Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:01:08 (479)

2000-10-12 15:01:08# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Frv. er á þskj. 26 og þetta er 26. mál.

Þetta frv. tryggir sjálfsögð mannréttindi fyrir íslenska lífeyrisþega, þ.e. það tryggir afnám tengingar við laun maka sem hefur verið eitt af helstu baráttumálum bæði samtaka öryrkja og reyndar aldraðra líka og mikið baráttumál Samfylkingarinnar í málefnum lífeyrisþega.

Þetta mál felur einnig í sér aðra breytingu sem er að tekið er á því óréttlæti sem í núgildandi lögum felst, að greiðslur til öryrkja frá Tryggingastofnun ríkisins lækka við það að hann nær 67 ára aldri, þ.e. að öryrki verði ellilífeyrisþegi. Á því atriði er sömuleiðis tekið í frv.

Flutningsmenn frv. ásamt þeirri sem hér stendur eru allir hv. þingmenn þingflokks Samfylkingarinnar.

1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,17. gr. laganna orðast svo:

Ef aðrar tekjur ellilífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga fara ekki fram úr 402.852 kr. á ári skal greiða tekjutryggingu til viðbótar lífeyri hans að upphæð 375.756 kr. á ári. Hafi bótaþegi hins vegar aðrar tekjur umfram 402.852 kr. á ári skal skerða tekjutrygginguna um 45% þeirra tekna hans sem umfram eru.``

Sama ákvæði kemur síðan um örorkulífeyrisþegana og sömu upphæðir og sama tekjutengingarprósenta.

Síðan segir í greininni, herra forseti:

,,Um tekjutryggingu samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 11. gr. eftir því sem við á.

Tekjur maka hafa ekki áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega. Hjónum sem bæði eru lífeyrisþegar er heimilt að nýta ónýtt frítekjumark hvort annars.``

2. gr. er um að lög þessi öðlist þegar gildi.

Það er sem sagt verið að leggja það til hér að tekjutenging tekjutryggingar lífeyrisþega við laun maka hans verði afnumin þannig að tekjutengingin í almannatryggingunum verði aðeins við hans eigin tekjur. Það er líka tekið sérstaklega fram að millifæra megi frítekjumark hjóna sem bæði eru lífeyrisþegar, þ.e. að þau geti nýtt frítekjumark hvort annars, nýti þau það ekki að fullu. Reyndar er það þannig í almannatryggingunum. En þegar mál hefur verið hér til umfjöllunar, eins og það hefur verið nokkrum sinnum áður hér á Alþingi, þá hefur það viljað brenna við að menn hafi verið að snúa út úr þessum skilningi og framkvæmd á almannatryggingunum. Þess vegna þótti flutningsmönnum ástæða til að taka það sérstaklega fram í greinargerð. Þær upphæðir sem eru í lagagreininni eru fengnar frá Tryggingastofnun ríkisins og miðast við 1. september árið 2000.

Eins og menn þekkja eflaust eftir alla þá umræðu sem hefur verið um þessa óréttlátu reglu þá hafa menn verið sammála um og talið réttlætismál að þeir sem ekki geti séð sér farborða fái lágmarksframfærslu úr sameiginlegum sjóðum velferðarkerfisins. Þeir sem missa atvinnuna fá greiddar atvinnuleysisbætur óháð tekjum maka. Sama gildir ekki um lífeyrisþega, þ.e. þegar einhver missir starfsorkuna eða starfsgetuna þá fær hann ekki sambærilegan stuðning frá velferðarkerfinu því greiðslurnar úr almannatryggingunum skerðast ef sá sem missir starfsorkuna er í hjónabandi eða sambúð og koma þá tekjur eða laun makans til skerðingar. Heimild fyrir þessari skerðingu var sett inn í almannatryggingalögin 1998 um leið og skerðingarmörkin voru hækkuð. Það var því stigið smá hænufet í því að minnka skerðinguna 1998 en um leið var þessi skerðing lögfest sem áður var í reglugerð. Síðan var stigið annað hænufet nú í lok september þegar aftur var nokkuð dregið úr þessari skerðingu. Öryrkjabandalag Íslands höfðaði mál gegn Tryggingastofnun ríkisins þar sem það taldi að Tryggingastofnun hefði verið óheimilt að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka frá 1995. Niðurstaða héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir í lok síðasta árs en um það hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að skerða tekjutrygginguna vegna tekna maka eftir lagabreytinguna á 17. gr. laganna frá 1998 ríkir aftur á móti réttaróvissa þar sem dómarar í málinu voru ekki á einu máli þar um.

