Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:27:03 (533)

2000-10-16 15:27:03# 126. lþ. 10.93 fundur 54#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Virðulegi forseti. Við búum í síbreytilegu þjóðfélagi þar sem tæknin æðir áfram, fyrirtæki eru að breytast með samruna og sérhæfingu. Stjórnmálaflokkar breytast, skólar og menntastofnanir breytast og þjónusta banka og annarra stofnana hefur verið að breytast í takt við kröfur tímans, tækninnar og markaðarins. Á fáum sviðum hafa orðið meiri breytingar í heiminum en á fjármálamarkaðnum. Hlutabréfamarkaður á Íslandi er barn síns tíma og er í stöðugri þróun. Viðskipti milli landa og reyndar innan lands gerast á örskotsstundu.

Ákveðin straumhvörf urðu í bankakerfi Íslands við sameiningu Íslandsbanka og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Bankinn er gríðarlega stór á íslenskan mælikvarða. Við stöndum frammi fyrir því að ríkisbankarnir eru í raun ekki samkeppnishæfir í ört breytilegu samkeppnisumhverfi peningastofnana hér á landi og erlendis. Þess vegna hefur viðskrh., í umboði ríkisstjórnarinnar, ákveðið að fram fari forúrskurður vegna hugsanlegrar sameiningar Landsbankans og Búnaðarbankans. Þar verði kannað hvort sameining brjóti samkeppnislög. Með þessum hætti er farið í sameiningarmál bankanna af festu og varúð.

Það er alrangt sem kom hér fram hjá 13. þm. Reykv. að ákvörðun hafi þegar verið tekin um þessa sameiningu. Það er verið að tala um forúrskurð og það er líka alrangt sem kom fram hjá 13. þm. Reykv. að það ætti að breyta lögum út af þessu. Hér er fyrst og fremst um forúrskurð að ræða.

Sameining banka er alþekkt hér á landi og reyndar í nágrannalöndum okkar og ef til sölu hlutabréfa í ríkisbönkunum kemur þá er hér fyrst og fremst verið að auka verðgildi þessara bankastofnana.