Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 12:28:51 (448)

2000-10-12 12:28:51# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[12:28]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Ég er einn af þeim mönnum sem formaður Samfylkingarinnar sagði svo fallega áðan að hefði haldið innblásnar ræður um þetta mál á undanförnum árum. Ég tek það fram að ég var viðstaddur þá umræðu þó að hv. formaður Samfylkingarinnar segði að við værum allir fjarstaddir. Ég er í grundvallaratriðum sammála þessari tillögu. Ég held að þegar við hefjum hvalveiðar á ný, ég segi þegar vegna þess að þegar Alþingi samþykkti mjög afgerandi vorið 1999 að við skyldum hefja hvalveiðar, með 37 atkvæðum gegn 8, ef ég man rétt, var aflétt hvalveiðibanninu sem hafði staðið í 16 ár. Nú er það stjórnvalda að ljúka málinu og fylgja eftir þessari samþykkt Alþingis.

Hjá Japönum hefur komið fram að þeir væru tilbúnir að kaupa af okkur hvalaafurðirnar að því tilskildu að við værum í Alþjóðahvalveiðiráðinu og lítið gagn er í hvalveiðum ef ekki er hægt að selja afurðirnar. Ég býst því við að það sé forsenda fyrir því að taka upp veiðarnar á ný, sem verður vonandi sem allra fyrst, að við séum þarna innan ráðsins. Ég er hins vegar sammála því sem stendur í greinargerð með tillögunni að sem lið í þeirri ákvörðun að ganga aftur í ráðið yrði Alþingi að samþykkja að gera slíkan fyrirvara, þ.e. að mótmæla banni við hvalveiðum og yrði það liður í þeim ráðstöfunum sem samþykkt þessarar ályktunar felur í sér. Ég er sem sagt sammála því að við sækjum um aðild að hvalveiðiráðinu á ný með þeim fyrirvara og því skilyrði að við ætlum að hefja hvalveiðar að nýju.

[12:30]

Fyrr í umræðunni kom fram, hjá flm. tillögunnar að ég held, að hvalaskoðun væri mjög vaxandi atvinnugrein. Það er rétt og það er gleðilegt. Þetta skiptir orðið miklu máli í ferðaþjónustunni víða um land, bæði fyrir norðan og vestan og hérna á Faxaflóasvæðinu. Einnig kom fram í þeirri ræðu að yfir 40 þúsund manns hefðu sótt þessar ferðir í sumar. Ég er hins vegar ekki sammála því sem kom fram í þeirri ræðu, að Norðmenn stunduðu ekki hvalaskoðun á sömu tegundum og þeir stunda hvalveiðar. Það hefur komið mjög skýrt fram einmitt í gögnum frá Norðmönnum að þeir stunda hvalaskoðunina á sömu slóðum og hvalveiðarnar. Það hefur verið mikil aukning á undanförnum árum í hvoru tveggja. Þeir hafa aukið hrefnuveiðarnar ár frá ári og á sama tíma hefur hvalaskoðunin aukist mjög verulega, hún hefur margfaldast hjá þeim á fjórum, fimm árum. Þetta fer þannig ágætlega saman. Eins og ég hef bent á áður þá eigum við auðvitað að nýta hvalina á þrennan hátt. Í fyrsta lagi með hvalveiðum, í öðru lagi með hvalaskoðun og í þriðja lagi með því að sýna hvalvinnsluna. Það hefur komið fram hjá þeim sem störfuðu í Hvalstöðinni í Hvalfirði á sínum tíma að þegar vinnslan var þar í fullum gangi þá hafi komið um 20 þús. manns á ári að skoða hvalvinnsluna, skoða þessar risaskepnur dregnar á land og hvalskurðinn. Á þeim árum voru þetta einhverjar allra vinsælustu ferðir sem hótel og ferðaskrifstofur í Reykjavík buðu upp á, dagsferðir frá Reykjavík. Þá var farið upp í Hvalstöð, menn sáu þessar skepnur fyrst við bryggjuna, síðan dregnar á land, sáu hvalskurðinn og fóru síðan um héraðið. Það var t.d. farið upp í Reykholt og Borgarnes og víðar. Þetta voru afskaplega vinsælar ferðir þannig að það er líka möguleiki á þessu sviði. Ég tel að við eigum að nýta hvalinn á þrjá vegu, fyrst og fremst auðvitað með veiðum og síðan með ferðaþjónustu, þ.e. hvalaskoðun og því að sýna hvalvinnsluna.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég er í grundvallaratriðum sammála þessari tillögu en þó með þeim fyrirvara að við göngum í ráðið með þeim skilyrðum að við ætlum að hefja hvalveiðar að nýju.