Ákvæði þessarar skerðingarreglu hafa í för með sér að fjölskyldur lífeyrisþega lenda í fátæktargildru. Þær lenda í mjög erfiðri stöðu og ég ætla aðeins að lýsa því nánar. Við getum bara ímyndað okkur fjölskyldu þar sem annað hjóna missir starfsorkuna og getur ekki unnið lengur. Það hefur auðvitað ákveðinn tekjumissi í för með sér ef um langvarandi veikindi er að ræða. Ef hinn sjúki eða slasaði fær ekki starfsorkuna aftur og þarf að fara á örorku þá byrja tekjur maka að skerða greiðslur hans frá almannatryggingunum mjög snemma. Það er oftar en ekki að öryrkinn fær ekki nema grunnlífeyri sem er um 17 þúsund kr.

Ekki er nóg með að þessi skerðing sé gagnvart tekjum úr almannatryggingunum heldur er tekjutengingin andstæð eðli almannatrygginganna og eftir því sem sérfræðingar sjá gleggst þá er þetta líka brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir í 1. mgr., með leyfi forseta:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Lífeyrisþegum er með þessari skerðingarreglu mismunað eftir hjúskaparstöðu. Fólki á vinnualdri er einnig mismunað eftir því hvort það á við atvinnuleysi eða heilsubrest að stríða. Það er ekki sama hvort menn eru atvinnulausir eða eru óvinnufærir. Þeir fá ekki sama stuðning og það er verið að mismuna þeim í kerfinu og slík mismunun hlýtur að vera andstæð anda stjórnarskrárinnar.

Tekjutengingin virðist einnig brjóta gegn 11. gr. stjórnsýslulaganna, nr. 37/1993, þar sem segir að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti og að þeim sé beinlínis óheimilt að mismuna aðilum á grundvelli þjóðfélagsstöðu eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Hér virðast lög vera brotin, ekki ein heldur fleiri, á þeim sem síst skyldi og geta oftar en ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Við meðferð frumvarps til laga um almannatryggingar, þ.e. fyrstu almannatryggingalaganna árið 1935, kom fram í nefndaráliti og í umræðunni að gert væri ráð fyrir að í þeim fælist hrein persónutrygging, þ.e. að verið væri að tryggja persónu hvers og eins. Samkvæmt því er það andstætt tilgangi og markmiði laganna að færa tryggingarskylduna yfir á maka og þar með er hið opinbera að firra sig ábyrgð ef lífeyrisþeginn sem er í hjónabandi eða sambúð. Það er verið að varpa tryggingarskyldunni yfir á annan aðila.

Við bendum einnig á það í greinargerðinni, herra forseti, að þetta stríði gegn mannréttindasáttmálum og alþjóðasamningum sem Íslendingar hafa skuldbundið sig til að virða. Bæði má benda á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á allsherjarþinginu 10. desember 1948. Þar segir í inngangsorðum, með leyfi forseta:

,,Það ber að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.``

Í 2. gr. sáttmálans segir einnig, með leyfi forseta:

,,Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.``

Í 16. gr. er fjallað um jafnrétti til hjúskapar og stofnunar fjölskyldu og er þar sérstaklega kveðið á um hlutverk fjölskyldunnar og skyldur ríkisins gagnvart henni. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Fjölskyldan er í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins og ber þjóðfélagi og ríki að vernda hana.``

Í 25. gr. sáttmálans segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissi, elli eða öðrum áföllum sem skorti valda og að fötluðum sé ekki mismunað með lögum hvað varðar kynferðissambönd, hjónaband og barneignir.``

Núgildandi lagagrein, sem kveður á um að tekjur maka skerði tekjutryggingu lífeyrisþega, grefur undan hjónabandinu og möguleikum lífeyrisþega til að hefja sambúð og stofna fjölskyldu. Unnt er að leiðrétta þetta með samþykkt þessa frumvarps.

Ég vil minna á að prestastefna hefur sérstaklega tekið þessa tekjutengingu til umfjöllunar og ályktað um hana. Það var 1997 sem prestastefna ályktaði sérstaklega um þetta mál þar sem hún bendir á að leiðrétta verði þetta ranglæti því að þetta fyrirkomulag stofni hjónaböndum fólks í hættu. Prestastefna 1997 hvetur sem sé til þess að stjórnvöld leiðrétti þetta ranglæti.

Vegna þeirrar umræðu sem var hér í síðustu viku um málefni og kjör lífeyrisþega verður líka að geta þess hér og það þarf að koma skýrt fram að þessi regla viðgengst nánast hvergi annars staðar en hér, a.m.k. ekki í þróuðum velferðarríkjum. Þó svo að hér hafi ráðherrar staðið upp og haldið öðru fram þá er það ekki rétt. Ég vil vitna í bók Stefáns Ólafssonar prófessors, Íslensku leiðina, um íslenska velferðarkerfið. Þar segir um þessa tekjutengingu, á bls. 273, með leyfi forseta:

[15:15]

,,Þá er önnur beiting skerðingarreglna í almannatrygginga kerfinu á Íslandi einnig fátíð, en það er skerðing lífeyris öryrkja vegna tekna maka þeirra. Sú regla er arfleifð gömlu fátækraaðstoðarinnar frá fyrri öldum, þar sem framfærsluskylda var lögð á fjölskylduna eða ættingja í heild, áður en til fátækraaðstoðar gæti komið, með tilheyrandi athugun á þörf og því hvort hinn fátæki verðskuldaði aðstoðina.

