Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 11:57:32 (440)

2000-10-12 11:57:32# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., GuðjG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[11:57]

Guðjón Guðmundsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er aðeins vegna ummæla hv. 2. þm. Vestf., Sighvats Björgvinssonar, þar sem hann var að telja hversu margir þingmenn væru í húsinu og hversu margir stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar. Við vitum öll og það er ekkert leyndarmál að það eru sjónvarpstæki á skrifstofum allra þingmanna og þessi útsending er send beint á skrifstofur okkar. Við vitum að mjög algengt er að menn sem ekki ætla að taka þátt í umræðum fylgist með þeim á skrifstofum sínum og séu að vinna þar í leiðinni. Mér finnst frekar ómakleg athugasemd að velta mönnum upp úr því að þeir sitji ekki undir umræðum. Ég veit t.d. að núna er mikill fjöldi þingmanna á skrifstofunum í húsunum í kring og eru væntanlega að fylgjast með þessum umræðum. Ég held að það sé okkur ekki til framdráttar að vera með slíkar aðdróttanir og ég reikna ekki með því að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson óski sérstaklega eftir því að þess sé getið í ræðustól á Alþingi þegar hann er fjarverandi sem kemur stundum fyrir eins og með aðra þingmenn.