Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:11:09 (579)

2000-10-16 18:11:09# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:11]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það er leiðinlegt ef annars ágæt umræða er að fara út í eitthvert þras um hver sagði hvað og hvenær.

Ef ég reyni að svara spurningunum eins og ég skildi þær þá eru þær um það hvort ég sé sammála hæstv. utanrrh. um það að stjórnarskrárbreyting sé forsenda fyrir erlendum fjárfestingum. Umræðan er nú kannski ekki endilega komin á það stig að farið sé að reyna á eitt eða neitt í þeim efnum. En ég skildi ekki hæstv. utanrrh. þannig að hann teldi að breytingar á stjórnarskránni væru forsenda fyrir erlendum fjárfestingum. Ég skildi hann þannig að hann teldi að 1. gr. laga um stjórn fiskveiða væri nægjanleg trygging fyrir eign þjóðarinnar á auðlindinni og þá út af fyrir sig burt séð frá því hvort það væri síðan sett í samhengi við fjárfestingar erlendra aðila.

Ég hef hins vegar sagt varðandi niðurstöðu auðlindanefndarinnar að ég telji að ekki eigi að blanda saman því sem auðlindanefndin segir almennt um eignarhald á auðlindum og því sem hún segir um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða og að við eigum að gera breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða út frá því sem lagt er til grundvallar í þeirri sátt sem kemur frá auðlindanefndinni nokkurn veginn óháð því hvað hún er síðan að segja almennt um stjórnarskrármálin og þá kannski sérstaklega í því samhengi að ég vil gjarnan geta lagt fram frv. á þessu þingi um breytingar á stjórn fiskveiða. En eins og við vitum þá tekur stjórnarskrárbreyting svolítið lengri tíma. Það þarf að greiða atkvæði um hana tvisvar og kosningar þurfa að fara fram á milli þannig að bara það eitt undirstrikar það að rétt er að við vinnum málið án þess að endilega séu bein tengsl þar á milli.