Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:26:54 (225)

2000-10-09 16:26:54# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:26]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru mjög merkilegar upplýsingar sem komu fram í ræðu hæstv. ráðherra. Það lá sem sé fyrir á sínum tíma að mikill vilji hæstv. ríkisstjórnar var til þess að tryggja greiða eignaraðild að þeim hlut sem ríkisstjórnin seldi þá í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, mikill vilji. Nú kemur í ljós að hæstv. viðskrh. er að afla upplýsinga um málið og ítrekar áhuga sinn þó að vísu sé búið að selja án þess að tryggja dreifða eignaraðild. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. viðskrh., miðað við þessar merkilegu upplýsingar, um þá vinnu sem fram fer í ráðuneytinu núna þar sem menn velta vöngum yfir hvernig og hvort, hvort menn megi þá treysta því að það verði ekkert selt frekar, hvorki af hluta ríkisins í bönkum né í öðrum þeim ríkisstofnunum þar sem áhugavert er að tryggja dreifða eignaraðild, að ekki verði um frekari sölu að ræða fyrr en niðurstaða er fengin í ríkisstjórninni um hvernig tryggja eigi að umrædd dreifð eignaraðild varðveitist. Má ganga út frá því sem gefnu að ekki verði um að ræða fleiri slíkar sölur fyrr en hæstv. ráðherra er hætt að velta vöngum og komin að niðurstöðu og búin að tryggja það að fram gangi sá vilji ríkisstjórnarinnar sem ekki gekk fram í sölunni á FBA?