Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:49:43 (311)

2000-10-10 16:49:43# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:49]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað sem líður afstöðu einstakra manna, þá er það nú einu sinni svo að vinstri grænir eru eini flokkurinn á Íslandi sem vill loka fyrir fram þeim möguleika að Ísland gangi í ESB.

Hv. formaður utanrrmn. sem talaði hér áðan lýsti sinni skoðun svo að hann væri ekki andvígur því að slíkt gæti gerst. Hann teldi það hins vegar ekki tímabært nú. En vinstri grænir vilja loka þessum dyrum og harðlæsa áður en umræðan hefst svo þjóðin geti ekki tekið þessa ákvörðun ef hún telur það skynsamlegt.

Okkar stefna er þessi: Þessa ákvörðun á þjóðin að taka í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það á að taka þessa ákvörðun að lokinni ítarlegi umfjöllun þar sem ýmsir aðilar sem hafa hagsmuna að gæta, m.a. hagsmunasamtök eins og verkalýðshreyfing og samtök atvinnurekenda, fá tækifæri til að segja sínar skoðanir. Við eigum síðan að taka þá afstöðu sem skynsamlegust er að lokinni slíkri umræðu. Þannig viljum við halda á málinu. Það er okkar stefna.

Það er hins vegar engin stefna að útiloka fyrir fram ákveðnar lausnir áður en umræður hefjast. Það er ekki stefna, það er þröngsýni og einangrunarhyggja. Það er ekki afstaða heldur fordómar.