Hugmyndafræði almannatrygginga, sem leysti gömlu fátækraaðstoðina að mestu af hólmi á 20. öldinni, gengur gegn þessari hugsun að örorkulífeyrisþegi hafi ekki fullan borgararétt og beri skarðan framfærslurétt ef maki hans hefur einhverjar tekjur, eins og fram kom í fyrstu tveimur köflunum í þessari bók. Þess vegna hafa vestrænar þjóðir horfið frá slíkri framkvæmd almannatrygginga nú á dögum.`` --- Þau hafa horfið frá þessari framkvæmd. --- ,,Framkvæmd þessarar reglu á Íslandi rýrir mjög kjör þeirra öryrkja sem fyrir verða, samkvæmt mati OECD á kjarastöðu lífeyrisþega í aðildarríkjunum, og það kemur einnig fram í skýrslu forsætisráðherra vorið 1999 um stöðu öryrkja. En félagsleg og sálræn áhrif slíks fyrirkomulags eru þó enn alvarlegri því öryrki í slíkri stöðu er að hluta rændur sjálfstæði sínu og mannlegri reisn.``

Greiðslur til lífeyrisþega, og þá ekki síst öryrkja, skulu vera óháðar tekjum maka þeirra. Þannig styðjum við best við bakið á því fólki sem verst er statt í samfélaginu og einnig við grunneiningu þjóðfélagsins þar sem fjölskyldan er. Einnig er ástæða til þess að benda á að lífeyrisþegi í hjónabandi og sambúð á ekki rétt á heimilisuppbótum allt að tæpum 22 þús. kr. á mánuði, sem hann ætti rétt á ef hann byggi einn. Þannig er lífeyrisþegi í hjónabandi eða sambúð með lægri almannatryggingagreiðslur, eða þriðjungi lægri en einhleypingur, auk þess sem tekjur maka skerða tekjutryggingu hans. Það er því verið að skerða mjög stíft í kerfinu gagnvart þeim sem búa með öðrum þó svo að þessi skerðing komi ekki í ofanálag.

Flutningsmenn frv. leggja því til að ákvæði verði sett inn í almannatryggingalögin um að tekjur maka skuli ekki hafa áhrif á tekjutrygginguna. Hinar tekjutengingarnar og skerðingarnar eru meiri en nóg skerðing fyrir þá sem eru í þessari aðstöðu. Einnig er lagt til í frv. að upphæð tekjutryggingar og frítekjumark verði það sama fyrir aldraða og öryrkja, þar eru upphæðir miðaðar við tekjutryggingu öryrkja í dag sem er heldur hærri en hjá öldruðum. Reyndar er það skoðun okkar flutningsmanna að leiðrétta þurfi kjör bæði aldraðra og öryrkja úr almannatryggingunum því bilið hefur gliðnað á milli launaþróunar og tryggingagreiðslna. Við höfum tekið þá umræðu hér, en engu að síður er full ástæða til að leiðrétta þetta misræmi sem er milli öryrkja og aldraðra því að það hefur þau áhrif í dag að þegar öryrki nær 67 ára aldri og verður ellilífeyrisþegi þá hafa greiðslurnar til hans lækkað. Það er auðvitað ekki eðlilegt því að yfirleitt er það svo að sé maður fatlaður eða hafi þurft að búa við skerta starfsgetu þá lagast hún yfirleitt ekki með aldrinum. Það er því full ástæða til að leiðrétta þetta atriði.

Þetta frv. sem ég mæli hér fyrir, herra forseti, hefur verið flutt nokkrum sinnum á síðasta kjörtímabili og sömuleiðis var það lagt fram á 125. þingi en kom þá ekki til umræðu. Vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um þessa óréttlátu tekjutengingu vil ég geta þess að íslenska almannatryggingakerfið er það mikið tekjutengt gagnvart launum utan kerfisins að það þarf enginn að hafa áhyggjur af því, þó að þetta verði leiðrétt, að einhver hagnist óeðlilega á þessu. Það verður enginn ríkur á að fá greiðslur úr almannatryggingakerfinu því að passað er upp á það með tekjutengingunum. Það er fullkomlega eðlilegt að ákveðnar tekjutengingar séu inni í kerfinu vegna þess að okkar kerfi er þannig uppbyggt, sem er að nokkru leyti öðruvísi en t.d. á Norðurlöndunum, að lífeyrissjóðirnir eru að taka yfir stóran hluta af lífeyrisgreiðslunum og það leiðir af sér með tekjutengingunum að lífeyrissjóðirnir taka þarna við, en það kemur ekki þeim til góða sem eru komnir á lífeyrisgreiðslur í dag. Þetta kemur þeim til góða sem munu fá lífeyrisgreiðslur á næstu árum og áratugum vegna þess að skyldan til greiðslna í lífeyrissjóð hefur ekki verið fyrir hendi fyrr en í seinni tíð.

