Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 14:25:45 (267)

2000-10-10 14:25:45# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér létti stórum við að heyra þetta því mér er enn í fersku minni að hér var einu sinni stjórnmálaafl sem krafðist þess að Íslendingar segðu upp bæði herverndarsamningnum og aðildarsamningnum að NATO en þegar þessir aðilar komust í ríkisstjórn létu þeir kyrrt liggja. Það er mjög gott að vita af því að menn í vinstri grænum munu una samningnum um EES og EFTA ef þeir fá aðild að ríkisstjórn þar til fyrir liggur að hægt sé að ná í staðinn tvíhliða samningum við öll þessi ríki, þ.e. munu ekki hnika þeim samningum fyrr en önnur niðurstaða gæti legið fyrir.

Nú geta menn auðvitað, herra forseti, getið sér til um hversu auðvelt yrði að ná tvíhliða samningum við aðildarríki EFTA og EES á meðan samningurinn stendur enn þá. En það léttir að sjálfsögðu yfir mér að heyra að vinstri grænir munu una því að þessir samningar standi áfram nema annar betri kostur gefist og er það merkilegt að menn skuli flytja fram jafnákveðna stefnu og í þáltill. felst um stefnubreytingu en jafnframt segja það nánast úr þessum ræðustól að þeir muni una því að stefnunni sé ekki breytt þó svo að þeir hafi áhuga á því.