Samkeppni olíufélaganna

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:26:22 (382)

2000-10-11 14:26:22# 126. lþ. 7.2 fundur 18. mál: #A samkeppni olíufélaganna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:26]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég tel gott að svona fyrirspurn komi fram á hinu háa Alþingi og bara fyrirspurnin og umræðan veitir aðhald í því fákeppnisumhverfi sem olíufélögin eru í.

Ég vil rifja hér aðeins upp raunverulegar ástæður fyrir öllu þessu verðsamráði, þ.e. hve verðið er líkt, en þær eru skortur á samkeppni. Og ef menn rifja upp þegar Irving Oil kom hér á sínum tíma þá fyrst brugðust olíufélögin við með bættri þjónustu og lægra verði. Við höfum ekki þessar aðstæður hér, við erum með fákeppni víða, hvort sem það er í tryggingum, flutningum og fjármálum. Verðsamráð er bannað en ég vil þó nefna eitt sem sýnir hvers konar markaður þetta er, að hækkanir á olíuverði hér á landi gerast alltaf um mánaðamót. Það er einsdæmi. Af hverju verða hækkanirnar ekki innan mánaðarins? Það er aldrei. Og ástæðan er sú að menn hafa komið sér upp kerfi sem er mjög grunað um samráð þó að erfitt sé að henda nákvæmar reiður á því.