Ég vil einnig minnast á fátækragildruna sem fólk lendir í sem býr við þessa skerðingarreglu. Þetta er nánast óbærilegt, sérstaklega öryrkjum og ungu fólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið og er með ung börn, að búa við þetta. Það getur ekki leyft sér nokkurn skapaðan hlut. Börn þessara lífeyrisþega eru ekki þátttakendur í félagslífi, eru ekki þátttakendur í daglegu lífi jafnaldra þeirra því að ljóst er að foreldrar geta ekki veitt þeim það sama og aðrir foreldrar þegar þeir búa við slíka skerðingarreglu. Það er því full ástæða til að taka á þessu máli fyrir utan það að þetta er mannréttindamál.

Bent hefur verið á að þetta kostar ríkissjóð ekki mikið. Menn hafa verið tilbúnir að styðja við ýmsa aðra hópa í samfélaginu sem hafa það bara ansi gott með hærri upphæðum en þeim sem þyrfti til til að leiðrétta þessa reglu. Mér þykir fyrir því að hæstv. heilbrrh. skuli ekki vera hér viðstödd og enginn úr hennar flokki, ekki nokkur framsóknarmaður hefur verið viðstaddur þessa umræðu. Ég hefði gjarnan viljað sjá hér þó ekki væri nema einhvern einn úr flokki hæstv. heilbrrh. til að taka þátt í umræðunni því að hæstv. ráðherra hefur margsinnis lýst því yfir að hún telji að þetta mál snúist um siðferði og það beri að afnema þessa tekjutengingu. Að minnsta kosti var það nokkrum sinnum sagt fyrir kosningar að það bæri afnema þetta og hefur hæstv. ráðherra stigið tvö hænufet í þá átt. En það væri full ástæða til að spyrjast fyrir um það hvenær hæstv. ráðherra hyggst standa við þau loforð sín sem hún hefur gefið, gaf bæði á aðalfundi Tryggingastofnunar ríkisins fyrir síðustu kosningar og í viðtölum og hér á þingi um að hún ætlaði að afnema tekjutengingu við tekjur maka. Ég veit að það gætir óþreyju í hópi margra og sérstaklega öryrkja sem geta ekki hugsað í árum að bíða eftir slíkum breytingum. Við sem höfum heilsu og ráðherrar geta kannski hugsað í árum en þeir aðilar sem búa við þessa reglu geta ekki beðið og börn þeirra sem þurfa e.t.v. að bíða í mörg ár eftir því að geta verið með í samfélaginu.

Ég fagna því að formaður fjárln. er mættur í salinn, það er þá a.m.k. einn framsóknarmaður mættur til umræðunnar, herra forseti. Ég vonast til að hv. þm. Jón Kristjánsson muni svara því hvenær hæstv. heilbrrh. ætli að standa við loforð sín um að afnema þá óréttlátu reglu sem viðgengst hér því miður á Íslandi og við teljum að ætti að vera löngu búið að afnema. Nú er lag í góðærinu, herra forseti, að afnema hana. Menn voru tilbúnir að afhenda jeppaforstjórunum lækkun á skatti á jeppana, en ég býst við að það sé heldur lægri upphæð sem þyrfti til til að leiðrétta þetta óréttlæti.

Herra forseti. Ég held ég hafi ræðu mína ekki mikið lengri að sinni en mælist til þess að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og trn. að lokinni umræðu þar sem ég vonast til, þar sem engin mál liggja nú fyrir nefndinni, að hægt verði að fara fljótt og vel í málið og samþykkja því það hefur greinilega verið stefna hæstv. heilbrrh., a.m.k. ef miða má við yfirlýsingar fyrir síðustu kosningar, að það sé siðferðilegt mál að afnema tekjutengingu við laun maka. Því hlýtur frv. að fá góða og skjóta meðferð í nefndinni og koma síðan aftur til þingsins von bráðar.

(Forseti (GuðjG): Vegna orða hv. þm. vill forseti taka fram að hæstv. heilbrrh. er erlendis og er með varamann fyrir sig í þinginu þessa viku.)