Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:34:17 (290)

2000-10-10 15:34:17# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Þótt andsvar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hafi kannski ekki beinlínis gefið tilefni til þess að ég færi hér upp aftur vil ég þó taka fram að meðal þess sem er efnislega nokkuð erfitt að sætta sig við í tillögunni er að sjálfsögðu sú eindregna afstaða sem þar er tekin gegn aðild að Evrópusambandinu. Sjálfur hef ég aldrei útilokað slíka aðild í framtíðinni. Sjálfstfl. hefur heldur ekki gert það þótt afstaða flokksins til aðildar nú um stundir sé mjög skýr. Ég hef að mörgu leyti þá afstöðu að Evrópusambandið sé mjög árangursríkt samband, ekki síst miðað við það hvernig tilgangurinn var en hann var sá að auka öryggismál í Evrópu og ég tel að það hafi tekist. Það fer að sjálfsögðu eftir því hvernig Evrópusambandið þróast hvort það verður ákjósanlegur kostur fyrir Íslendinga að gerast aðilar að því síðar meir. Nú um stundir lít ég svo á að svo sé ekki og að það sé ekkert sem kallar á það í rauninni að við gerum það, en að við eigum að halda því samstarfi áfram sem við eigum við Evrópusambandið, bæði innan EES eins og á öðrum sviðum, það sé gott samstarf og hafi reynst vel og hafi haldið gildi sínu og algjörlega ástæðulaust sé að hrófla nokkuð við því.