Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 18:53:30 (346)

2000-10-10 18:53:30# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[18:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að Ísland hefur alla möguleika til að koma sjónarmiðum sínum skýrt á framfæri í þessu máli sem öðrum. Við erum að sjálfsögðu ekki aðilar sem stendur að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem getur tekið þá endanlegu ákvörðun að aflétta þessu viðskiptabanni.

Stöðug umræða fer fram um þessi mál og sú aukning sem hefur orðið í heimildum til handa Írak að flytja út meira af olíu til að kaupa fyrir matvæli, meðul og lyf, er sprottin af þeirri umræðu. Sú umræða mun halda áfram.

Þessi umræða á sér líka stað á vettvangi utanrrh. Norðurlandanna og hún á sér að sjálfsögðu stað á vettvangi utanrrh. Evrópusambandsins og víða um heim. Hún á sér stað í tvíhliða viðræðum milli sendinefnda og ráðherra þannig að það liggur allt saman fyrir. Hins vegar er um að ræða stefnu Sameinuðu þjóðanna og við erum aðilar að þessum samtökum. Við þurfum að framfylgja ákvörðunum Sameinuðu þjóðanna með sama hætti og löndin í kringum Írak þurfa að framfylgja henni og er þeim afskaplega erfitt. Ég var t.d. fyrir stuttu í Tyrklandi sem ég veit að hv. þm. hefur jafnframt heimsótt og það er þeirri þjóð mjög erfitt hvernig viðskiptin við Íraka hafa fallið niður og samskiptin við Írak. Þeir skiptu um sendiherra, en skömmu eftir að sá sendiherra kom aftur til Írak var hann líflátinn. Það er ótrúlegt hvað þessari ógnarstjórn dettur í hug fyrir utan að hafa verið staðin að því að selja allmikinn hluta þeirra matvæla úr landi sem hafa verið flutt inn til þess að hjálpa fólki.