Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 12:24:26 (447)

2000-10-12 12:24:26# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[12:24]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Hér hefur farið fram ágæt umræða um þá tillögu sem liggur fyrir um inngöngu Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðið. Ef taka má mið af röddum þeirra sem hér hafa talað virðast menn vera nokkuð sammála um að úrsögn okkar á sínum tíma hafi ekki uppfyllt þær væntingar sem menn bundu við hana, þ.e. hún hefur ekki leitt til þess að Íslendingar færu þá að veiða hval, heldur þvert á móti er það þannig að utan ráðsins virðumst við jafnbundin, ef ekki bundnari, ákvörðun þess en á meðan við vorum þar innan dyra.

Jafnframt hefur komið fram og verið ítrekað af hv. ræðumönnum að það er innan Alþjóðahvalveiðiráðsins sem menn bæði sækja og verjast í þessum efnum. Þar fer umræðan um hvalveiðar fyrst og fremst fram og ljóst er að af alþjóðasamfélaginu er litið svo á að Alþjóðahvalveiðiráðið sé sá vettvangur þar sem þessi mál ráðast. Svona er þetta, herra forseti, hvað svo sem okkur kann að finnast um ákvarðanir Alþjóðahvalveiðiráðsins að öðru leyti.

Einnig hefur komið fram í máli manna hver ætti að vera grundvöllur þess að við ákveðum að hefja hvalveiðar að nýju. Menn hafa talað um fæðunám hvala, það sem stundum er kallað afrán, þ.e. hvernig hvalir keppa við veiðimenn í náttúrunni. Herra forseti. Ég geri ekki mikið með þau rök einfaldlega vegna þess að upplýsingar mínar segja að ef við ætlum að fara í slíkt kapphlaup þurfum við að hefja svo gegndarlausar veiðar að ég er hrædd um að aðrir hagsmunir þyrftu að líða fyrir það. Hins vegar finnst mér og ég veit að margir eru mér sammála og líklega flestir að það sé sá fjölbreytileiki menningar sem við viljum viðhalda sem skiptir mestu. Við eigum að halda því fram að þjóðir, ekki síst þjóðir á norðurslóðum, hafi til þess rétt og það sé í rauninni skylda þeirra að viðhalda þeim fjölbreytileika menningarinnar sem felst í því að þær hafa að mörgu leyti aðra lifnaðarhætti, búa við aðrar aðstæður og hafa lært að bregðast við því í gegnum tíðina. Hér erum við að tala um þau samfélög veiðimanna sem eru til á norðurslóðum, samfélög þar sem ákveðnar hefðir og ákveðin þekking hefur safnast upp og væri mikill skaði af ef týndust eða glutruðust niður. Þetta finnst mér, herra forseti, vera meginatriði málsins. Við viljum varðveita fjölbreytileika menningarinnar. Það er skaði ef þjóðir heims verða allar líkari og við töpum niður þessum fjölbreytileika. Þetta ásamt og með því að við viljum nýta þá dýrastofna, hvort sem það eru fiskar eða önnur dýr sem eru sjálfbærir, eru þau rök sem mér finnst að við getum stolt borið fyrir samfélag þjóðanna og getum barist fyrir.

Herra forseti. Til að það gerist, til að við eigum þess kost að bera þessi mikilvægu rök okkar fyrir samfélag þjóðanna verðum við að vera í því samfélagi þar sem umræðan fer fram. Hún fer fram innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þess vegna er viturleg ákvörðun ef við ákveðum að ganga þangað inn aftur og sækja og verjast. Ég vænti þess að sú tillaga sem hefur verið rædd í dag fái góðan framgang í þeim nefndum sem fjalla um hana og síðan áfram inni í þingsalnum þegar þar að kemur.