Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 16:19:12 (546)

2000-10-16 16:19:12# 126. lþ. 10.6 fundur 22. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[16:19]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mín bjargfasta trú, hv. þm. Kristján Pálsson, að kvótakerfi til stýringar fiskveiða sé því betra eftir því sem tegundir í því eru færri. Því þjálla verður það og auðveldara. Einungis út frá þeim rökum tel ég æskilegt að fækka tegundum í kvótakerfinu. Ég hef t.d. ekki fundið skynsamleg rök fyrir því hvers vegna við vorum að hamast við að tína inn í kvótakerfið fisktegundir eins og þykkvalúru á síðasta ári. Venjulega er hún bara meðafli með öðrum veiðum og örðugt að gera út á þessa tegund sérstaklega. Það liggur alveg fyrir að þó nokkur hluti flotans hefur sjálfsagt litlar eða engar heimildir í þessari fisktegund.

Sé litið í bók Hafrannsóknastofnunar sem kom út sl. vor þá sést á bls. 30 að árgangaskipan í ufsa er þannig að allir ufsaárgangar frá 1995 eru áætlunarárgangar. Það er sem sagt ekkert vitað um stærð árganganna. Það er hrein sýndarmennska að halda því fram að Hafrannsóknastofnun geti spáð fyrir um afla ufsa, hvort sem er upp- eða niðursveiflu. Enda hefur reyndin verið sú að þeir hafa eingöngu farið eftir veiðunum á hverjum tíma, voru tregir til að draga úr aflanum á sínum tíma þegar afli minnkaði og eru líka mjög tregir til að bæta við hann þegar afli eykst.