Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:04:15 (299)

2000-10-10 16:04:15# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri tillögu sem hér kemur fram af hálfu þingflokks vinstri grænna. Ekki vegna þess að tillögugreinin sé mjög nákvæmlega orðuð, vafalítið hefur verið vakin athygli á því í umræðunni að svo sé ekki. Og það hefur verið skýrt að hér er ekki um að ræða úrsagnir úr ýmiss konar alþjóðlegu samstarfi, heldur er hér fyrst og fremst um að ræða heildarstefnumótun vinstri grænna á sviði utanríkismála, þá einkum gagnvart Evrópusambandinu. Þegar maður les tillöguna, ekki hvað síst grg., kemur sú afstaða mjög skýrt fram. Það er þess vegna, herra forseti, sem ég fagna tillögunni. Ég fagna því yfirleitt þegar stjórnmálamenn kveða skýrt að orði og enginn þurfi að velkjast í vafa um afstöðu. Þessi tillaga gerir það. Ég held að óhætt sé að lesa út úr henni, kannski ekki alla utanríkismálastefnu þingflokksins, en alla vega afstöðuna gagnvart Evrópusambandinu og færðar ýmsar röksemdir málflutningnum til stuðnings.

Ég er hins vegar algerlega ósammála þeirri skýru stefnu sem hér kemur fram og afstaða mín og skoðun er í sjálfu sér nákvæmlega jafn rétthá skoðun félaga minna sem standa að þessari tillögu. Mér finnst tillagan bera vott um einangrunarhugsun, fjandsamlega hugsun gagnvart alþjóðlegu samstarfi. Mér finnst það vera tónninn í henni. Ég veit vel að auðvelt er að segja að svo sé ekki, en þetta er það yfirbragð sem mér finnst tillagan svolítið hafa. Mér finnst vera gert mjög mikið úr þeim neikvæðu þáttum sem tengjast Evrópusamstarfinu og það er vitaskuld fullkomlega lögmæt afstaða að draga fram hinar neikvæðu hliðar til stuðnings þeim málstað sem menn eru að verja.

Ég vil benda á nokkur atriði sem ég er ekki sammála, ég reyndar lýsti því yfir að ég væri ósammála öllu, en mér finnst sum atriði orka mikils tvímælis. Ég er t.d. mjög ósammála þeirri afstöðu sem kemur fram í tillögunni og hefur líka komið fram af hálfu hæstv. forsrh., að afstaðan gagnvart Evrópusambandinu eigi að miðast við þessa frægu 8 milljarða sem er ekkert annað en mjög lítill hluti af þeirri stóru ákvörðun og umræðuefnum sem við þurfum að taka. Þetta mál er miklu stærra en svo að slík einföldun eigi rétt á sér.

Ég vil sömuleiðis benda á atkvæðagreiðsluna um evruna í Danmörku, að Danir voru nú ekki að ganga úr Evrópusambandinu og það liggur alveg fyrir hver stefnumótun Evrópusambandsins varðandi evruna er þrátt fyrir þessa niðurstöðu í atkvæðagreiðslunni. Og evrudæmið af efnahagslegum ástæðum mun halda áfram jafnvel þótt það hægi nokkuð á því ferli sem þar er. En það er enginn að hverfa til baka innan Evrópusambandsins í þeirri stefnumótun sem menn hafa þar tekið, þ.e. að stækka Evrópusambandið og þá fyrst og fremst til austurs.

Hér kemur líka fram neikvæð afstaða gagnvart EES-samningnum. Ég hélt satt best að segja að menn væru hættir að rökstyðja á þann hátt. Sá samningur hefur reynst okkur afskaplega farsæll og ég vil sérstaklega draga fram nafn þess fyrrverandi félaga okkar í þeim efnum, Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrv. alþm. og utanrrh., sem hafði mest frumkvæði hvað þann samning varðar. Sá samningur hefur á allan hátt reynst vel og meira að segja reynst svo vel að margir þeir sem eru á móti einmitt frekari samvinnu taka hann sem dæmi um nægjanlega stöðu og styrka stoð í samskiptum okkar við Evrópusambandið.

