Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:43:31 (308)

2000-10-10 16:43:31# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:43]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu ekki að saka hæstv. utanrrh. um það að draga af sér við það að reyna að gæta hagsmuna Íslands út á við og gagnvart Evrópusambandinu af öllu afli eins og hann metur best að gera það. En ég leyfi mér samt að hafa skoðun á því hvernig heppilegast sé að málflutningur okkar sé í tilvikum af þessu tagi. Ég geri það. Og hæstv. utanrrh. verður bara ósköp einfaldlega að sitja undir því að það er réttur minn að hafa skoðun á því hvernig skynsamlegast væri að tala fyrir okkar hagsmunum í þessum efnum. Það er þeim mun skiljanlegra vegna þess að hér er auðvitað um matskennda hluti að ræða. Og hver skyldi nú t.d. hafa verið að fjalla um einmitt sama mál gjörólíkt því sem utanrrh. hefur gert aftur og aftur á opinberum vettvangi að undanförnu? Í stefnuræðu hæstv. forsrh. fyrir nokkrum dögum kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Í apríl sl. lagði utanrrh. fram á Alþingi skýrslu um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi. Í skýrslunni er umfangsmikil lýsing á EES-samningnum og rekstri hans. Til samanburðar er annars vegar hugað að þeim kosti hvar Íslendingar stæðu án EES-samningsins, hins vegar hvaða afleiðingar aðild Íslands að Evrópusambandinu gæti haft.``

Svo kemur, herra forseti, í skýrslu utanrrh. auðvitað:

,,Fram kemur að EES-samningurinn virki eins og honum var ætlað og afraksturinn hafi reynst góður og rekstur samningsins gengið vel.`` Punktur.

Forsrh. velur að setja hlutina fram með þessum hætti. Utanrrh. hefur hins vegar valið að fjalla verulega ólíkt um þetta, aftur og aftur á opinberum vettvangi, í ræðu og riti, innan lands og utan. Það er þetta sem ég á við, herra forseti. Ég tel að sá heildarmálflutningur sem hefur sáð ýmsum efasemdum, bæði á innlendum vettvangi og erlendum um að staða Íslands í þessu efni sé nógu góð og framtíðin nógu álitleg --- ég tel að menn verði að gæta hófs í slíku annars skaði þeir íslenska hagsmuni og grafi undan þeim grundvelli sem þessi samskipti nú standa á.