessum viðkvæmu deilum og erfiðu hafi Ísrael farið offari.

Út af fyrir sig er svo sem ekkert létt að dæma um atvikin en það er alveg hárrétt hjá málshefjanda og fyrirspyrjanda að þessi ótímabæra heimsókn Sharons á hina helgu staði, sem reyndar eru helgistaðir allra deiluaðila, var kveikjan að bálinu sem þarna hefur orðið. Það er ekki bara vegna þess að háttsettur Ísraeli kaus að fara þessa ferð heldur vegna þess að af sögulegum ástæðum er Sharon sá maður sem Palestínumenn hefðu síst kosið að sjá við þessar aðstæður. Ég tel að sá maður eigi mikla sök. Og það kom einnig fram á fundum okkar með utanríkisráðherra Bandaríkjanna á sínum tíma, sem fór héðan til þess að reyna að miðla málum í þessum efnum.

Ísland mun fyrir sitt leyti leggjast á sveif með þeim sem vilja, eins og Ísland hefur gert, stuðla að friði á þessu svæði. Íslendingar hafa ekki eingöngu lagt Ísraelum lið heldur hafa Íslendingar undir forustu utanrrh. ekki síður reynt að stuðla að uppbyggingu hjá Palestínumönnum og styrkja stöðu þeirra.