Ég vil líka benda á það sem gleymist stundum í umræðunni, og ekki er hægt kannski að fara ítarlega í hér á stuttum tíma, en það er úr hvaða jarðvegi hugmyndafræði Evrópusambandsins er sprottin, þ.e. þegar Monnet og Schuman og fleiri í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar lögðu upp með þá hugmyndafræði að búa til efnahagslegt samstarf sem mundi aukast smátt og smátt og leiða til bættra stjórnmálalegra samskipta sem mundi auka von um frið í Evrópu. Það er sú hugmyndafræði sem lagt var upp með, feður Evrópusambandsins. Þetta er ekki bara efnahagslegt mál.

Ég vil minna þingheim á það, herra forseti, að tímabilið frá seinni heimsstyrjöld til borgarastyrjaldarinnar í Júgóslavíu er lengsti friðartími í 2000 ára sögu Evrópu. Fara þarf aftur til tíma Rómverja til að finna lengri friðartíma í Evrópu. Það var hugmyndafræðin að baki þessu. Svo geta menn deilt um hvort vel hafi tekist eða ekki.

Ég tel að tekist hafi mjög vel hjá stríðshrjáðum þjóðum í Evrópu að finna sér samstarfsvettvang. Og þau kjósa að halda áfram starfi sínu einmitt á þessum vettvangi sem sést best á því að nær hvert einasta ríki í Evrópu er annaðhvort aðili að Evrópusambandinu eða er að móta afstöðu til aðildar eða hefur sótt um aðild. Það eru örfá ríki sem eru ekki í þessum hópi. Eitt af þeim ríkjum er Ísland. Annað ríki er Noregur, sem hefur ekki tekið neina afstöðu til breytinga á sínum þætti enn þá þó að því geti komið, en þetta eru sem sagt örfá ríki.

Það sem við höfum gert innan Samfylkingarinnar er að við höfum ekki tekið þá afstöðu að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Við höfum sagt: Við skulum ræða þessi mál út frá einum hagsmunum, þ.e. okkar eigin hagsmunum. Við höfum sagt: Það er breytt staða að mörgu leyti í Evrópu. Evrópusambandið er líka að breytast úr stórþjóðasambandi eins og það var hér á árum áður í samsteypu fjölmargra smærri ríkja, sem menn líta ekki einungis á sem efnahagslegan ávinning, heldur sem nauðsynlegan stjórnmálalegan ávinning í kjölfar breytinganna sem urðu í Evrópu eftir 1989. Að því leytinu hefur þessi staða gjörbreyst og ég held að sú aðferðafræði sem við leggjum upp með í Samfylkingunni, að ræða þessi mál, m.a. út frá því ef til aðildar kemur, hvað við ættum þá helst að draga fram sem samningsmarkmið, athuga hvort niðurstaða fæst í þeirri umræðu fyrst innan flokks hjá okkur og síðan að vita hvort samstaða næst um þessi markmið í samfélaginu. Ég held að sú aðferð sé skynsamleg.

Framsóknarflokkurinn er líka að opna umræðu um þessi mál út frá breyttum forsendum hjá sér. Þessi þáltill. er steinrunnin afstaða. Ýmislegt sem hér kemur fram er beinlínis byggt á röngum upplýsingum eins og hér er sagt um kvótahoppið. Þetta voru reyndar allt réttar upplýsingar sem þar er fjallað um en nýliðnir dómar í þessum efnum hafa markað kvótahoppinu miklu skýrari stöðu og gert það raunverulega óframkvæmanlegt eins og það var stundað á árum árum.

Ég vil benda á að sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins þarf ekki að vera okkur eins óhagkvæm og menn halda fram einfaldlega vegna þess, eins og hér er reyndar bent á, að við fáum allar veiðiheimildir við Ísland, við fáum að hafa það stjórnkerfi sem við viljum hafa og ef við bindum fastmælum í samningum að farið sé eftir ráðleggingum fiskifræðinga við ákvörðun um heildarkvóta þá er hægt, ef menn vilja, að tryggja hagsmuni okkar á því sviði. Menn eiga því að forðast fyrir fram mótaða afstöðu um þetta en það að tillagan kemur fram og gefur okkur tækifæri til skoðanaskipta um efnið finnst mér vera jákvætt, herra forseti.