Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:29:21 (324)

2000-10-10 17:29:21# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það afskaplega mikilvæg niðurstaða hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hann vilji taka þátt í alþjóðavæðingunni, taka þátt í heimsvæðingunni. Þá erum við sammála um það. En við verðum að meta það raunhæft hvernig Ísland getur tryggt sér þar sess sem tiltölulega lítil þjóð. Ég er þeirrar skoðunar að þetta tvíhliðatal og þessir tvíhliða samningar sem hann er að tala um geri það ekki. Ég er í grundvallaratriðum sammála því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði, að það sé ekki raunhæf leið. Það byggi ég m.a. á reynslu minni í þessum málum á undanförnum árum að ég sé það ekki sem leið.

Hv. þm. veit það áreiðanlega að þegar þjóðir Mið- og Austur-Evrópu ganga í Evrópusambandið þá renna úr gildi tvíhliða samningar okkar við þessar þjóðir. Þá eru þeir ekki lengur í gildi. Og við verðum í reynd að yfirtaka þá samningsniðurstöðu sem Evrópusambandið kemst að við þessar þjóðir, sem mér finnst nú ekki lýðræðislegt. Við munum standa frammi fyrir því á Alþingi að samþykkja hana. Við getum að vísu hafnað henni. En við verðum ekki í góðri stöðu til að hafna henni. Þetta er m.a. ein af þeim staðreyndum sem ég hef verið að draga fram í umræðunni. Er það rangt að segja þetta? Þetta er hins vegar rétt. Erum við að veikja okkur stöðu? Þetta er okkar staða. Þetta veit Evrópusambandið og Evrópusambandið veit líka að við eigum mjög erfitt með að hafna slíkri niðurstöðu.

Þetta eru staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir og ég tel þetta tvíhliða tal, hvort sem það er nú eða fyrr, standist ekki þær kröfur og þau skilyrði sem við Íslendingar eigum að hafa metnað til að gera í þátttöku okkar í alþjóðasamfélaginu.