Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 14:47:20 (274)

2000-10-10 14:47:20# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[14:47]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Allt frá því að Íslendingar tóku utanríkismálin í eigin hendur hefur verið ágreiningur uppi um hvert einasta skref sem stigið hefur verið í átt til viðskiptasamstarfs og annars samstarfs við erlendar þjóðir. Þegar Íslendingar ákváðu að gerast aðilar að Marshall-aðstoðinni og þeirri efnahagssamvinnustofnun sem byggðist á því samkomulagi voru aðilar á Íslandi sem voru á móti því og sögðu að með því væru Íslendingar að framselja sjálfstæði sitt. Þegar við gengum í þær stofnanir sem stofnaðar voru á grundvelli Bretton Woods-samkomulagsins, Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, voru sömu öfl á móti því og sögðu þá líka að Íslendingar væru að selja sjálfstæði sitt. Þegar við gerðumst aðilar að EFTA voru sömu rök uppi af hálfu sömu aðila. Þegar við gerðumst aðilar að EES voru enn sömu viðhorfin uppi. Enn vorum við að selja sjálfstæði okkar. Að maður tali nú ekki um NATO. Við erum því búnir að selja á þessum tíma sjálfstæði okkar sennilega sjö eða átta sinnum.

Það sem er hins vegar merkilegt við þessa afstöðu er að þegar að því kom að fylgja henni eftir og þeir aðilar sem þessi viðhorf höfðu haft komust til áhrifa og þegar að því kom að fylgja henni eftir, þá var hrein undantekning að þeir sem settu þessi stefnumið fram stæðu við yfirlýsingar sínar. Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram að vinstri grænir eða þeir einstaklingar sem skipa þann flokk í dag hafi verið skoðanabræður þeirra manna sem frá upphafi höfðu þessa afstöðu. Ég ætla ekki að fara að hengja neitt um hálsinn á vinstri grænum nema síður væri. En ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á það að eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan þá hefur það verið skoðun hans frá upphafi og er enn að það beri að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin og samningnum um aðild Íslands að NATO. En það fór ekkert mikið fyrir þessum skoðunum hans þegar hann sat í ríkisstjórn og hafði möguleika á því að krefjast þess að þær fengu framgang. Þó að hann hefði þessa skoðun og hafi hana enn þá lét hann yfir sig ganga að sitja í ríkisstjórn sem var allt annarrar skoðunar og framfylgdi allt annarri stefnu. (SJS: Voruð þið ekki á móti ...) Og það sem er auðvitað ánægjulegast við það sem hefur komið fram hér í dag er að hv. þm. hefur sagt að þó að hann og flokkur hans hafi þá stefnu sem kemur fram í till. til þál. sem nú er til umræðu þá muni hann láta það yfir sig ganga að stefnunni verði ekkert breytt frá því sem hún er komist hann og flokkur hans til áhrifa í ríkisstjórn nema tryggt sé að sú lausn geti leyst þá lausn af hólmi sem tillögur yrðu gerðar um í þessari till. til þál., þ.e. að fyrir liggi viðskiptasamningar, tvíhliða samningar við hina tvo tugi ríkja sem menn geta rétt ímyndað sér hvort auðveldlega muni ganga að fá framgengt.

Herra forseti. Það verður auðvitað að lesa tillöguna eins og hún er þó svo að ef greinargerðin er lesin þá komi hinn raunverulegi tilgangur í ljós. En tillögugreinin fjallar um allt annað en virðist mega skilja bæði af greinargerðinni og málflutningi framsögumanns. Tillögugreinin fjallar um það að Ísland eigi að marka þá efnahagsstefnu, þá stefnu í utanríkismálum að standa utan efnahagsbandalaga og ríkjasambanda. Eins og hæstv. utanrrh. hefur nefnt þá er þetta ansi víð skilgreining. Að standa utan efnahagsbandalaga þýðir ekki bara það að segja nei við aðild að Evrópusambandinu heldur að segja upp þeim samningum sem við erum aðilar að nú þegar varðandi EES-svæðið og EFTA. En hv. þm. hefur tekið fram að ekki beri að skilja tillöguna svo. Af hverju er hún þá orðuð svona?

Sama máli gegnir um orðið ríkjasambönd. Orðið ríkjasambönd miðað við málflutning hv. þm. þýðir bara eitt. Það þýðir Evrópusambandið eða NAFTA eða samtök Asíuríkja. Það þýðir ekki ríkjasamband eins og ríkjasamband Norðurlanda, ríkjasambönd innan Sameinuðu þjóðanna o.s.frv. eins og hann tekur sjálfur fram. En af hverju orðar þá hv. þm. og félagar hans tillögugreinina eins og hún er? Ef hún verður samþykkt eins og hún er flutt þá er alveg ljóst að ekki er hægt að túlka það öðruvísi en sem vilja Alþingis til að standa utan allrar þeirrar efnahagssamvinnu sem við Íslendingar tökum þátt í og allra þeirra ríkjasambanda sem við tökum þátt í og tökum upp algera einangrunarstefnu.

Virðulegi forseti. Ég segi því, af hverju flytur hv. þm. og félagar hans þá ekki einfaldlega till. til þál. um að Ísland gerist ekki aðili að ESB fyrst það er það eitt sem vakir fyrir honum? Hvers vegna reynir hv. þm. að smygla inn á Alþingi tillögu sem er miklu víðtækari og merkir allt annað en hann meinar samkvæmt þeim orðum sem framsögumaður hefur sjálfur viðhaft um skýringu á tillögu sinni? Það væri forvitnilegt að vita.

Auðvitað kemur að því að Alþingi Íslendinga og ekki bara Alþingi Íslendinga heldur einnig íslenska þjóðin verður að taka afstöðu til þess hvort Íslendingar eiga að gerast aðilar að Evrópusambandinu eða ekki. Einhvern tíma rennur sá tími væntanlega upp og ég ítreka að það verður ekki aðeins Alþingi Íslendinga sem þarf að taka afstöðu til þeirrar spurningar heldur íslenska þjóðin. En að Alþingi Íslendinga fari að samþykkja að það beri að marka utanríkisstefnu Íslands á þann hátt að Ísland eigi að standa utan efnahagsbandalaga og ríkjasambanda er auðvitað algjörlega fráleitt. Svona tillögu getur enginn samþykkt þó að hann sé á móti aðild Íslands að ESB vegna þess að samþykkt slíkrar tillögu þýðir gerbreytingu á íslenskri utanríkisstefnu, þýðir algera einangrunarstefnu. Og ef það er ekki það sem hv. flutningsmenn eiga við þá væri sæmst að hv. flutningsmenn drægju tillöguna til baka og umorðuðu hana eins og þeir raunverulega meina, þ.e. þeir óska eftir því miðað við orð flutningsmannsins sjálfs að Íslendingar taki ekki upp einangrunarafstöðu heldur að Alþingi Íslendinga marki þá stefnu að Ísland eigi í framtíðinni að standa utan ESB. Það er bara allt annar handleggur, herra forseti. Auðvitað ber að leggja tillögu fyrir Alþingi eins orðaða og tillögumenn ætlast til að hún sé skilin þannig að það sé ljóst að Alþingi sé ekki að afgreiða allt annað mál en felst í hugmyndum flutningsmanna um afgreiðslu. Það væri því sæmst, herra forseti, að þingflokkur vinstri grænna dragi einfaldlega tillöguna til baka og orðaði hana þannig að alveg ljóst sé hvað vakir fyrir flutningsmönnum. Ef það er ekki það sem hefur komið fram í tillögugreininni sjálfri þá ber að umorða hana og orða hana eins og þeir meina.